17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið. En þar sem ég á sæti í fjhn. hv. d. og hef skrifað undir nál. meiri hl. hennar, finnst mér til heyra, að ég geri grein fyrir atkv. mínu.

Nú hafa farið hér fram umr. milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. V.-Húnv. (SkG), og er það engin launung, að ég lét orð falla um það í fjhn., að ég viðurkenndi fyllilega, að þessi veltuskattur og eiginlega það, á hvern hátt frá honum var gengið á síðasta þ., hefði yfirleitt ekki verið athugað sem skyldi. Ég var þá að vísu ekki hér á landi, en hef séð það í umr., sem hér fóru fram um þetta mál, að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann teldi þetta neyðarráðstöfun. Nú vil ég vegna ummæla hv. þm. V.-Húnv. benda á það, að sú skoðun virðist hafa vaxið upp í þessu landi, að það sé alveg takmarkalaust, hvað verzlunarstétt landsins hafi auðgazt eða hafi fjárhagslega sterka aðstöðu. Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á það, að það er sú einasta stétt í landinu, sem vörður hefur verið settur um frá stríðsbyrjun, sem sé verðlagseftirlit. Dreg ég enga dul á það, að ég álít, að verzlunarstéttin, bæði kaupfélög og kaupmenn, hafi ekki síður innt þýðingarmikið hlutverk af hendi í þágu þjóðfélagsins en hver önnur stétt. Ég hef látið orð falla um það við hv. þm. V.-Húnv., að veltuskatturinn væri mjög óréttlátur, en hinsvegar væri bót að því, að eins og hefði verið frá honum gengið á síðasta þ., skyldi hann vera lagður á í eitt skipti fyrir öll, eða m. ö. o. aðeins eitt ár. Ég held, að ég hafi látið svo stór orð falla um veltuskattinn, og ég hef enga löngun haft til að leyna því, að hann hlyti að verða nokkurs konar eignarrán, því að fyrirtækin þyrftu að greiða þennan skatt af eignum sínum.

Ég ætla nú að taka dæmi um veltuskattinn, sem sýnir, að margt hefur ekki verið athugað sem skyldi, er veltuskatturinn var lagður á hér á síðasta þingi. Ég hef leyft mér að taka dæmi um félög og fyrirtæki, sem ég hef haft ákveðnar tölur um samkv. skattskýrslum þeirra. Skattskyldar tekjur þess fyrirtækis, sem hér um ræðir, eru 435550 kr., skattar til ríkis af þeirri upphæð 327966 kr., útsvar í Reykjavík 85000 kr. Síðan þarf þetta fyrirtæki að greiða í skatt utan Reykjavíkur 54605 kr. Veltuskatturinn af þessu nemur 74625 kr. Skattar hærri en skattskyldar tekjur 106646 kr. Allir þessir skattar eru greiddir á sama árinu, þótt allir nema veltuskatturinn séu miðaðir við tekjur næsta árs á undan, en veltuskatturinn er miðaður við sölu þess árs, sem skatturinn er greiddur á.

Svo er hér annað fyrirtæki, sem hefur 107000 kr. skattskyldar tekjur, skatta til ríkisins 36165 kr., útsvar til bæjar 22000 kr., og veltuskatturinn, ef miðað er við árið áður, er 143409 kr. Skattar hærri en skattskyldar tekjur kr. 94.674.00.

Enn er eitt fyrirtæki, sem hefur skattskyldar tekjur 476350 kr. Skattar til ríkisins nema 36659 kr., útsvar til bæjarins 66000 kr. og veltuskattur 51488 kr. Skattar hærri en skattskyldar tekjur 2797 kr.

Af þessu sér maður, að jafnvel fyrirtæki, sem hefur á annað hundrað þús. kr. í hreinar tekjur, hefur töluvert meira en á annað hundrað þús. kr. í veltuskatt.

Þá hefði ég gaman af að taka hér dæmi um eitt iðnaðarfyrirtæki, sem er hlutafélag og stendur því betur að vígi en einstaklingsfyrirtæki. Skattskyldar tekjur eru 69250 kr., skattar til ríkisins 16716 kr., útsvar til bæjarins 25000 kr. og veltuskattur 15172 kr. Þarna eru þá afgangs 12362 kr.

