17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Í Ed. var á sínum tíma fellt að setja ákvæði um stofnun allsherjar innkaupasambands. Við 2. umr. hér í d. var fellt að heimila sjóðsstjórninni að koma á innkaupastofnun fyrir alla þá, sem byggja. Nú vill hæstv. dómsmrh. láta fella till. um að heimila hverju félagi að fá. leyfi beint handa sér, af því að það sé of smátt. Hvað vill hæstv. ráðh.? Ég skil það ekki enn, þetta er ýmist of stórt eða of smátt. Ef gr. er samþ. eins og hún liggur fyrir, þá liggur það í hlutarins eðli, að hin stærri félög nota sér þann rétt, sem þau þá hafa til þess að fá byggingarefni sitt beint inn, og spara sér þar með kostnað, en skilyrðið til þess, að það sé hægt, er, að það sé mögulegt að láta þau hafa innflutninginn, en eftir innflutningsreglunum er það ekki mögulegt, og þess vegna tek ég það fram, að þau öðlist sama rétt og þeir, sem fluttu inn byggingarefni áður. Þess vegna er það ákaflega vitlaust, úr því að búið er að samþ. breyt. á annað borð, að geta ekki verið með því, að þetta sé samþ. líka.

Þá skil ég ekki þá tregðu, sem virðist vera á því að gefa eftir tolla á innflutningi frá Svíþjóð. Það er vitað, að búið er að panta og fá leyfi fyrir 30–40 tilbúnum húsum frá Svíþjóð, en þegar talað hefur verið um að gefa eftir tolla af þeim, þá hefur það alltaf verið talið ómögulegt nema með l., en nú má ekki setja inn í l., að ráðh. sé heimilt að gefa eftir tollinn, og hæstv. dómsmrh. telur, að hægt sé að gefa eftir toll án lagaheimildar. Hvaða samræmi er í þessu? Ég tel sjálfsagt að samþ., að heimilt sé að fella niður toll af timburhúsum, en þar fyrir er ég ekki að segja um það, hversu heppileg þau séu, en séu þau óheppileg, er alveg sérstök ástæða til að gefa eftir toll af þessum fyrstu húsum. Ég sé því ekki annað en öll rök mæli með því, að þessi heimild sé gefin.