14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Í umr. um það mál, sem rétt í þessu var vísað til 2. umr., frv. um nýbyggingarráð, kom fram ýmislegt það af röksemdum, sem ætla mætti, að heima ætti við þetta frv., sem hér um ræðir, um fiskveiðasjóð Íslands. Þegar athugað er, að sjávarútvegur er höfuðundirstaðan undir því útflutningsverðmæti, sem landsmenn eignast, og þar af leiðandi erlendum innistæðum, þá er í rauninni ekki nema eðlilegt, að í sambandi við þá ákvörðun Alþ. á s. l. þingi að leggja 300 millj. kr. til hliðar af erlendu verðmæti til þess að hækka framleiðsluverðmæti landsmanna á öllum sviðum, var fyrst og fremst hugsað um þennan mikilsverða atvinnuveg, sem er sjávarútvegur, enda gerði nýbyggingarráð sér far um að efla þá lánsstofnun til stofnlána, fiskveiðasjóð Íslands, svo að hann yrði gerður fær um að veita stofnlán, ekki einungis til að kaupa fiskiskip, heldur líka til að lána út á þau iðnaðarfyrirtæki og annað, sem tilheyrir sjávarútveg eða stendur að öðru leyti beint eða óbeint í sambandi við þennan atvinnuveg. Fiskveiðasjóðurinn er, eins og kunnugt er, orðinn 40 ára gamall. Hann hefur um langt skeið starfað sem eina lánsstofnunin svo að segja til stofnlána fyrir bátaútveginn og hefur lengst af sætt þeim örlögum að hafa allt of lítið fé til umráða til síns mikla þjóðþrifastarfs. En um það munu allir sammála, að þessi stofnun, fiskveiðasjóður Íslands, hafi verið bátaútvegi landsmanna hinn mesti höfuðstyrkur og stoð í þau ár öll og tugi ára, sem hann hefur nú að baki. Nýbyggingarráði þótti það þess vegna í rauninni alveg sjálfsagt, að þegar nú væri þess freistað að efla allsherjar lánsstofnun sjávarútvegsins, yrði valin til þess þessi virðulega og góða lánsstofnun útvegsmanna, sem þeir hafa nú skipt við í svo mörg ár. Þess vegna var horfið að því að leggja til að efla fiskveiðasjóð Íslands í því skyni, er um ræðir. Skv. þessu frv. er honum þá ætlað að færa út sitt verksvið að miklum mun og verða hæfur til þess að lána út á miklu stærri skip en hann hefur áður gert, og eins og það er orðað, er það tilgangur frv. að gera fiskveiðasjóðinn færan til að veita stofnlán til þeirra framkvæmda, sem stefnt er að með l. um nýbyggingarráð og að öðru leyti með stefnuskrá núverandi ríkisstj. Hvað þetta frv. snertir, þá er gert ráð fyrir því, að lánin séu tvenns konar, a-lán og b-lán, a-lán, er eingöngu má verja til greiðslu á atvinnutækjum smíðuðum erlendis og til kaupa erlendis á efni og vélum til skipasmíða eða annarra framkvæmda innanlands, og b-lán, er verja má til innlendra framkvæmda að því leyti, sem þær krefjast ekki erlends gjaldeyris. Það er rétt, að í nýbyggingarráði varð sú hugsun einnig ríkjandi að nota beinlínis hinar erlendu innistæður til þess að kaupa fyrir þær þessi atvinnutæki frá útlöndum, og við höfðum jafnvel í byrjun hugsað okkur, að hægt væri að veita lánin í erlendri mynt, en við nánari athugun, sérstaklega eftir bendingu bankanna, var fallizt á að breyta því þannig, að öll lánin færu fram í innlendri mynt fyrir milligöngu seðladeildarinnar og þeirrar sérstöku lánsstofnunar, sem hér um ræðir. En kjarni málsins verður þó jafnan sá, að það, sem fer fram, er það að breyta hinum erlendu innistæðum í vélar og áhöld, skip og fleira, til þess að vinna að eflingu íslenzkrar framleiðslu.

