12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt 2 öðrum þm. smávægilega brtt. við 17. gr. frv., og er hún prentuð hér á þskj. 776. Brtt. er um það, að síðasta málsgr. þessarar gr. skuli falla niður. Eins og vitað er, var þessi málsgr. ekki í frv. þegar það var lagt fyrir Alþ., en var skeytt við samkv. samþykkt Nd. Við flm. till. teljum ástæðulaust að fella inn í frv. þessa málsgr. Hún horfir lítið til hagsbóta eða örvunar á því starfssviði, sem hér er um að ræða, og hún er sízt til þess fallin að draga hreinar línur í framkvæmdum l. Það, sem er mergurinn málsins í þessari gr., sem við viljum láta fella niður, er að heimila nýbýlastjórn að veita lántakanda óafturkræft framlag úr sjóðnum, sem aftur á móti kemur til greina í vöxtum lántakanda af þeim hluta, sem hann tekur að láni, sem þá er takmarkað við aðra hámarksupphæð en annars er um að ræða, sem sagt lægri upphæð. Ég fæ ekki betur séð en þetta geti ekki horft til neinna hagsbóta, en sé heldur til þess að geta valdið ágreiningi og gratitargerð í framkvæmd laganna. Þetta á að vera matsatriði í hvert skipti, og ég tel það út af fyrir sig varhugavert að opna dyr að slíkri matsgerð og í rauninni ekki ólíklegt, að slík heimild, þegar á hana kynni að verða farið að sækja, að fá þetta óafturkræfa framlag, gæti auðveldlega orðið til ágreinings meðal þeirra, sem skipa nýbýlastjórn, að verða að meta, hvort sé ástæða fyrir þennan mann eða hinn, sem slíks kynni að leita, að verða við slíkri beiðni, því að það er engin markalína dregin, þannig að það mundi verða til að valda ágreiningi milli nýbýlastjórnarmanna, hver það ætti helzt að vera, sem yrði þessa styrks aðnjótandi. Það er ekkert sagt um það. Það er þá helzt, að þeim væri þetta keppikefli að fá þetta óafturkræfa framlag, sem vildu láta skrifa eignir sínar á minna nafnverð, en ég sé ekki, að það snerti að neinu leyti merg málsins og sé þar með óþarft og engum, þegar öll kurl koma til grafar, greiði gerr með þessu. Ég tel það ætti að vera styrkur þessari lagasetningu og jafnvel framkvæmdinni, að þær reglur, sem settar eru um störf þess og aðferðir í framkvæmd, séu sem fábreyttastar og skýrastar og l. svo ákveðin í hvívetna, og sízt af öllu ætti að gera leik til að setja nokkur ákvæði, sem séu á sérstakan hátt lagin til þess að valda ágreiningi. Það er nú líka svo, þegar um þetta atriði er að ræða, að ég fyrir mitt leyti fæ ekki séð, hvaða fé stj. hefur milli handa til að veita slík óafturkræf framlög eftir slíku frummati, sem slíkt handahóf gæti framið. Mér þykir ekkert eðlilegra en að nýbýlastjórn hverju sinni væri mjög illa við að fá slíka heimild sem þessa í hendur af þeim ástæðum, sem ég hef nú greint, það sé ekkert, sem greiði fyrir til þeirra aðgerða, sem um er að ræða, en setji aðeins inn ákvæði, sem mundi valda vafningum eða torveldleik í staðinn fyrir að hafa þá einföldu aðferð, sem sá bálkur frv. setur að öðru leyti. Það er því ósk okkar flm., að hv. d. geti fallizt á, að þessi umtalaða málsgr. 17. gr. frv. verði felld niður. Hins vegar vil ég taka fram, að þar sem er mjög áliðið þings og ég geri ráð fyrir, að mörgum hv. þm. sé sama í hug og mér um það, að nauðsyn beri til, að frv. verði að l., dagi ekki uppi, hrökklist ekki milli d. með þeirri niðurstöðu, að það dagi upp, þá vil ég fyrir mitt leyti engan veginn verða til þess að bera fram brtt. og láta samþ. hana, ef það hlytist af slíkri brtt., að frv. dagaði uppi. Ég slæ þennan varnagla af minni hálfu, að ég vil ekki láta samþ. minnar brtt. verða til þess. En ef fleiri brtt. yrðu samþ. og öryggi virtist fyrir því, að frv. yrði að l. á þessu þ., þá er eindreginn vilji okkar flm., að þessi umtalaða málsgr. verái felld úr frv.