16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Gísli Jónsson:

Mér virðist, að örlög þessa máls séu ráðin, hvort sem það nú er gott eða vont. En ég er hræddur um, að n. hafi ekki gert sér ljóst, hverjar kröfur kunna að falla á ríkissjóð í framtíðinni í sambandi við þetta mál.

Í 3. gr. frv. eru sett ákvæði, sem ég veit ekki betur en séu nú til í öðrum l., og hefði þá annað tveggja átt að nema burtu eldri ákvæði eða taka fram, að sérstakt gilti varðandi Höfðakaupstað. Þannig er það t. d. með ákvæðin um skipulag á byggðinni og aðstoð við byggingu íbúðarhúsa. Um þetta hvort tveggja eru nú til lög, og hefur sumum þegar þótt nóg að gert. Þá er í 4. lið 3. gr. gert ráð fyrir að koma upp rafveitu. Ég veit ekki betur en þetta sé ákveðið í raforkulögunum. Hvernig skyldi því verða tekið, ef farið væri fram á, að ríkið legði allar götur í Reykjavík?

Þá vil ég benda á, að ég tel nauðsynlegt, að þetta land, sem á að byggja á, komist í eign ríkisins, svo að hækkað lóðaverð komi því þó að minnsta kosti til góða. Þá vil ég taka það fram, að ég áskil mér rétt til að gera sömu kröfur fyrir hönd minna umbjóðenda, og ég hygg, að fleiri þm. vilji segja hið sama. Fyrir þeirri hlið málsins ættu allir að hafa opin augu.