12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af brtt., sem hér liggja fyrir. Það liggja fyrir, að mig minnir, þrjár brtt. frá hv. þm. Dal., frsm. þessa máls. Ég þóttist taka svo eftir þeim, að mér fyndist, að þær, a. m. k. tvær af þeim og líklega allar, væru til bóta. Ég áttaði mig ekki fullkomlega á þeirri, sem var um söluna, en þar sem hér er reyndur lögfræðingur, þá geri ég ráð fyrir, að sú till. sé til bóta líka. Þá liggur hér fyrir brtt. á þskj. 776, sem er um það, að síðari málsgr. 17. gr. falli burt, en sú málsgr. gerir ráð fyrir því, að í staðinn fyrir löng lán, sem veitt eru til ýmissa framkvæmda og ríkið ber allverulegan kostnað af, vegna þess að lánsvextirnir eru lægri en ætla má, að vextir verði af því fé, sem ríkið þarf að borga, þá geti nýbýlastjórn í stað þessara lána veitt eins konar styrk eða fjárframlag, sem er óafturkræft, til þeirra, sem byggja. Ég skal nú taka það fram, að mér er þetta atriði ekki svo vel kunnugt eða ljóst, að ég vilji fullyrða, að þetta kunni ekki að reka sig á það aðalfyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég er ekki frá því, að eiginlega sé frv. byggt upp með það fyrir augum, að þar sé eingöngu lánastarfsemi, en ekki styrktarstarfsemi. En það vil ég samt taka fram, að ég skil gr. svo, að ef sá háttur yrði hafður á að láta styrk í staðinn fyrir lán, þá eigi það ekki að vera nein sérstök hlunnindi fyrir þann, sem fær þetta, og ekki heldur sérstök útgjöld fyrir ríkið, vegna þess að það á aðeins að finna, hvað það væri, sem ríkið legði fram sem vaxtamismun yfir lánstímann, en síður held ég, að það geti verið tilgangurinn með þessu ákvæði, sem ég las í blaði hér í morgun, að þetta mundi eiga að vera til þess að láta þá menn fá þennan styrk, sem væru of ríkir til þess að fá lán. Þetta er bara heimild, og ég geri ráð fyrir, að slíkt geti ekki komið til mála. Nú er það svo, að ég fullyrði ekki, hvort þessi brtt. er til bóta eða spillis í frv. Ég aðeins get látið uppi það álit mitt, að ég vona, að nú takist að búa þannig um, að þessar framkvæmdir leggi mönnum ekki stórútgjöld á herðar um langa framtíð. Þess vegna get ég hugsað, að það væri engin fjarstæða, að heimilt væri að veita þeim mönnum nokkra aðstoð, sem reyna að klífa þrítugan hamarinn til að fá hús yfir sig og losa sig við þá skuldabyrði, sem vel má vera, að ýmsir verði á sig að taka, því að allar slíkar framkvæmdir eru nú mjög dýrar.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en ég geri ráð fyrir, að ég geti ekki greitt þessari till. atkv. — Eins og hv. frsm. fyrir þessari till., hv. 2. þm. Árn., drap á, þá vil ég gjarnan, að þetta frv. verði að l. Ég veit ekki, hvað fast Nd. kann að standa að þessari till., en öruggara gæti verið að samþ. ekki breyt. við frv., sem maður vissi fyrir fram, að kynni að vera ágreiningur um.