17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég hygg ekki möguleika á því að fá þá aðaltill. samþ., sem hv. 2. þm. Reykv. lagði mesta áherzlu á, að skylda Landsbankann til þess að lána fé til byggingarmála, með því að ekki mun vera neinn þingvilji fyrir henni. Ég vil þess vegna fara nokkuð vingjarnlega leið í þessu máli við þá, sem stjórna Landsbankanum, og má vel vera, að það sé of mikil bjartsýni hjá mér að gera ráð fyrir því, að hún beri árangur. En það hefur verið svo, að útvegun fjár til þeirra verkamannabústaða, sem hafa verið byggðir, hefur verið framkvæmd að mestu eða öllu leyti af form, byggingarsjóðstjórnar, sem hefur dvalið utanlands, en er alveg nýlega kominn heim. Ég ber það traust til form. byggingarsjóðsstjórnar, að hann muni allur af vilja gerður til þess að útvega fé nú þegar á sama hátt sem hann hefur gert áður, en hann er jafnframt aðalbankastjóri Landsbankans, og síðan þessi tvö embætti voru sameinuð, hefur hann komið þannig fram við byggingarsjóði verkamanna, að hann hefur útvegað þeim það fé, sem þeir hafa haft möguleika til að byggja fyrir á undanförnum árum, og ég hef ekki orðið var við, að afstaða hans sé að neinu leyti breytt. Meðan mikið fjármagn var til í landinu, hrökk ákvæðið um ríkisábyrgð á lánum og þessi aðstoð til þess, að það hefur verið byggt fyrir nokkurn veginn það fé, sem óskað hefur verið eftir að byggja fyrir. Með því fjármagni, sem enn er til í landinu, vil ég að óreyndu ekki trúa öðru en því, að þessi sama aðstoð hrökkvi til, og það því fremur sem ég geri ráð fyrir, að við mundum í bankaráði geta notið ágætrar aðstoðar hv. 2. þm. Reykv., sem að vísu er þar varamaður, en hann getur þó að sjálfsögðu ráðið afstöðu aðalmannsins. sem hans flokkur á þar í ráðinu. Núverandi stjórnarfl. eru meiri hl. í bankaráði Landsbankans, og með þeim undirtektum, sem þetta mál hefur fengið hjá yfirmanni bankans, hæstv. fjmrh., vil ég ekki að óreyndu ætla, að það muni ekki vera hægt að koma nokkru fram í þessu efni.

Viðvíkjandi innflutningi byggingarefnis þá hef ég tekið það fram oftar en einu sinni, að ég hygg, að byggingarsamvinnufélög og þau félög, sem byggja verkamannabústaði, ættu að mynda með sér stórt innkaupasamlband, og þó að heimildin hafi verið felld úr frv. eins og það var upphaflega, hygg ég, að hægt sé að gera slíkt með frjálsum samtökum, og tel ekki, að sú till. frá hv. 2. þm. N.-M., sem hér liggur fyrir, mundi bæta neitt úr í þeim efnum, því að slíku innkaupasambandi, sem þar er gert ráð fyrir að verði stofnað, mundi ofviða að fá innflutningsleyfi, þegar þar að kæmi.