17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það þýðir víst ekki að karpa sérstaklega um þetta mál. Hv. þm. V.-Húnv. talar sérstaklega mikið um þann mun, sem sé á kaupmannaverzlun og verzlun kaupfélaga með tilliti til veltuskattsins, því að kaupfélögin úthluti arði til viðskiptamanna. En þessi munur er ekki eins mikill og lítur út fyrir í fljótu bragði. Munurinn er sá, að kaupfélögin úthluta arði til viðskiptamanna, en kaupmenn úthluta honum til borgaranna í heild sinni, þ. e. a. s., það er tekið af þeirra verzlunarhagnaði svo mikið í skatta til ríkissjóðs, a. m. k. þegar um stór fyrirtæki er að ræða, að það er meginhlutinn af hreinum tekjum þeirra. Svo að þetta er ekki meginatriði í raun og veru.

Staðhæfingar hv. þm. V.-Húnv. um það, að veltuskatturinn sé framlengdur til næstu ára, ef hann er ekki frádráttarbær, eru í hæsta máta einkennilegar. Þegar þessi skattur fellur niður um næstu áramót, sé ég ekki, hvernig hægt er að finna rök fyrir því, að þessi skattur sé framlengdur til næstu ára, þó að brtt. hans verði ekki samþ. Þetta er því fjarstæða, sem hv. þm. V.-Húnv. heldur fram í þessu efni, að skatturinn sé framlengdur, þó að hann sé ekki frádráttarbær. Þetta eru álögur, sem koma á þessar stéttir, sem mest koma til með að greiða af honum, í eitt skipti fyrir öll. Hitt get ég viðurkennt, að ef átt hefði að leggja þennan skatt á áframhaldandi, hefði hann komið niður á vöruverði.