28.03.1946
Neðri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. landbn. hefur gert að umtalsefni brtt. mínar. Hann sagði viðvíkjandi 1. till., að það hlyti að gegna öðru máli um jarðir, sem ríkið á í erfðaábúð, heldur en jarðir í sjálfsábúð. Ég vil benda honum á, að það geta fleiri en ríkið átt jarðir í erfðaábúð. Hér er heldur ekki um að ræða jarðir ríkisins, því að í 6. gr., sem ég stíla brtt. við, er talað um að kaupa land og taka eignarnámi í þessu skyni. Vitanlega þarf ekki ríkið að kaupa eða taka eignarnámi land, sem það sjálft á, jafnvel þó að jarðirnar séu í erfðaábúð, og ég sé enga ástæðu til að taka þær jarðir frekar eignarnámi en jarðir í sjálfsábúð. En ég sé á þessu, að hv. þm. A.-Húnv. hefur ekki skilið fyllilega, hvað fyrir mér vakir með þessu, þar sem hann fer að tala um ríkisjarðir í þessu sambandi.

Þá er það 2. brtt. viðvíkjandi byggingarstyrk. Hv. þm. segir, að eins og frv. er nú, þá mundu verða á þessu miklir annmarkar og árekstrar, aðallega vegna þess að nýbýlastjórn ráði ekki yfir Byggingarsjóði. Rétt er það að vísu eins og frv. er, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að setja ákvæði um það, að nýbýlastjórn hafi heimild til þess að ákveða styrkveitingar úr Byggingarsjóði, og eins og brtt. mín er orðuð hefur þetta ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir Byggingarsjóð. Það er aðeins heimilt að veita styrkinn í öðru formi en gert er ráð fyrir í frv. eins og það er nú, því að þessi vaxtalækkun úr 4% í 2% er vitanlega styrkur. Þá segir hv. þm., að ég sé að slá því föstu, að vextir verði áfram 4%. Samkv. minni till. eiga þeir, sem fá styrk, að borga 4% af lánum, þeir munu taka lægri lán, en miðað er við 2% samkv. frv. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það geti staðið um alla framtíð, að lánað sé með 2% vöxtum, þó að það sé sett í frv. og lánin eigi að veitast til 42 ára. Þá sagði hv. þm., að það þyrfti ákvæði um hámarksstyrk. En hámarksákvæði er í sjálfri till., þó að ekki sé nefnd ákveðin upphæð, og er auðvelt að reikna út, hvað styrkurinn geti mestur orðið, eftir því, sem segir í brtt. Hv. þm. segist ekki geta samþ. till. mína eins og hún er. Ég tel þetta engin rök. Ef hins vegar landbn. vill taka þetta mál til nánari athugunar og gera á þessu einhverja breyt., sem gæti leitt til svipaðrar niðurstöðu og mín till., hefði ég ekkert á móti því. Þá segir hv. þm., að till. virðist flutt fyrir þá, sem séu svo efnaðir, að þeir kæmust af án þess að fá lán. Þetta er alveg út í hött sagt. En ég býst við, að þeir séu margir og ekki eingöngu þeir, sem betur eru efnum búnir, sem vilja koma upp yfir sig húsum með öðrum hætti en þeim að binda sér skuldabagga um langa framtíð. En það virðist að því stefnt með þessu frv. að láta ríkisstyrk til þessara hluta með vaxtalækkun, en láta hann ekki í öðru formi, þó að menn óski þess. Menn verða að taka á sig þunga skuldabyrði um langan tíma til þess að verða þessa stuðnings aðnjótandi. Ég tel ekki rétt að hafa þetta svo einstrengingslegt sem það er í frv., ég vil, að menn geti orðið þessa stuðnings aðnjótandi á annan hátt, án þess þó að íþyngja því opinbera.

