11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af þessum brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. meiri hl. fjhn., vil ég segja það, að ég lít svo á, að þessar brtt. við frv. séu alveg óþarfar, vegna þess að því, sem hv. flm. þeirra gera ráð fyrir að ná með þeim, er alveg eins hægt að ná eftir ákvæðum frv. eins og það er. En ég mæli á móti þessum till. vegna þess, að ég tel, að þetta geti í vissum tilfellum orðið til þess að tefja fyrir og flækja, vegna þess, að eftir því sem fleiri menn eru bundnir til samræðna, eftir því er erfiðara að fá urri það samkomulag. Nú er það svo samkv. þessu frv., að hreppsnefnd Höfðahrepps hefur fulltrúa í n., og það er búið að skipa þessa n., sem fjhnm. kannske ekki vita, og var ætlazt til, að hún byrjaði starf sitt, þótt það hafi ekki tekizt enn, vegna annarra ástæðna. Og þó að sá fulltrúi, sem hefur verið skipaður í n. eftir tilnefningu hreppsnefndarinnar, sé eins og stendur ekki í hreppsnefnd, hefur hann aðstöðu til að leita hennar álits, og þar að auki er sá fulltrúi, sem skipaður hefur verið í n. af ríkisstj., nú kominn í hreppsnefnd, svo að það má heita, að tveir af þeim fulltrúum, sem verða í þessari n., hafi fulla aðstöðu til þess að hafa samráð við hreppsnefndina svo sem þeim sýnist.

Varðandi það, að farið sé eftir óskum manna í plássinu varðandi byggingar húsa, þá er það alveg eðlilegt, og ég fyrir mitt leyti vænti þess og efast ekki um, að nm. geri það.

Hvað snertir þriðja atriðið, sem er bætur til þeirra, sem verða að láta af hendi lóðir eða hús, þá er það svo, að ég er í því efni alveg á skoðun hv. þm. V.-Húnv., að það hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir matsgerð, hvílíkar þær bætur eru. Ef um alveg nýjar lóðir, óbyggðar og óræktaðar, er að ræða, þá getur ekki orðið um miklar bætur að ræða. En ef hins vegar um er að ræða gömul tún og vel ræktuð, hús og lóðir og þau eru tekin inn á iðnaðarplássið, þá er eðlilegt, að hlutaðeigendur fái sínar bætur eftir því, sem það er metið, og færi það að sjálfsögðu eftir þeim l., sem um það gilda, og þarf að mínu áliti ekki að taka það fram í þessum l. Hitt er út af fyrir sig rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að það væri eðlilegt, að um þessa hluti væru samin allsherjar l., til þess að það sé ekki eins mikið á reiki og verið hefur, hvað háar bætur ætti að meta á hverjum stað, þegar um er að ræða lönd eða lóðir og önnur mannvirki, sem tekin eru af þeim mönnum, sem hafa þau með höndum. En reynslan hefur sýnt, að bæturnar, sem metnar eru til manna, fara mjög eftir því, hvaða menn lenda í því að meta þær og á hvaða stað metið er. Fer þetta þá mjög í ósamræmi hvað við annað.

Ég vil svo óska þess, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.