16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. geta gert sér hugmynd um, hefur fjhn. ekki haft mikinn tíma undanfarið til að athuga þetta mál, sem er merkilegt nýmæli, en það varð samróma álit n. að mæla með samþykkt frv. í heild. Tveir nm. gera þetta þó með fyrirvara.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um málið, en tel, að hér sé um merkilega tilraun að ræða, og þótt hún kosti mikið, þá ber ekki að líta á það frá því sjónarmiði, hver verður beinn stundarhagnaður af þessum framkvæmdum, heldur ber að líta á þetta sem tilraun til að búa til bæ, sem verða mætti til fyrirmyndar síðar og læra mætti af. Þetta vildi ég taka fram nú þegar.