07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

16. mál, fjárlög 1946

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Að vísu er hér yfir fáum að tala, því að hv. þm. eru ekki komnir úr kaffi, en um það tjóar ekki að sakast, því að forseti verður að halda umr. áfram. En þó að hv. fjvn. hafi skilað sameiginlegu nál. og form. hennar, hv. þm. Barð., hafi talað fyrir hönd n. í heild, sé ég ástæðu til að gera grein fyrir afstöðu sósíalista í n. og ekki sízt, eins og hv. form. n. hefur tekið fram, að ýmsar till., sem samþ. voru með meiri hl., hafa þó valdið meiri eða minni ágreiningi innan n. Nm. hafa líka algerlega óbundnar hendur um brtt:, enda þó að samkomulag hafi orðið um þær að mestu leyti.

Höfuðsjónarmið okkar sósíalista var það, að fjárlög þessi bæru að verulegu leyti svip nýsköpunarstefnu stj. á sviði atvinnumála og menningarmála, sem nú er í undirbúningi og framkvæmd hjá hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna var lögð rík áherzla á þessa stefnu stj. og um .þetta náðist að verulegu leyti samkomulag.

Lagt er til, að framlög hækki til verklegra framkvæmda og einnig athafna á sviði menningarmála. Eins og hv. Alþ. er kunnugt, er svo ráð fyrir gert, að nýsköpunin verði stórfelldust á sviði útvegsmálanna og því með þeim afleiðingum, að sérstök áherzla er lögð á að veita meira fé á þessu sviði en var í fjárlfrv. því, sem fjvn. hafði til athugunar.

Eins og hv. form. n. tók fram, þá mun fiskiskipastóllinn verða endurnýjaður að verulegu leyti á næsta ári. Búizt er við, að um eða yfir 100 mótorskip bætist í flotann á næsta ári, og auk þess koma þegar á næsta ári nokkrir togarar frá Bretlandi. En alveg með sérstöku tilliti til aukningar vélbátaflotans voru gerðar ráðstafanir til að bæta hafnar- og lendingarskilyrði, til þess að flotinn geti lagt til veiða frá beztu verstöðvunum. Því varð að samkomulagi í n. og eftir till. sósíalista var mjög hækkað framlag til hafnarmála, eða úr 2,3 millj. og upp í 4 millj. og 100 þús. kr., og auk þess var lánsheimildin hækkuð um 2 millj. til viðbótar, svo að hafnarsjóður ræður nú yfir 7 millj. króna á næsta ári. Þetta er mesta hækkun á einum lið fjárl. og gerð með tilliti til, að framkvæmdir þessar séu í samræmi við þau nýsköpunaráform, sem hæstv. ríkisstj. beitir sér nú fyrir og munu koma að allmiklu leyti til framkvæmda á næsta ári.

Sömuleiðis er framlag hækkað mjög til verklegra framkvæmda, t. d. til akvega nemur hækkunin um 2 millj. frá því, sem var í fjárl., og er það vegna þess, að ætlazt er til, að lokið verði við ýmsa vegi, er tengja landshluta saman, eða a. m. k. þá á næstu 2–3 árum. Rétt þótti því að leggja áherzlu á þessa aðalvegi, en ekki þótti fært að skera niður framlög til smærri vega, og því nemur hækkunin til akvega svona miklu. Það skiptir ákaflega miklu máli að koma samgöngukerfi landsins í betra horf en áður hefur verið. Bæði er það menningarmál og hefur auk þess hagnýta þýðingu fyrir þjóðina í heild og stendur þá í samræmi við nýsköpunarstefnu stjórnarinnar.

Þá var einnig eftir till. n. hækkað framlag til menningarmála. Til sjúkrahúsa í landinu er t. d. nýr liður til viðbótar. Til byggingar sjúkrahúss á Akureyri 300 þús. kr., til Kristneshælis 200 þús., til vinnuheimilis Sambands íslenzkra berklasjúklinga 200 þús. Þannig nemur þessi hækkun alls um 700 þús. frá því, sem áður var í fjárl.

Þá voru einnig hækkuð framlög til verklegra framkvæmda auk þess, sem áður er getið. Til flugvallagerðar 150 þús. Sú grein samgöngumálanna er nú á bernskuskeiði, eins og hv. þm. vita, og er þó engum vafa bundið, að samgöngur í lofti eiga sér mikla framtíð, og þurft hefði að hækka framlagið enn meira, en n. sá sér það ekki fært, en þetta er þó alltaf í áttina.

