17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því við 2. umr. þessa máls, að hæstv. félmrh. gerði grein fyrir atkv. sínu við brtt. við 3. gr. frv., þar. sem farið er fram á að fá Landsbankann til að kaupa skuldabréf að upphæð 20 millj. króna. Hann kvað sig neyddan til að greiða atkv. gegn till., því að hann væri hræddur um, að frv. mundi farast, ef brtt. væri samþ. Ég vil nú spyrja hæstv. félmrh., á hvern hátt það hafi komið fram, að hætta væri á, að frv. félli, ef Landsbankinn yrði skyldaður til að kaupa 20 millj. kr. skuldabréf. Hvaðan koma slíkar raddir? Það er nýbúið að samþ. lög, sem skylda bankann til að leggja fram 100 milljónir til sjávarútvegsins og þá einkum togaranna. Ég get ekki séð, hvaða mótbárur nú er, hægt að koma fram með gegn því, að tryggðar séu 20 milljónir til byggingar verkamannabústaða. Það er ekki forsvaranlegt að neita því að leggja fram 20 millj. til verkamannabústaða, þegar nýbúið er að leggja fram 100 millj. í togara. Bankinn getur ekki skorazt undan því og Alþingi ekki heldur að knýja þetta fram. Þetta frv. er stórgott, svo framarlega sem peningar eru tryggðir til framkvæmdanna. En það verða aðeins glæsileg loforð, ef peningarnir fást ekki til að byggja fyrir. — Ég vil ítreka það, sem komið hefur hér fram, að æskilegt væri að fá staðfestingu frá ráðherra, hvort það sé ekki rétt, að sala á skuldabréfum sé mjög erfið eða jafnvel óframkvæmanleg nú. Það væri æskilegt, ef fjmrh. vildi gefa upplýsingar um þetta. Það liggur ljóst fyrir, að ef ekki er hægt að selja skuldabréf á frjálsum markaði, þá verður að skylda bankann til að kaupa þessi skuldabréf. Alþingi getur ekki staðizt við annað en að taka fullt tillit til þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Ég leyfi mér að bera fram skrifl. brtt., svo hljóðandi:

„Við 3. gr. Aftan við 4. tölulið bætist ný málsgrein, svo hljóðandi:

Nú samþykkir stjórn byggingarsjóðs að afla lánsfjár til byggingarframkvæmda með skuldabréfaútboði, og er Landsbankanum þá skylt að taka við bréfunum fyrir nafnverð, en síðan annast bankinn sölu þeirra. Ekki er bankanum þó skylt að kaupa samkvæmt þessu meira en svo af skuldabréfum byggingarsjóðs, að nemi 15 millj. króna.“

Ég get ekki séð, að þingið hafi ástæðu til að hlífa bankanum við þessu. — Ég vænti svo þess, að hæstv. félmrh. gefi hv. deild skýringar á því, sem kom fram í hans greinargerð við atkvgr. við 2. umr.

Þá liggur fyrir brtt. um að tryggja, að starfa megi í Rvík fleiri en eitt byggingarfélag. Ég skal fara um það nokkrum orðum. Þetta var fellt við 2. umr. Ég álít, að tími sé til kominn, að Alþingi leiðrétti það misrétti frá 1939, er Byggingarfélag alþýðu var svipt rétti til að starfa á þessu sviði. Ég fullyrði, að það er það leiðinlegasta, sem komið hefur fyrir hér, að bola þessu félagi út úr og gera því ókleift að starfa. Það væri sómi þingsins að gera það gott aftur, og vildi ég mæla eindregið með því, að hv. deild samþ. þessa brtt.

Loks er í lögunum, eins og þau eru nú, að viðskiptaráð úthluti byggingarefni. Nú hefur það verið svo undanfarin ár, að það hefur verið að skapast einokun á byggingarefni: Byggingarefnisinnflutningur hefur tvöfaldazt síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp. Ég álít það rangt að veita einstökum mönnum einokun á þessu sviði og tel, að hér verði að verða breyting á. Ég get fellt mig við brtt. um þetta efni á þskj. 872.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessar umr., en höfuðáherzluna legg ég á, að tryggt verði fé til framkvæmda.