28.03.1946
Neðri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson) [Frh.] :

Þegar ég varð í gær að fresta ræðu minni, hafði ég gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli og ágreiningnum í sjútvn. Þykir mér nú rétt að ræða einstök atriði þessa og meginbreytingarnar frá meiri hl. sjútvn., og þá einkum brtt. við 1. gr. frv., um að stofna skuli sérstaka lánadeild við Landsbankann. Ég sagði, að mér þætti þetta fyrirkomulag óaðgengilegt og óeðlilegt.

Fiskveiðasjóður er talsvert öflugur og hefur um 3 millj. kr. árlegar tekjur og hefur auk þess heimild til þess að taka lán í verðbréfum, og jafnframt eru aðrir sjóðir, sem síðasta Alþ. samþ. að stofna, og hér er enn lagt til, að stofnaður verði sjóður, og hlýtur þetta að verða til árekstra. Margir þeir, sem nú hafa stofnlán í fiskveiðasjóði, sæktu einnig um stofnlán hjá þessari nýju deild. Hin nýja stofnlánadeild yrði því að leysa út eldri stofnlán, sem fiskveiðasjóður hefur lánað, og nú er þess að gæta, að fiskveiðasjóður, sem búinn er að starfa í mörg ár og er öflugur og hefur árlegar tekjur, yrði settur út úr starfsemi með að veita lán, en hann má ekki lána nema gegn 1. veðrétti. Þetta er óeðlilegt fyrirkomulag og verða að vera óvenjuleg rök fyrir því að grípa til slíkra ráðstafana, en hér hafa engin rök komið fram nema það, að Landsbankinn krefst þess að fá að hafa framkvæmd þessara mála. Þegar þess er og gætt, að fiskveiðasjóður er búinn að vinna sér festu og starfsmenn hans hafa reynslu, sem eðlilegt er að byggja á, þá er hæpið að hverfa frá honum til annars sjóðs. Það hlýtur að verða talin óeðlileg skipun þessara mála, að bankastjórar seðlabankans, sem á að lána þetta fé, séu sömu mennirnir sem eiga að ráða yfir þessari stofnlánadeild. T. d. ef fyrirtæki kæmi og óskaði að fá lán, þá er ekki óeðlilegt, að bankastjórarnir bendi því á aðra leið, að það geti eins beðið Landsbankann, með allt öðrum lánskjörum. Bankastjórarnir vilja gjarna fá hærri vexti fyrir fé seðlabankans. En þessu væri ekki til að dreifa í því tilfelli, ef fiskveiðasjóður hefði þessi mál til meðferðar, þó að hann að sjálfsögðu hefði farið fram á, að seðlabankinn lánaði fé sem honum er skylt.

Í frv. er tekið fram, að vextir af stofnlánum skuli ekki vera hærri en 2.5%, en það er ekki tryggt, að það verði svo í raun og veru, ef þetta er allt lagt undir Landsbankann.

Þá ætla ég að minnast á afstöðu flokkanna til þessa máls. — Framsfl., eða aðaltalsmaður hans, hefur lýst því yfir, að hann væri á móti því atriði í frv., að skylda Landsbankann til þess að lána 100 millj. kr. með 1½% vöxtum til stofnlána sjávarútvegsins. Hann vill stofna til þessa með útboðum á skuldabréfum, eða fara sömu leið og fiskveiðasjóður hefur haft og hefur enn. En slíkar upphæðir eru ekki fáanlegar nema með óheyrilegum vöxtum, en hans meining er sú, að ríkissjóður taki að sér að greiða vaxtamismuninn. Að mínum dómi er afstaða framsóknarmanna eðlileg, því að þeir hafa alltaf verið á móti því, að þessi lán gætu komið sjávarútveginum að gagni. — Sjálfstfl., eða formaður hans, hefur lýst því yfir, að hann stæði eindregið með þessu og mundi sjá um, að þetta frv. næði fram að ganga, en þeir þm. flokksins, sem vilja fara að kröfum Landsbankans, virðast hafa orðið ofan á. — Afstaða Alþfl. virðist svo, að hann hafi algerlega fallið frá fylgi við málið.

Mín skoðun er sú, að í þessu beri að fara þá leið, sem rök mæla með og eðlilegust er og allir virtust sammála um nema forráðamenn Landsbankans.

Þá vildi ég minnast á atriði varðandi vexti af því, sem seðlabankinn ætlar að lána til stofnlánadeildarinnar, en hér er hvergi tekið fram, hvaða vaxta bankinn getur krafizt. Till. nýbyggingarráðs var, að seðlabankinn fengi 1½%, en í till. bankans virðist alveg gengið fram hjá þessu. Því virðist Landsbankinn vera einráður, hvaða vexti hann heimtar, og yrði ríkið þá að greiða vaxtamismuninn. Þetta getur ekki staðizt, og er rétt, að hér verði upplýst, hvernig á að fara með þessa vexti. Það er augljóst, að þessari fyrirhuguðu stofnlánadeild muni ganga verr að sýna hallalausa útkomu með 2½% en fiskveiðasjóði, sem hefur tekjur, en stofnlánadeildin hefur ekki tekjur og verður að taka allt að láni hjá seðlabankanum. — Ég vil, að þetta verði upplýst.

Ég ætla svo ekki að hafa mál mitt lengra, en þykist nú hafa gert grein fyrir afstöðu minni, en hún er sú, sem öll rök virðast mæla með, að farin sé. Ég vil ekki, að Alþ. beygi sig fyrir utanaðkomandi áhrifum í þessum efnum.