Í samræmi við nýsköpunarstefnu stj. náðist samkomulag um að hækka framlag til fræðslumála, sérstaklega til byggingar barnaskóla utan kaupstaða, um 500 þús. kr. Þannig er það, að framlög þessi eru helmingi hærri en í fyrra og eru þó ekki fullnægjandi, en þó myndarlegt spor, sem stefnir í rétta átt. — Hækkun til stofnkostnaðar héraðsskóla er úr 800 þús. kr. upp í 1 millj. og 300 þús. Til byggingar húsmæðraskóla er hækkað um 200 þús., og til byggingar húsmæðraskóla í sveitum 100 þús. kr. hækkun. Sömuleiðis nýr liður til byggingar leikfimihúss fyrir kvennaskólann í Reykjavík 50 þús. kr. Auk þess hefur svo verið tekinn upp nýr liður, 500 þús. kr., til að byggja við Menntaskólann á Akureyri til að byrja með og ætlað sérstaklega til að byggja yfir heimavist og söfn skólans, til þess að bæði fólk og söfn þar hafi meira öryggi en nú er, þar sem það verður nú að hafast við í gömlu timburhúsi, þar sem mjög mikil eldhætta er.

Þessar hækkanir til byggingar skólahúsa af ýmsum gerðum munu nema kringum 1½ millj. kr. frá því, sem ætlað var í fjárlagafrv. Ég held, að flestir þeir liðir séu eitthvað hærri í brtt. en í frv. og sumir liðirnir miklu hærri. Og þetta ber einnig vott um það, að n. hefur fallizt á þá miklu nauðsyn, sem fyrir hendi er til þess að hraða framkvæmdum byggingar skólahúsa. Og felst í því mikil viðurkenning á nauðsyn þess að koma sem fyrst til framkvæmda þeim þýðingarmiklu breyt. á fræðslukerfi landsins, sem nú er verið að gera hér á Alþ. með þeim ýmsu frv., sem liggja fyrir um þau mál. Í sambandi við þessi skólamál hefur fjvn. hins vegar ekki séð sér annað fært en lækka einn lið mjög verulega, sem er til byggingar menntaskólahúss í Reykjavík. Í frv. er ætlað til þess ein millj. kr., en meiri hl. n. hefur samþ., að þetta skyldi lækka í 500 þús. kr. Það er ein af þeim till., sem Sósfl. hefur verið á móti í n. og hefur þess vegna óbundnar hendur um, og kemur þá til kasta Alþ. um það, hvort það vill halda við till. hæstv. fjmrh. um það framlag, sem hann setti í fjárlagafrv., eða fallast á þessa lækkunartill. meiri hl. fjvn.

Auk þess, sem ég þegar hef sagt um hækkun fjárframlaga til fræðslumálanna, þá liggja fyrir n. erindi, sem enn eru óafgr. og hún hefur frestað til 3. umr. að taka afstöðu til, varðandi atvinnudeild háskólans, en ég held, að hljóti að verða samkomulag um að meira eða minna leyti. Ég man eftir tveimur erindum varðandi þetta, sem fyrir liggja, annars vegar um stofnun fiskiðndeildar, þar sem farið er fram á 200 þús. kr. byrjunarframlag. Ég geri ráð fyrir, að ekki sé mikill ágreiningur um nauðsyn þessa máls, því að það hefur svo mikla praktíska þýðingu fyrir sjávarútveginn, aðalatvinnuveg okkar, sem nauðsyn er, að verði rekinn á sem traustustum grundvelli, og mundu vísindalegar rannsóknir í hans þágu innan skamms borga sig með auknum verðmætum þessarar framleiðslu. — Hins vegar liggur fyrir n. erindi um hinn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn, um að stofnuð verði tilraunastöð til jurtakynbóta og jarðvegsrannsókna. Ég skal ekki að svo komnu máli spá neinu um, hve mikil fjárframlög verða veitt í þessu skyni, því að n. á eftir að taka afstöðu til þess. En mér þykir sennilegt, að þar muni enn koma aukin framlög til fræðslumálanna í landinu, til viðbótar við það, sem n. hefur þegar fallizt á, og ég geri ráð fyrir, að Alþ. muni einnig fallast á.

