11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Frsm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Það hefur komið fram brtt. við þetta frv. frá tveimur hv. nm. í fjhn., sem aðallega gengur út á það að bæta þarna hreppsnefnd Höfðahrepps inn í. Nú er það svo með þessa nýbyggingarnefnd fyrir Höfðakaupstað, að það er ætlazt til þess, að hún hafi samráð við nýbyggingarráð og ríkisstj., sem er gert með sérstöku tilliti til þess, að það fé, sem n. hefur með höndum, er frá ríkissjóði, og þessi n. á að fjalla um þetta sérstaklega fyrir ríkisstj. hönd. Og þess vegna er eðlilegt, að ríkisstj. og n., sem sérstaklega hefur verið sett í þetta mál, fylgist með fjárútlátum og um annað slíkt, af því að það er ríkissjóður, sem lætur féð af hendi. Þess vegna er nýbyggingarnefnd upp á lagt að hafa samráð við þessa aðila, nýbyggingarráð og ríkisstj. En þarna vilja hv. flm. brtt. bæta inn í þriðja aðilanum, hreppsnefnd Höfðahrepps. Nú er ekki ætlazt til þess, að neitt fé komi þarna á móti til þessara framkvæmda. Hins vegar hefur hreppsnefnd Höfðahrepps verið ætlað að vera einn aðili, sem útnefndi mann í nýbyggingarnefnd. Það er þess vegna ætlunin að hafa samráð við hreppinn um val manna í n., til þess að það sé tryggt frá upphafi, að haft verði samráð við hreppsnefnd þessa hrepps um framkvæmdir þarna af nýbyggingarnefnd. Og ef þessum fulltrúa hreppsnefndarinnar þætti eitthvað varhugavert, sem nýbyggingarnefnd ætlaðist fyrir á þessum stað, þá er ætlazt til þess, að hreppsnefndin á staðnum hafi aðstöðu til að afstýra hvers konar óhagræði og vitleysu, sem þar ætti að gera. Ég hygg því, að fyrir vilja hreppsnefndar Höfðahrepps sé fyllilega séð með því, sem í upphafi hefur verið ákveðið í þessu efni, og að þeir, sem flytja brtt. þá, sem hér er um að ræða, þurfi ekki að óttast það, að sérstaklega verði fram hjá hreppsnefndinni þarna gengið. Hitt er svo annað mál, hvort rétt sé að lögskipa það, að hafa eigi samráð við hreppsnefndina á staðnum um þessa hluti gagngert frekar en fulltrúa hennar í nýbyggingarnefnd þykir nauðsynlegt. Við megum vara okkur, þegar við setjum n., sem eiga að sjá um einhverja stóra hluti og eiga að vinna einhver stór verk, að binda ekki hendur þeirra of mikið. Við vitum, hvernig það gengur oft um störf í nefndum, hreppsnefndum, stjórnum ýmsum o. þ. h., hve sjaldan þær halda fundi og hversu mjög það mundi þess vegna verða til þess að tefja að leggja fyrir nýbyggingarnefnd að hafa alltaf samráð við hreppsnefnd Höfðahrepps um þessa hluti. Ég held því, þar sem hreppsnefnd Höfðahrepps á að velja einn manninn í nýbyggingarnefnd, að það yrði bara til þess að gera þetta stærra bákn en þyrfti að vera að bæta þessu inn í frv., að nýbyggingarnefnd þurfi að hafa samráð við hreppsnefnd Höfðahrepps um að koma upp framkvæmdum á þessum stað. Og hv. flm. þessarar brtt. á þskj. 742 þurfa ekki að óttast það, að fram hjá hreppsnefnd Höfðahrepps verði gengið, þar sem hún hefur sinn fulltrúa í nýbyggingarnefndinni.

Um síðari brtt. á þessu þskj., um það, að hægt sé að selja húsin áður en þau eru fullsmíðuð, er það að segja, að það er sjálfsagt að gera ráð fyrir, að hægt verði að selja húsin, þó að þau séu ekki fullsmíðuð. En ég mundi varla álíta, að þó að þetta standi í 3. tölul. b. í 3. gr. frv. óbreytt, að þar með sé nýbyggingarnefnd það upp á lagt sem skyldu að selja húsin ekki nema fullsmíðuð. Þegar til er tekið m. a., að starf nýbyggingarnefndar sé að reisa sjálf íbúðarhús í samráði við nýbyggingarráð og ríkisstj. til þess að selja þau fullsmíðuð, þá er gefið, að þessi n. hefur líka fullan rétt til þess að selja húsin án þess að þau séu fullsmíðuð. Eins og þessi liður er orðaður í frv., verður ekki öðruvísi á þetta litið, og eftir orðalagi þessarar gr. getur n. selt húsin einnig á öðrum stigum byggingar en fullsmíðuð.

