08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Frsm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. þetta og mælir með því í heild, nema hvað við kemur smávægilegum formsatriðum, og mun ég áskilja mér rétt til þess að bera fram brtt. við 3. umr.

Í frv. koma fram hugmyndir n. um nýbyggingu bæja hér á landi. Það er ekki þörf fyrir mig að flytja hér ýtarlega ræðu, þar sem ég gerði það við 1. umr. málsins. Þó eru fáein atriði, sem ég vildi segja frá eigin brjósti. Mig langar að leggja áherslu á það, að við erum að ráða því á Alþ., hvar byggðirnar verða á næstu árum, og í öðru lagi að gera ráðstafanir um byggingar næstu kynslóða.

Síðustu 20 árin hefur nær öll mannfjölgun orðið í Reykjavík. Hvorki er þetta heppilegt fyrir Reykjavík né aðra bæi á landinu og við getum ekki stöðvað þetta nema með því að skapa þá aðstöðu annars staðar á landinu, að fólkið vilji vera þar. T. d. má benda á Akureyri, sem telur um 5 þús. íbúa, að þar vill fólkið vera og það flyzt frekar til slíkra staða. Vafalaust má telja, að þörf væri fyrir nokkra slíka staði. Má hér minna t. d. á Skagaströnd, sem hefur ágæt skilyrði til þessa. Slík skilyrði eru raunar víða á landinu og á þetta spor að vera til þess að skapa bæi á hentugum stöðum á landinu.

Skipulagsuppdráttur hefur verið gerður af Skagaströnd og er miðað þar við 5 þús. íbúa. Þessi uppdráttur virðist vera mjög aðlaðandi, enda er þarna um ákjósanlegt landsvæði að ræða til þess að byggja á bæ. Lítil bryggja er fyrir, svo að það gamla mun ekki valda erfiðleikum í sambandi við skipulagninguna, og virðist vera þarna möguleiki að byggja þarna upp mjög „idealan“, lítinn bæ.

Framsaga mín er ekki lengri að þessu sinni, og ég vona, að till. fjhn. mæti góðvilja hjá þessari hv. þd., og þó að brtt. kæmu hér fram, þá vona ég, að þær hnekki ekki höfuðmarkmiði og tilgangi þessa frv.

Ég vona, að málinu verði vísað til 3. umr.