Ég held, að ég þurfi ekki að tína fleira til til þess að sýna fram á það, að varðandi þessi mál, sem við sósíalistar og fleiri höfum talið einna mestu varða, þá hafi náðst samkomulag um mjög veruleg spor fram á leið frá því, sem verið hefur á undanförnum árum, og því, sem nú einnig var lagt til í fjárlagafrv., sem fyrir liggur. Og ég tel, að þær till. n. varðandi þessi mál, sem nú liggja fyrir, séu vottur mikils framfarahugar í þessum efnum og muni setja ákveðið þann svip á fjárl., að þau séu þó í verulegum efnum í samræmi við þá nýsköpunarstarfsemi, sem fram fer nú í landinu undir forustu hæstv. núv. ríkisstjórnar. Um þessar till. er yfirleitt samkomulag í n. Hins vegar hafa verið ýmsar till., sem ágreiningur hefur verið um, en yfirleitt hafa þær verið um efni, sem ekki hafa eins mikla þýðingu og þessi atriði. Ég vil þar leyfa mér að nefna t. d. brtt. nr. 85 í brtt. n. varðandi laun til dr. Matthíasar Jónassonar til rannsókna á þroskastigi íslenzkra skólabarna. Meiri hl. fjvn. felldi þennan lið niður, gegn atkvæðum okkar sósíalistanna. Og þar sem þarna er ekki um mjög stóra fjárhæð að ræða, 35 þús. kr., þá hygg ég, að það hafi verið byggt á því, að hv. meðnefndarmenn mínir hafi ekki verið búnir að gera sér grein fyrir því, hve mikla þýðingu þetta hefði, þeir hafi jafnvel litið á þetta sem hálfgerðan hégóma eða óþarfan hlut, og að þeir gætu við nánari yfirvegun fallizt á að taka þennan lið upp í einu eða öðru formi. Og ég held, að hv. frsm. hafi haft orð um það, að þetta mundi verða athugað nánar fyrir 3. umr. fjárl. Ég skal aðeins geta þess, að dr. Matthías Jónasson hefur einnig verið ráðinn til þess starfa, að ég held með fullu samþykki ríkisstj. Og það gæti ekki náð neinni átt að gera ráðh., sem þetta heyrir undir, ómerkan að þeim gerðum, heldur hljóta menn við nánari yfirvegun að fallast á, að fjárveiting til þessa verði tekin upp í einu eða öðru formi.

Þá eru það einnig smáliðir, sem felldir hafa verið niður gegn atkv. okkar sósíalista, til menningarsjóðs blaðamannafélags 10 þús. kr. Þetta er ekki stór upphæð, en ég tel rétt að veita blaðamannafélagi þessu styrk. Enn fremur hefur verið fellt niður tillag, 5 þús. kr., til stúdenta í Kaupmannahöfn. Mér finnst óviðfelldið að kippa þessum styrk af þeim. Þá hefðum við sósíalistar einnig viljað, að þau litlu fjárframlög, sem í fjárl. eru til Alþýðusambands Íslands, hefðu verið hækkuð nokkuð frá því, sem er. Um það náðist ekki samkomulag. En ef þessi fjárframlög til Alþýðusambands Íslands eru borin saman við framlög ríkisins til t. d. Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélagsins, sem þau, auk þess fjár, sem þau fá til framkvæmda á höfuðverksviði þessara sambanda, fá til þess að halda fundi sína, þá sýnist ekki fjarri lagi að hækka ofurlítið styrk þann, sem Alþýðusambandið fær nú frá ríkinu.

Þá vil ég aðeins minnast hér á þær lækkunartill. í brtt. fjvn., sem gerðar hafa verið við fjárl. til skógræktar. Sá liður hefur verið lækkaður mjög verulega, eftir því sem ég held um 100 þús. kr. í 16. gr. Hv. frsm. n. hafði þau orð, að þessi lækkun væri að mestu leyti leiðréttingar, að frá talinni 35 þús. kr. lækkun. Ég skal ekki fullyrða um, hvort þetta er rétt hjá honum. En það kom mér þannig fyrir sjónir, þegar þetta var afgr. í fjvn., að þetta væri ekki leiðrétting, heldur beinar lækkanir. Og ég greiddi atkv. á móti þessum lækkunartill., af því að ég álít, að það hafi allmikla þjóðhagslega þýðingu, að haldið sé áfram því starfi, sem framkvæmt hefur verið undanfarið, að friða þessar skógarleifar, sem við eigum, og gera tilraun til þess að stækka dálítið skógana og græða landið, þar sem það er að blása upp. Og ég held, að ég megi segja, að sá maður, sem veitir þessu starfi forstöðu, skógræktarstjóri, leggi á þetta mikla áherzlu og leggi í þetta mikið starf. Ég hygg því, að það sé óverðskuldað að draga svo mjög úr fjárframlögum til þessarar starfsemi, sem gerðar eru till. um af meiri hl. fjvn.