Viðvíkjandi því, að húsin séu gerð eftir fyrir fram gerðum pöntunum, þá getur verið gott að hafa hliðsjón af pöntunum. En ef miða á við það sem reglu í l., þá kynni það kannske að hafa það í för með sér, að það yrði litið svo á af þeim, sem njóta eiga húsanna, að þeir geti gert kröfur um, að húsin verði með þessu eða þessu fyrirkomulagi, sem þeir vilja hafa, í staðinn fyrir, að ef byggja á þarna mörg hús í einu, er skynsamlegast að hafa þau með einni eða í mesta lagi tveimur gerðum, þannig að hægt sé t. d. að smíða glugga, hurðir o. fl. sem mest eins, til þess að gera smíði þessara húsa sem ódýrasta með nokkurs konar standard framleiðslu. Og ef farið væri með l. að gefa mönnum einhvern rétt til þess að panta húsin fyrir fram eða að húsin skuli vera byggð eftir fyrir fram gerðum pöntunum, þá gæti það valdið misskilningi. En hins vegar ætti það að vera regla í nýbyggingarnefndinni að hafa hliðsjón af því, sem menn, sem nota eiga húsin, vildu í þessum efnum. Af þessum ástæðum álít ég ekki rétt að setja þetta ákvæði inn í l. Það getur verið gott, að nýbyggingarnefnd fái bendingar í þessum efnum, en ég álít ekki rétt að binda hendur n. með lagaákvæði sem þessu. Ég held, að það sé rétt að hafa þetta nokkuð rúmt í l., og það sé þess vegna óþarfi að taka upp þessa brtt., sem þrír hv. þm. flytja hér á þskj. 742, heldur megi skoða þá hugmynd, sem í henni felst, sem góða ábendingu til þessarar nýbyggingarnefndar. Ég held líka, að ekki sé ástæða til að óttast, að nýbyggingarnefnd fari að ráðast í svo stórkostlegar framkvæmdir um húsbyggingar á þessum stað, heldur verði það kontrolerað svo mikið, að ekki verði ástæða til að óttast, að of mikið verði í ráðizt. Mér virðist hv. flm. vera hræddir um, að það geti komið til, að byggð verði hús þarna, sem svo standi auð. En ég held, að við höfum allt aðra reynslu af því, þegar svona bæir eru að myndast, heldur en að húsin standi auð, frekar þá reynslu, að það vanti hús og að menn hafist við í slæmum íbúðum. — Ég legg fyrir mitt leyti til, að þessar brtt. verði felldar, af því að það sé ekki ástæða til að setja ákvæði þeirra í l., þó að vísu ekki væri stór skemmd að því, að þær kæmu inn. En ég held, að sú hætta sé ekki fyrir hendi, sem hv. flm. brtt. vilja afstýra með þeim.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. minntist á 5. gr., vil ég taka það fram, að það var fyrsta verk nýbyggingarráðs, þegar það fyrir rúmu ári síðan ræddi þann möguleika að gangast fyrir því, að þarna á Skagaströnd kæmi skipulagður bær, að fara fram á það við hæstv. fjmrh., að ríkið keypti Spákonufell, sem það þá ekki átti. Og hæstv. fjmrh. framkvæmdi það, þannig að ríkið eignaðist, áður en farið var að ræða opinbert um þetta nýbyggingarmál í Höfðakaupstað, allar jarðir, sem þorpið stóð á og voru í námunda við það. Var það mjög mikil bót. Hins vegar er það alveg rétt, að það er gefið, að maður lendir hvað eftir annað í vandræðum vegna réttinda til landa þarna, þó að bærinn nái jarðeignarréttinum í sínar hendur, því að þá eru eftir allar mögulegar kvaðir að yfirstíga í sambandi við afnotarétt landanna, svo sem erfðafesturéttur á löndum, sem þessi byggð verður að rísa upp á, sem getur gert jafnerfitt fyrir eins og eignarréttur væri. Og sérstaklega gerir það erfitt fyrir í þessum efnum, að hæstiréttur hefur