16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Því verður ekki neitað, að frv. leggur skyldur á herðar. Skilyrði þess, að verkamenn geti hafzt við á Skagaströnd, verða að vera fyrir. Engin ástæða er til þess að ætla, að frv. skapi stór útgjöld fyrir ríkissjóð, en því er ekki neitandi, að alltaf er nokkur hætta,, er ríkisábyrgð á nýjum fyrirtækjum er veitt, en hún mun nú ekki vera alvarlegri en svo oft áður.

Ég vil vekja athygli á 7. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður leigir Höfðahreppi nægilegt land fyrir hina nýju byggð. Árlegt eftirgjald skal vera 2% af, fasteignamati landspildunnar, sem leigð er. Nýbyggingarnefnd greiðir afgjald þetta til ársloka 1951, og telst það sem annar kostnaður við þessar framkvæmdir.

Á þessu tímabili leigir nýbyggingarnefnd einstaklingum, félögum og stofnunum lóðir úr landspildu þessari með þeim skilmálum, sem ákveðnir verða í samráði við hreppsnefnd Höfðahrepps og ríkisstjórnina.“

Á nýbyggingarnefnd að leigja einstaklingum landspildur úr Höfðakaupstað? Ég skil þetta nú ekki, að það sé hægt að leigja tveim sama landið. Það er líka tekið fram, að árlegt eftirgjald skuli vera 2% af fasteignamati landspildunnar. Ríkisstj. kaupir þessar jarðir fyrir margfalt fasteignamat, og það er miður heppileg leið þetta, að ríkissjóður þurfi alltaf að tapa. Getur það ekki verið svo, að venjuleg lóðarleiga ofbjóði rekstrinum, og væri ekki rétt að gera þessa grein dálítið ljósari?