Um fjárframlög til mæðivarnanna mun ég ekki halda langa ræðu. Við héldum því fram sósíalistarnir í n., að það væri a. m. k. vafasamt, að ríkið ætti að halda áfram að leggja fram jafngeysilegar fjárhæðir til svokallaðra mæðiveikivarna, sem mikið er um deilt, hvort nái þeim árangri, sem til er ætlazt, og hvort það mikla fé, sem til þess væri varið, gæfi tilsvarandi árangur. Meiri hl. n. var með því að láta þetta fjárframlag standa óbreytt, og erum við sósíalistar óbundnir um okkar atkv. hvað það varðar.

Þau efni, sem ég nú hef talað um, hafa flest verið til þess að auka mjög útgjöld úr ríkissjóði. Og þá má segja, að það sé nauðsynlegt í staðinn að benda á einhverjar leiðir til þess að fá fé til þessara framkvæmda í fjárl. Og ég vil þá að lokum minnast ofurlítið á afstöðu okkar sósíalista til tekjuhliðar frv. Við héldum því fram í n., á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu um tekjuöflun ríkisins á síðastliðnu ári og það sem af er þessu yfirstandandi ári, að óhætt væri að hækka tekjuáætlun á tekjuhlið fjárl. öllu meira en samkv. þeim brtt., sem nú liggja fyrir frá n. Tekjuskattur og tekjuskattsviðauki mun verða á þessu ári 33,5 millj. kr. Það varð ofan á í n. að áætla þann skatt 29 millj. kr. Við töldum, sósíalistar, að það væri ekki óvarlegt, þótt þetta væri áætlað 30 millj. kr., 3½ millj. kr. minna en hann er þetta yfirstandandi ár. Og ég held, að reynslan sanni það, sú reynsla, sem hv. frsm. einnig gat um, að á þessu yfirstandandi ári hefðu tekjur ríkissjóðs farið mjög mikið fram úr þeirri áætlun. Og það mun enn sýna sig, að tekjurnar séu yfirleitt það varlega áætlaðar, að þær muni einnig nú fara nokkuð verulega fram úr áætlun, þó samþ. væru brtt., sem enn þá liggja fyrir um þessa tekjuöflun. Ég hygg ekki óvarlega áætlað, þó að þessi liður væri áætlaður einni millj. kr. hærri en gert er í brtt. fjvn.

Um stríðsgróðaskattinn er það að segja, að hann er á lagður á yfirstandandi ári 11 millj. kr., en er á fjárlagafrv. áætlaður 6 millj. kr. Og meiri hl. n. hefur ekki viljað hækka þá áætlun neitt. Við sósíalistar töldum ekki óvarlega farið, enda þó tekið væri tillit til þess, að síldarútvegurinn hefur gengið verr þetta yfirstandandi ár en árið áður, og það muni hafa einhver áhrif á þær tekjur, sem þessi skattur gefur, þó að hann væri áætlaður nokkru meira í samræmi við það, sem hann hefur verið á þessu yfirstandandi ári, en gert er í fjárlagafrv. og brtt. n. Við höfum haldið, að ekki væri óvarlega farið, þó að þessi skattur væri áætlaður 8 millj. kr., og mundi það þá gefa 1 millj. kr. meira í hlut ríkisins en nú er samkv. áætluninni.

Um vörumagnstollinn hefur að vísu ekki borið mikið á milli okkar sósíalista og annarra nefndarmanna. Eftir till. n. er hann áætlaður 11 millj. kr. Við höfum viljað áætla hann 11½ millj. kr. Samkv. upplýsingum, sem fjvn. hefur fengið, mun hann verða a. m. k. 12 millj. kr. nú í ár. Og eins og hv. frsm. n. tók fram, eru allar ástæður til að ætla, að innflutningur verði miklu meiri á næsta ári en þó í ár og að það muni vera nokkurn veginn öruggt, að þessi skattur muni a. m. k. ekki verða lægri á næsta ári en í ár. Því töldum við ekki óvarlegt að áætla hann 11,5 millj. kr. á næsta ári.

