16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þetta. En mér fannst það undarlegt, að frsm. skyldi leggja beinlínis móti brtt. minni, og fannst mér á ræðu hans það vera af því, að hann misskildi hana. Virtist hann leggja annan skilning í hana en rétt er. Það er rétt hjá honum, að svipuð till. eða kannske alveg eins var felld í Nd. En það hefur komið fyrir, að borin hefur verið fram sama till. í seinni d. og felld hefur verið í þeirri fyrri. Hann taldi þessa till. mína óþarfa, sökum þess að hreppsnefndin tilnefndi einn mann í þessa nefnd, þetta sovét, sem á að stjórna Höfðakaupstað, og hreppsnefndin hefði þannig hlutdeild í sovétinu. Ég veit það, að hreppsnefndin hefur aðeins nokkra hlutdeild í þessu. En svo er einnig um nýbyggingarráð, að það á að tilnefna mann í þessa n. En samt sem áður er það beinlínis tekið fram í 3. gr., að n. eigi að starfa í samráði við nýbyggingarráð og ríkisstj., þó að nýbyggingarráð hafi hlutdeild í n. með því að tilnefna, og einmitt í sambandi við það fannst mér það vera réttmætt, að n. starfaði í samræmi einnig við stjórn viðkomandi sveitar eða stjórn þess bæjar, sem þarna á að rísa upp. Hann hélt því fram, hv. frsm., að þessi n. þyrfti að hafa vald yfir þeim hlutum, sem frv. fjallar um. En hún hefur bara þetta vald, þó að till. mín verði samþ. Mér skilst, að samkv. frv. sé það í raun og veru ráðgefandi vald, sem nýbyggingarnefnd hefur í þessum efnum, a. m. k. að nokkru leyti. Og hún mundi hafa þetta ráðgefandi vald eftir sem áður, þó að tiltekið væri, að hreppsnefndin ætti að starfa í samráði við hana. Og ég er undrandi yfir því, að ekki skuli mega gera ráð fyrir því, að álits hreppsnefndarinnar verði leitað um þær framkvæmdir, sem til standa. Ég held, að ekkert tjón geti af því hlotizt á nokkurn hátt.

Hv. frsm. talaði um, að þetta væri ekkert sovét, við gætum hætt öllum orðaleik um það, þetta væri mjög íslenzk nefnd. Ég verð að segja, að ég held, að það hafi aldrei hent hingað til, að slík yfirstjórn sveitar eða bæjar hafi nokkurn tíma verið sett. Að hún geti talizt íslenzk n. þrátt fyrir það, má vera. En það er a. m. k. ekki íslenzk venja að hafa slíka yfirhreppsnefnd og yfirbæjarstjórn. En ég er ekki að leggja til, að frá því verði horfið, en óska eftir því einu, að haft verði samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn eins og á að hafa samráð við nýbyggingarráð og við ríkisstj. — Ég held því, að frsm. hljóti að breyta afstöðu sinni til þessa máls, þegar það rennur upp fyrir honum og mér hefur tekizt að skýra það fyrir honum, að hér er í rauninni ekki um að ræða að svipta þessa n. neinu eiginlegu valdi, því að það er alls ekki meiningin.

Það er nú ekki álitlegt fyrir mig að ræða við hv. frsm. um sögur úr biblíunni, t. d. um feitu og mögru kýrnar, og hvernig eigi að skilja það eða hvaða dæmi megi af því draga. Hann er guðfræðingur, eins og allir vita, og guðfræðingar standa auðvitað betur að vígi að útlista slíkar sagnir en leikmenn. En hann komst að þeirri niðurstöðu, að allt, sem hér væri að gerast í landinu, og það, sem ríkisstj. kallar nýsköpun, væri bara það, sem Jósef hefði gert í Egyptalandi. Ég get ekki vel fallizt á þetta. Það má raunar segja, að þegar fjármunir, sem safnað hefur verið að mestu áður en ríkisstj. tók við völdum, eru lagðir í fyrirtæki eins og síldarverksmiðjur og ýmislegt annað, sem á að gefa tekjur síðar, þá geti það minnt á ráðstafanir Jósefs, vegna þess að það á vitaskuld að tryggja afkomuna aftur,, þegar versnar í ári. En það er nú ekki alltaf því að heilsa, að öllum peningum, sem eytt er nú á tímum, sé varið í slík arðberandi fyrirtæki. Að vísu hefur nú á síðasta ári nokkur nýsköpun átt sér stað, nokkuð af því, sem við létum okkur nægja í gamla daga að kalla framfarir, en nú má ekki kalla annað en nýsköpun. En ég held þó, að það sé ekki hægt að halda fram, að t. d. 137½ millj. hafi farið í þá hluti á síðasta ári, en þess hefur verið getið í blöðum, að frá lokum febrúarmánaðar 1945 til jafnlengdar 1946 hafi inneignir landsmanna erlendis minnkað um þessa upphæð. Það er mest af þessu, að t. d. togarar og önnur framleiðslutæki, sem ráðgert er að kaupa, eru ókeypt enn, þó að búið sé að semja um það, svo að eitthvað töluvert af þessu fé virðist hafa farið í annað en að tryggja framtíð þjóðarinnar. — Annars ætla ég ekki að vera með neinar heimspekilegar hugleiðingar, en hv. þm. Dal. innleiddi þetta hér, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að nú væri hér öðruvísi farið að í þessu máli en Jósef gerði í Egyptalandi. Skal ég nú sleppa þessum umræðum.