10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

29. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason) :

Herra forseti. Mér er óljúft að fresta þessu máli. Nú liggja hjá mér margar umsóknir vel rökstuddar, þar sem menn fara fram á að fá orlof til framhaldsnáms. Hér er t. d. um að ræða ýmsar vísindagreinar, sem menn verða að stunda erlendis. Ef þetta yrði að lögum, þá félli þetta sem orlofsár, og hvað sem öll lög segja, þá er oft óhjákvæmilegt að veita slík fríleyfi til framhaldsnáms eða starfs. T. d. er einn kennari, sem kennt hefur í nokkur ár við menntaskólann í Reykjavík, en hefur ekki lokið prófi, og er því erfitt að festa hann við skólann samkv. fyrri reglum, enda þótt hann hafi reynzt frábærlega vel starfi sínu vaxinn. Ég hef ekki treyst mér að veita honum þetta leyfi, en hins vegar væri sjálfsagt, að hann fengi orlof strax, enda eru skýr ákvæði um það, að hann verði að gera grein fyrir sínu starfi. Hvernig menn treysta ráðh. til slíkra framkvæmda, er annað mál. Það er líka enn meiri nauðsyn fyrir kennara við framhaldsskólana að fá frí til framhaldsmenntunar en fyrir barnakennarana, því að barnakennarar geta numið hér margt af því, sem hinir verða að sækja út fyrir landsteinana. T. d. eru haldin hér við háskólann námskeið fyrir barnakennara.

Það væri gott, ef Alþingi treysti sér til að setja reglur um frí barnakennara. Mér finnst, að með brtt. hv. 1. þm. Eyf. sé hóflega farið í fríin. Atkv. hv. þdm. verða að sjálfsögðu að skera hér úr. Þá tel ég till. hv. þm. Str. standi til bóta og jafnvel brtt. hv. 1. þm. Reykv., sem hv. 6. þm. Reykv. hefur lýst, að hann gæti fallizt á. Gæti ég hér gengið til samkomulags.