Vextirnir, sem talað er um í þessu frv., eru vitanlega mjög miklu lægri en áður hefur átt sér stað, og á ég þar aðallega við það, hvaða vaxtakjör bæði sjóðir og aðrar lánsstofnanir hafa orðið að hafa á undanförnum árum. Enda sýnist nú vera sérstakt tækifæri til þess að hafa þessa vexti mun lægri en áður hefur verið, þegar þess er gætt, að sú erlenda mynt, sem á að standa undir a-lánunum, var á þeim tíma, þegar þetta frv. var samið upphaflega, utanlands á mjög lágum vöxtum. En svo hefur þetta breytzt síðan, að því er mér er sagt, og svo er komið, að bankarnir munu ekki fá neina vexti af hinum erlendu innistæðum, og skildi ég það þannig, að það mundi vera af því, að féð liggi blátt áfram í bönkum, en hafi ekki verið varið til kaupa á verðbréfum.

Ég tel nú ekki þörf á því að fara hér út í hinar einstöku greinar þessa frv. Í stuttu máli má segja, að verksvið fiskveiðasjóðs sé talsvert fært út. Það er fært út að miklum mun að því er það snertir, að lánin eiga að ná til miklu stærri skipa en verið hefur. Enn fremur er það fært út á þann veg, að sú upptalning í 3. gr. frv., sem ræðir um það, út á hvað skuli veita lánin, er fyllri og nær til fleiri greina atvinnulífsins, ef svo má að orði kveða, heldur en áður hefur verið. Það er tekið hér í upptalninguna dráttarbrautir, sem ekki hafa áður, að því er ég bezt veit, átt aðgang að lánum úr fiskveiðasjóði, og svo er einnig með þau önnur fyrirtæki, sem vinna eingöngu eða að langmestu leyti í þágu sjávarútvegsins. Ef þetta frv. því yrði að l., ætti stjórn sjóðsins því ekki að þurfa að vísa neinum á bug, sem færi fram á stofnlán, svo fremi að það væri til fyrirtækis, sem annaðhvort eingöngu eða að langmestu leyti ynni í þágu sjávarútvegsins. Þetta er til viðauka hinni almennu upptalningu í 3. gr., sem er, eins og þar segir, byggt á því, að lánin skuli veitt gegn 1. veðrétti í fiskiskipum o. s. frv.

Ég sagði áður, að upphaflega hefði verið gert ráð fyrir, að a-lánin yrðu greidd erlendis, en endurgreidd í innlendum gjaldeyri. Nú hefur þessu verið breytt þannig, að samkv. frv. eiga þau að greiðast og endurgreiðast í sama íslenzka gjaldeyrinum, en þau eiga, eins og áður, eingöngu að veitast til þess hluta lánsins, sem varið er til kaupa erlendis. Ástæðan fyrir þessari breyt. er sú, að ef t. d. um bát smíðaðan innanlands er að ræða, sem greiðist í íslenzkum peningum, er sú aðferð lítt framkvæmanleg að látast fá efniskaupin í erlendum banka. Er þá hin aðferðin miklu einfaldari, þar sem innistæðan á nýbyggingarreikning minnkar sem a-lánunum nemur, eftir því, sem gjaldeyrisleyfi er veitt, alveg á sama hátt og lán hafa verið veitt af nýbyggingarreikningi. Ég gat þess líka, að bankarnir hefðu látið þess getið, að þetta væri heppilegt, og áður en þær uppástungur bárust nýbyggingarráði, var það búið að endurskoða þetta ákvæði í frv. Eins og kunnugt er, hefur Landsbankinn lagzt allþungt á móti þessu máli, þ. e. a. s., hann hefur ekki í einstökum atriðum ráðizt á frv. um fiskveiðasjóð, en hann hefur gagnrýnt og ráðið mjög eindregið frá því að fara þá fjáröflunarleið, sem í frv. er ráðgerð og einnig er ráðgerð í því frv., sem hér var á dagskrá næst á undan. Vegna þess, að í því upphaflega frv., sem nýbyggingarráð samdi og sent var Landsbankanum til athugunar og ríkisstj. um leið, var ekki nákvæmlega tiltekið um hámark þeirra lána, sem seðladeildin ætti að skyldast til að veita lánsstofnuninni í þessu skyni, þá gerði Landsbankinn þegar í sinni fyrstu gagnrýni ráð fyrir því, að þetta gæti farið allt upp í 300 millj. kr., sem færu eingöngu til sjávarútvegsins, það væru fleiri greinir íslenzks atvinnulífs, sem þyrftu á lánsfé að halda í svipuðu augnamiði. En vegna þessarar gagnrýni Landsbankans, þar sem því er svo að segja slegið föstu, að 300 millj. eigi að koma frá bankanum í þessu skyni, þótti rétt að gera það skýrt í frv., að það var ekki til þess ætlazt. Markið var að vísu ekki sett í hinu upphaflega frv., en ætlun þeirra, er fylgdu frv., var, að lánin gætu komizt upp í 150 millj. Þegar breyt. voru gerðar á frv. á þann hátt, að veita skyldi fyrirhuguðum nýbyggingarsjóðum fyrirtækja lán og lánshámarkið lækkaði, kom í ljós, að lánin gætu vart farið yfir 100 millj., og var það hámark því sett inn í frv., en nýbyggingarsjóðirnir ættu að koma til frádráttar á lánunum hjá þeim, sem hefðu slíka sjóði. Var till. í seinna frv., sem nýbyggingarráð sendi stj., til komin vegna þeirrar gagnrýni og umtals um það, hvað óvarlega nýbyggingarráð vildi fara í þessu efni, og kom sú gagnrýni einna sterkast fram í bréfi Landsbankans. Nú hefur ríkisstj., áður en hún skilaði þessu máli til þingsins, kippt í burtu því ákvæði í frv., að nýbyggingarsjóðirnir dragist frá lánunum. Hins vegar hefur hámarkið verið látið standa óbreytt eins og nýbyggingarráð setti það inn í frv., með tilliti til þess, að nýbyggingarsjóðirnir ættu að skoðast sem nokkurs konar frádráttur á lánunum. Þetta 100 millj. kr. hámark er látið standa óbreytt, en aftur á móti er þeim varnagla, sem nýbyggingarráð vildi setja við því, að þetta ákvæði gæti staðizt, kippt burtu. Af því leiðir, að ég verð að láta í ljós þá skoðun hér, að ég tel það hámark vera of lágt, það er mjög líklegt, að það væri skynsamlegt, að þetta hámark væri sett nokkru hærra, ef fiskveiðasjóðurinn á að geta fullnægt þeirri eftirspurn í lánum, sem ekki kemur einvörðungu frá þeim, sem nú ætla að afla sér nýrra atvinnutækja eða koma þeim upp sjálfir, heldur líka frá hinum, sem mitt í dýrtíðinni hafa komið upp hraðfrystihúsum, keypt skip o. s. frv. og ráðizt í aðrar dýrar framkvæmdir á þessu sviði, en óhjákvæmilega hljóta að verða að leita til fiskveiðasjóðsins með lán, þegar löggjöfin er komin í kring í þessu efni. Það getur farið svo, að við nánari athugun á þeirri þörf verði hámarkið hækkað í 120–130 millj.

