17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Hv. þm. V.-Húnv. talaði um það, að tollar, sem skipta milljónatugum, séu frádráttarhæfir og taldir til rekstrarútgjalda þeirra fyrirtækja, sem tollana borga. Ég undrast, að þessi hv. þm. skuli koma með svona samanburð. Hann veit þó vel, að tollar lenda ekki á fyrirtækjum, sem upphaflega borga þá, heldur eru þeir lagðir á vörurnar sem kostnaðarverð þeirra. Stundum hefur því verið haldið fram, að tollarnir væru til hagnaðar þeim, sem vörurnar selja. Ég skal ekkert um það segja, hvort svo er, en þessu hefur oft verið hreyft. En um veltuskattinn er það að segja, að hann má ekki leggjast á vörur í verði þeirra á sama hátt og tollarnir, heldur lendir hann því á fyrirtækjunum sjálfum, sem veltuskattinn borga. Hv. þm. V.-Húnv. segir, að þetta sé ekki nema í orði kveðnu, en eftir lagaákvæðum hljóti framkvæmdin að verða þannig, að almenningur greiði þennan skatt, og þá staðhæfingu sína rökstyður hv. þm. V.-Húnv. með því, að það hefði verið auðvelt, hvað kaupmannaverzlun við kemur að ákveða verðlag á vörum lægra en það hefur verið, svo að vörurnar hefðu verið ódýrari til neytenda, ef veltuskatturinn hefði ekki verið á lagður. En þetta segir hann, að ekki hafi verið hægt vegna veltuskattsins. Nú veit ég ekki, hvernig hann samræmir þetta við það, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni, þar sem hann sagði, að skatturinn yrði til þess, að ýmis fyrirtæki yrðu rekin með rekstrarhalla árið 1945. Ég held, að ekki sé hægt að samræma þetta. Því að ef fyrirtæki þola ekki að borga þennan skatt, þá hefðu þau ekki fremur þolað, að álagning á vörur, sem þau seldu, yrðu lækkuð um 1 eða 1½%. Það er svo náttúrlega allt annað atriði, að verðlagsyfirvöldin hafa kannske ekki í öllum tilfellum hitt á að ákveða álagninguna hæfilega. En ég ætla ekki að draga það mál inn í þessar umr.

Hvað samvinnufélögin snertir, þá liggur það í augum uppi, að þau eiga að vera nákvæmlega eins sett með tilliti til veltuskattsins og kaupmannaverzlanir. Og ég hygg, að það sé alveg rétt, sem almennt hefur verið haldið fram, að verðlag sé yfirleitt mjög svipað hjá kaupfélögum og kaupmönnum á vörum, sem þessar verzlanir selja, enda gætu þessi fyrirtæki tæplega þrifizt hvort við hliðina á öðru, ef vöruverðlag hjá þeim væri ekki svipað. Og þó að kaupfélög hafi úthlutað meiri arði til viðskiptamanna sinna en einstaklingar hafa gert, sem rekið hafa verzlun, — og þeir hafa þó gert það sumir, — þá er þar um að ræða hagnað, þ. e. hjá meðlimum kaupfélaganna, af verzlun, en ekki hitt, að þeir þurfi að kaupa vörurnar hærra verði en aðrir borgarar þjóðfélagsins. Það er náttúrlega rétt, að þeirra verzlunarhagnaður, eins og annarra, sem verzlun reka, minnkar vegna álagningar veltuskattsins. — Annars er viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um, að þessi skattur kæmi niður á viðskiptamönnum kaupfélaga með því að vegna skattsins væri greiddur minni arður í árslok til viðskiptamanna, því að svara, að ég hygg, að kaupfélögin hafi mörg borgað 6–8% af sinni viðskiptaveltu til sinna viðskiptamanna, sem hefur komið út sem endurgreiðsla á vöruverði., en veltuskatturinn er ekki nema 1% af smásöluveltu, nefnilega útsöluverði hjá kaupfélögunum m. a., og jafnvel þó að heildsöluálagning sé talin þar með, þá yrði skatturinn ekki nema 2½%. Það er hámarkið.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði svo um það, að í þessu efni væri ólíkt hafzt að hér hjá okkur í samanburði við það, sem nágrannaþjóðir okkar gerðu nú að láta fara fram eignauppgjör og gera aðrar ráðstafanir til þess að innheimta betur skatta hjá þeim. Og hv. þm. taldi, að heldur en að fara að í þessum sökum eins og ætlað er, að gert verði, bæri ríkisstj. fremur að gera ráðstafanir til þess að innheimta betur hjá þeim aðilum skatta, sem talið væri, að drægju undan af tekjum, og maður veit, að einhverjir draga þannig undan. Ég skal ekki segja, hvort þessar aðgerðir í Danmörku og Noregi eru gerðar fyrst og fremst til þess að hafa upp á skattsvikurum, en ég hygg, að þær séu gerðar frekar af öðrum ástæðum. Hér hjá okkur hefur verið reynt að bæta skattinnheimtuna frá því, sem verið hefur, með því að hafa frekari endurskoðun á skattframtölum en hefur verið. En þessar tilraunir hafa að vissu leyti mætt misjöfnum undirtektum hjá hv. fjvn. Meðal útgjaldatill., þar sem fjvn. hefur skorið niður, er einmitt fjárveiting til ríkisskattanefndar. En bezta ráðið til þess að fá betri skattaframtöl er einmitt það að láta ríkisskattanefnd framkvæma sem allra fullkomnasta athugun á framtölum manna. Þetta eftirlit hefur nú verið aukið nokkuð í ár, og mér er kunnugt um, að það hefur borið talsverðan árangur. Hins vegar er önnur fjárhæð, sem í fjárlfrv. er enn þá, sem gæti að einhverju leyti komið á móti og ég tel ríkisstj. heimilt að verja til þess að greiða kostnað, sem ríkisskattanefnd hefur vegna þessara athugana á framtölum manna. Og það er náttúrlega mjög æskilegt, að tekjur manna komi b.etur fram en verið hefur og skattar þar af leiðandi innheimtist betur en þeir gera. En ég býst við, að hv. þm. V.-Húnv. viti það sjálfur jafnvel og ég, að það getur dregizt, að þetta komist í fullkomnasta horf. Og hversu góð stjórn sem hefur verið og hversu góðan vilja sem hún hefur haft á þessu, hefur það reynzt erfitt að fá tekjurnar eins vel fram í dagsljósið og æskilegt er, og það mun reynast svo áfram.