04.04.1946
Efri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fyrra bragði að hefja neinar almennar umr. um þetta mál við þessa umr. Ég tel þess ekki þörf, sérstaklega af því að frv. fylgir mjög ýtarleg grg. Og þó að ég færi að ræða frv. nú, mundi það ekki verða annað en að miklu leyti endurtekningar á þeirri grg., sem fylgir frv. eins og það var lagt fram.

Þetta frv. er samið af nýbyggingarráði og borið fram af hv. landbn. Nd. í samráði við mig og hefur nú hlotið samþykki þeirrar hv. d., nokkuð breytt að vísu frá því, sem það var lagt fram. Frv. er að sumu leyti sameining á ýmsum lagafyrirmælum, sem nú gilda um landbúnaðarmálefni, en að sumu leyti hefur það að geyma alger nýmæli. En nýmælin eru aðallega í II. og V. kafla frv., og er II. kafli um landnám ríkisins og V. um byggðarhverfi.

Eins og frv. ber með sér og eins og hv. þdm. sjálfsagt er ljóst, mun þetta frv., ef að l. verður, hafa í för með sér allmikil aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Í 4. gr. þess er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram minnst 2,5 millj. kr. á ári til þess að undirbúa ræktun landsins, þar sem á að stofna byggðarhverfi í sveitum. Og samkv. 13. gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 2,5 millj. kr. á ári næstu 10 ár sem framlag til Byggingarsjóðs. Enn fremur er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram vaxtalaus lán til Byggingarsjóðs, og mun það því auka útgjöld ríkissjóðs sem svarar vöxtum af því láni. Má gera ráð fyrir, að útgjöld, sem frv. skapar ríkissjóði, ef að l. verður, verði kringum 5,5 millj. kr.

Það orkar að mínu áliti ekki tvímælis; að ýmis af þeim nýmælum, sem frv. þetta hefur að geyma, eru þess verð, að af hálfu ríkisins sé hjálpað til að koma þeim í framkvæmd. En sá galli fylgir þessu, eins og reyndar mörgum fleirum af þeim nýmælum, sem nú liggja fyrir hæstv. Alþ., að það er ekki bent á nein ráð til þess að afla fjár í ríkisfjárhirzluna til þess að standa undir þeim miklu auknu útgjöldum, sem nýmælunum fylgja.

Ég tel víst, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. visað til hv. landbn. þessarar d. Og ég vænti þess, að sú n. beini athygli sinni sérstaklega að því, á hvern hátt mundi vera hægt að afla fjár til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem hér ræðir um. Og svo framarlega að ekki sé bent á nein úrræði til þeirrar fjáröflunar, sýnist mér í raun og veru ekki verða komizt hjá því að hafa einhverjar frestunarheimildir í þessum l. Mér sýnist allt útlit fyrir það, að búið sé að binda ríkissjóði svo punga bagga á næstu árum, að það muni reynast mjög erfitt, jafnvel þótt aukið líf færist í atvinnuvegina, að afla fjár til þess að standa undir öllum þeim útgjöldum. Og það er augljóst mál, að það er gagnslítið að samþ. ýmis nýmæli, sem gætu orðið til farsældar ef unnt væri að koma þeim í framkvæmd, ef allt strandar á því, að ekki sé unnt að afla þess nauðsynlega fjár til þess að standa undir þeim óhjákvæmilegu útgjöldum, sem þeim eru samfara.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vildi vænta þess, að hv. landbn. vildi hafa, a. m. k. þegar hún er búin með sína fyrstu athugun á málinu, nokkurt samráð við mig um afgreiðslu málsins.