Í upphaflega frv., sem nýbyggingarráð sendi ríkisstj, í sumar, var gert ráð fyrir, að hámarkslán út á ný skip skyldi nema 3/4 af kostnaðarverði, en hámarkslán út á önnur tæki skyldi nema 2/3 kostnaðarverðs. Við endurskoðun frv. og eftir að bankarnir höfðu athugað það, var þetta fært niður, þannig að nú er samkv. frv. gert ráð fyrir 2/3 út á ný skip, en 3/5 út á önnur tæki. Þó má halda hinum upphaflegu ákvæðum, ef ábyrgð sveitar- eða bæjarfélags fylgir.

Nokkuð hefur verið talað um afskriftir viðvíkjandi hinum nýju tækjum, enda væri þess full þörf og ekkert undarlegt, þótt slíkt yrði gert. En það er á valdi hæstv. fjmrh. að haga þessum afskriftum þannig, að tækin verði greidd niður á skemmri tíma.

Upp í frv. hefur verið tekin ný gr. nr. 23. Hún fjallar um styrktarlán og hljóðar svo:

„Þeim einstaklingum og félögum, er gefið hefur verið vilyrði fyrir styrktarlánum úr styrktar- og lánasjóði fiskiskipa, skal gefinn kostur á að njóta vilyrða þessara laga gegn því að afsala sér rétti til styrktarlánanna, eða að njóta þeirra og þá um leið þeirra vaxta- og lánakjara, er gildandi voru hjá fiskveiðasjóði Íslands fyrir gildistöku þessara laga.“

Ég held, að ekki sé þörf lengra máls um þetta frv. Þörf slíkrar lánsstofnunar er auðsæ og mun viðurkennd af öllum, sem hér eiga sæti. Þetta frv. er, eins og hið fyrra, flutt samkv. beiðni hæstv. atvmrh. af sjútvn. og þarf þess vegna í rauninni ekki til n. aftur. Þó hefur n. gert ráð fyrir að fá það til athugunar milli umr. Vil ég þess vegna mælast til, að því verði vísað til 2. umr., án beinnar tilvísunar til nefndar.