Þá er það 3. brtt. mín, viðvíkjandi forkaupsrétti Byggingarsjóðs. Hv. þm. segir, að þetta geti orkað tvímælis. Ég hefði frekar getað átt von á svona ummælum frá öðrum en hv. þm. A.-Húnv., að það geti orkað tvímælis, hvort gera eigi mönnum kleift að selja börnum sínum eða nánustu skyldmennum jarðir sinar. En eins og frv. er eru menn ekki frjálsir að því að selja jarðir sínar nánustu ættmennum, ríkið eitt eða þessi sjóður hefur heimild til þess að kaupa jarðir, ef um sölu er að ræða. Hv. þm. sagði, að með þessu hefðu menn frekar tækifæri til að fara á bak við tilgang l., en hann færði engin rök fyrir þessu, enda er það ekki hægt, vegna þess að í minni till. er tekið fram, að þó að jarðir séu seldar þessum aðilum, þ. e. venzlamönnum, þá megi ekki selja þær fyrir hærra verð en kostnaðarverð að frádreginni fyrningu. Þar með er loku skotið fyrir það, að jarðir séu seldar háu verði, þó að þær séu seldar þessum aðilum, svo að ég veit ekki, hvernig hægt er að halda því fram, að með þessu sé verið að fara á bak við tilgang l. Hv. þm. benti á, að það væri hægt að gera býli að ættaróðali. Ég skal ekki segja um það, hvort þessi fortakslausu ákvæði, sem virðast vera í 30. gr., verða að víkja fyrir l. um ættaróðul og erfðaábúð. En jafnvel þó að svo væri, tel ég það óverjandi, að menn hafi ekki heimild til þess að selja við kostnaðarverði býli sínum nánustu án þess að fylgja um það sérstökum reglum og gera býlið að ættaróðali um leið, ef þeir kjósa annað heldur.

Þá er það viðvíkjandi svörunum, sem ég fékk við spurningum mínum. Ég tel þau að ýmsu leyti ófullnægjandi. Hv. þm. sagði um 2. spurninguna, að það sé ætlazt til, að ákvæðin gildi eins hvort sem landið er í eigu ríkisins eða einstaklinga. Hins vegar svaraði hann því ekki þegar um einkaeign er að ræða, hvort bændur þyrftu að borga fyrir þessar undirbúningsframkvæmdir, sem gert er ráð fyrir í II. kafla frv. um landnám, sem sagt framræslu lands, hvort þeir þyrftu að borga eitthvað fyrir það og á hvern hátt. Þá sagði hann viðvíkjandi fyrirspurn minni um 28. gr., að í fyrsta lagi væri meiningin að rækta 5 ha á hverju býli. En fyrirspurn minni um það, hvort bændur eigi að fá þessa ræktun ókeypis, svaraði hann á þá leið, að bændur ættu ekki að,. fá þessa ræktun ókeypis. En ég finn ekki ákvæði um þetta í frv. landnámskaflanum, 9. gr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar lokið er undirbúningi landsins til ræktunar og byggðar, skal það leigt með erfðaleigu einstaklingum eða byggðarfélögum með skilmálum, sem nánar verða teknir fram í reglugerð. Leigan skal miðuð við þá kosti, sem landið býður til búskapar og afkomu.“

Þetta skilst mér, að eigi að gerast, þegar búið er að undirbúa landið til ræktunar samkv. II. kafla l. Hins vegar segir í 28. gr.: „Til bygginganna fær hann lán úr Byggingarsjóði handa hverju býli í hverfinu, allt að 75% kostnaðar.“ En seinna segir: „Við móttöku býlisins skal ábúandi, ef um kaup er að ræða, greiða 25% af byggingarkostnaði býlisins, enda telst hann þar á eftir eigandi þeirra bygginga, sem á býlinu eru, og þeirrar ræktunar, er hann hefur sjálfur framkvæmt.“ Þetta gefur til kynna, að hann eigi ekki sjálfur þessa 5 ha, en ekkert ákvæði er í gr. um það, hvað hann eigi að borga fyrir þessa 5 ha, sem rækta á, og á hvern hátt. Um þetta spurði ég og hef ekki fengið svar við því.

Viðvíkjandi fjórðu spurningu minni sagði hv. þm., að það ætti ekki að breyta neinu, hvort býlið væri reist á landi einstaklings eða ríkisins. En ég finn engin ákvæði um það í frv., hvaða stuðning þeir menn eiga að fá, sem reisa nýbýli á landi, sem þeir sjálfir eiga. Ég vil svo ítreka fyrirspurn mína út af 28. gr., um það, hvað bændur eigi að greiða fyrir 5 ha ræktunina og á hvern hátt, og sömuleiðis viðvíkjandi ákvæðum 35. gr., hver beri kostnaðinn við að rækta 5 ha lands á býli, sem er í einstaklingseign.