Um verðtollinn er það að segja, að hann hefur farið mjög mikið fram úr áætlun þetta ár. Hann er áætlaður í frv. 33 millj. kr., en eftir till. n. 35 millj. kr. Hv. frsm. n. upplýsti, að hann mundi verða um 40 millj. kr. á þessu ári. Ef ég hef ekki tekið skakkt eftir í n., þá held ég, að upplýst hafi verið, að hann mundi á yfirstandandi ári nema allt að 43 millj. kr. Ég fullyrði ekki, að ég hafi tekið rétt eftir þessu, en þó hafði ég tekið upplýsingarnar þannig upp. En við skulum segja, að hann sé ekki nema 40 millj. kr. á yfirstandandi ári, en þá er þó áætlunin, sem hér er gerð, mjög miklu lægri en hann verður í ár. Að vísu má segja, að þessi tekjustofn sé ekki jafnöruggur og vörumagnstollurinn, vegna þess að verðlækkanir muni eiga sér stað á næsta ári, og þó kannske einkum hitt, að farmgjöld verði lægri en þau hafa verið. En þessi tollur er reiknaður einnig af farmgjöldum. Ef vörumagn, sem flutt er til landsins, verður ekki minna, heldur meira á næsta ári en nú í ár, þá held ég, að sú lækkun, sem kann að verða á farmgjöldum og e. t. v. einhver lækkun á vörum, muni ekki nema svo miklu, að ekki sé sæmilega varlegt að áætla tekjur af þessum tolli 36 millj. eða jafnvel 38 millj. kr.

Enn er einn tekjuliður, sem við höfum að vísu ekki gert neinar brtt. við í fjvn., tekjur af áfengisverzlun ríkisins. Þær eru áætlaðar í frv. 22 millj. kr. En upplýst er, að tekjur þessar verði í ár um 30 millj. kr. Við gerðum ekki um þetta brtt. En það mætti líta á þennan tekjulið sem eins konar varasjóð, þannig að ef hinir liðirnir þættu nokkuð hátt spenntir, þá væri þó þessi liður nokkurt svigrúm til þess að tryggja, að tekjur í það heila væru ekki of óvarlega áætlaðar. — En ef fallizt væri á þær brtt., sem við sósíalistar höfðum fram að flytja í fjvn. um þessar hækkanir á tekjuliðunum, þá mundi það nema kringum 5 eða 5,5 millj. kr. Og ef talið væri óhætt að áætla tekjurnar þannig, þá yrði þó útkoman á fjárl. allmiklu betri en nú er samkv. þeim brtt., sem fyrir liggja. Ég geri nú ráð fyrir, að það muni kannske þykja meiri búmennska að áætla þessa tekjuliði varlega og varlegar en þessar till. okkar gera. En hins vegar vil ég benda á það, að reynsla undanfarinna ára hefur þó sýnt mjög áþreifanlega, að tekjurnar hafa farið mjög mikið fram úr áætlun og mjög verulega fram úr þeim till. um hækkun, sem við sósíalistar höfum gert á undanförnum þingum. Og ef hv. þm. hafa ennþá nokkra trú á því, að takist sú nýsköpun í atvinnulífinu almennt, sem stjórnarflokkarnir eru að vinna að undir forustu hæstv. ríkisstj., þá held ég líka, að ekki ætti að þykja mjög óvarlegt að álíta, að þessir tekjustofnar muni ekki hrapa mjög verulega niður frá því, sem hefur verið á undanförnum árum.

Ég held, að ekki sé ástæða til að gera fleiri atriði frv. að umræðuefni að svo komnu eða þær brtt. fjvn., sem fyrir liggja, en ég taldi rétt að gera þessa grein fyrir afstöðu okkar sósíalista í fjvn. sérstaklega, þó að í mörgum þáttum falli okkar till. saman við till. annarra nefndarmanna. Og fjvn. stendur saman um þýðingarmestu atriðin í frv., en ágreiningur hefur verið um minni háttar atriði, að frá töldum þó till. um tekjuliði frv.