farið inn á þá leið upp á síðkastið, að hana metur jarðir þannig, að hann bókstaflega leggur braskverð þeirra til grundvallar við mat, það hugsanlega verð, sem verða kynni á þeim í framtíðinni, þegar bæir vaxa. T. d. má nefna Höfn í Siglufirði. Og þetta er að verða vandræðafyrirbrigði í sambandi við bæjamyndun og bæjaþróun á Íslandi. Hér liggur lagafrv. fyrir þinginu, sem ég er flm. að ásamt hv. 6. landsk. þm., um ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, sem er frv. nefndar, sem einu sinni var skipuð vegna þessara vandræðamála. Það frv. hefur hins vegar mætt gagnrýni frá hálfu hæstaréttar, sem sjálfur á mjög mikla sök á því, með sínu vafasama mati á þessum hlutum, hvernig komið er í þessum efnum. Þess vegna verð ég að segja það, að ég er hræddur um, að það þyrfti meiri aðgerða með í þessu efni en að breyta 5. gr. frv. til þess að yfirstíga þennan örðugleika. En hugmyndir hv. 2. þm. N.-M. um þetta eru réttar. En við þekkjum bara reynsluna, sem hér hefur verið í hvert skipti, þegar reynt hefur verið að koma einhverju viti í þessi mál, hve ógurlegri mótspyrnu það mætir. Og þó að æskilegt væri að fá þessa breyt. fram á frv. við 3. umr. þessa máls og mjög eðlilegt, þá er ég hræddur um, að það þýði bara ekki að reyna það, vegna þess elds, sem það mundi skapa á Alþ., og deilna, miðað við undanfarna reynslu um slíkt á hæstv. Alþ. En það þyrfti að taka þetta mál í heild fyrir, því að hér er um meinsemd að ræða, sem við stöndum frammi fyrir viðkomandi myndun allra bæja á Íslandi. Og þó að ég sé fyllilega sammála hv. 2. þm. N.-M. í þessu efni í skoðun á kjarna málsins, þá mundi ég ekki treystast til þess — nema ég gæti fengið einróma yfirlýsingu frá fjhn. um fylgi við þetta mál, sem ég er ákaflega hræddur um, að ekki fengist — að fara að reyna að koma fram breyt. á þessu máli, hversu æskilegt sem það þó hefði verið. Nýbyggingarráð gerði að sínu leyti það, sem það gat, til þess að bægja þessari meinsemd frá dyrum þessa nýja bæjarfélags, sem þarna á að skapa, með því að ræða um þetta mál við hæstv. fjmrh. um kaup á nefndum jarðeignum, áður en nokkuð kæmist út um fyrirhugaða nýbyggingu þarna. Og þessi kaup voru gerð fyrir ríkisins hönd. En við þetta verður ekki hægt að ráða, hvað matið snertir. Mér þætti vænt um að fá að heyra álit t. d. form. fjhn. um þetta, hvort það gæti komið til mála, að breyta þannig gagngert 5. gr. frv. En ég er hræddur um, að samkomulag náist því miður ekki um það. Þess vegna vildi ég mælast til þess við þessa hv. d., að hún samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir.

Þá gerði hv. þm. V.-Húnv. fyrirspurn viðkomandi skilningi á 2. og 3. tölul. 3. gr., og skal ég staðfesta það, sem hann sagði, að nýbyggingarnefnd á að hafa framtak um að sjá um að koma þessum fyrirtækjum upp, enda var það upprunalega þannig orðað hjá okkur flm., þegar við sendum þetta frá nýbyggingarráði, að vinna að því að koma upp atvinnufyrirtækjum í þessari byggð í samráði við nýbyggingarráð. En þessu var breytt og það orðað um í meðförum hjá hæstv. ríkisstj. í þá átt, sem það nú er. En ég hef skilið þetta alveg eins og hv. þm. V.-Húnv., að þetta þýði það, að nýbyggingarnefnd hafi forgang um þetta framtak. En hins vegar getur hún, ef ríkisstj. vill það viðhafa, komið upp atvinnufyrirtækjum þarna fyrir ríkisins hönd.