Síðan hef ég tekið hér heildsölu, sem er einkafyrirtæki. Skattskyldar tekjur eru 52400 kr., skattar til ríkis 8878 kr., útsvar til bæjar 10000 kr. og veltuskattur 15400 kr. Afgangs eru þarna um 18122 kr. —

Loks tek ég hér eitt dæmi um smásöluverzlun. Þarna eru skattskyldar tekjur 53943 kr., skattar til ríkis 9251 kr., útsvar til bæjar 13000 kr. og veltuskattur 8465 kr. Afgangur er 23247 kr.

Af því, sem ég hef tekið hér fram, er skiljanlegt, hvers vegna ég tel þennan skatt óréttlátan og hvers vegna ég leyfði mér að nota stór orð um þetta mál. En ástæðan til þess, að ég greiði atkv. með frv., er eingöngu sú, að ég vil ekki undir neinum kringumstæðum, að þessi skattur festist við skattalöggjöfina, enda þótt hann yrði frádráttarbær. Ég tel alveg útilokað að hafa slíkan skatt í skattalöggjöfinni, sem er settur á frá ári til árs og ekki er hægt að leggja á svo, að nokkurt réttlæti sé í undir neinum kringumstæðum.

Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að taka upp samanburð milli aðstöðu kaupmanna og kaupfélaga, en vil aðeins segja það, að enn þá er skattalöggjöf kaupfélaganna öllu sanngjarnari en skattalöggjöfin er gagnvart einstaklingum og hlutafélögum, og á ég aðallega við það fyrirkomulag, sem nokkur togstreita hefur verið um, sem sé, hversu mikið megi leggja í varasjóði, en það vitum við allir, að það er sízt of mikið. Ég vil benda á það, að það er lítil hugsun í þeirri stefnu, sem er beitt af löggjafarvaldinu gagnvart kaupsýslustéttinni, og mætti um það hafa langt mál. Í fyrra stríði sýndi þessi stétt sig þannig, að fyrir hennar atbeina skapaðist miklu betri aðstaða og betri innkaup til landsins en ella hefði verið, og á tímabili því, sem enn stendur yfir, hefur heildsalastéttin — og þar með talið Samband íslenzkra samvinnufélaga — unnið ötullega að innflutningi til landsins. Veit ég ekki annað en að þessi stétt hafi unnið hönd í hönd frá byrjun þessa ófriðar, sem nú nýlega hefur verið til lykta leiddur, að því hlutverki sínu að birgja landið upp með nægilegum vöruforða. Veit ég ekki heldur annað en að Samband íslenzkra samvinnufélaga og sölusamband heildsalanna hafi unnið af fullum skilningi og dugnaði að framkvæmd þessara mála. — Ég get ekki stillt mig um að benda á þetta, þegar farið er að minnast á stéttina í heild, og þar sem mér finnst gæta slíkrar vanþekkingar á þeim málum, að ekki nær nokkurri átt.

Það er áreiðanlega í engu landi nema þessu, þar sem þessari stétt er ætlað að mæta verðfalli eftir stríð, að hún verði látin greiða skatt, sem verður oft á tíðum hærri en tekjurnar, eins og gerð var sérstök gangskör að með veltuskattinum í fyrra. Í öllum öðrum menningarlöndum er fyrirtækjum á sviði viðskipta leyfilegt að taka vissa prósentutölu af umsetningu þeirra til þess að mæta verðfalli. Í þessu sambandi vil ég aðeins minnast á það, að eftir fyrri heimsstyrjöld varð niðurstaðan sú, að þessi stétt varð fyrir stórkostlegu skuldatapi, og var þá jafnt á komið með kaupfélögum og kaupmönnum, af því að atvinnuvegir landsins gátu ekki borið sig. Hið sama skeður áreiðanlega nú, ef skipan þeirra mála, sem hér um ræðir, verður áfram óbreytt. Skattaálögur þessarar stéttar hafa stöðugt verið þyngdar, og nú síðast með veltuskattinum. En slíku má ekki halda áfram.

Finnst mér ég nú hafa leitt rök að því, að veltuskatturinn má ekki undir neinum kringumstæðum festast við skattalöggjöfina, þar eð hann kemur svo óréttlátt niður, eins og hv. þm. V.-Húnv. tók fram. — Að þessu sinni ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri, þótt ástæða væri til að segja margt um viðskiptamálin í heild, en álít slíkt ekki heyra undir þetta mál.