29.03.1946
Neðri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef sérstöðu um afgreiðslu máls þessa, þótt ég hafi skrifað undir nál. með hv. meiri hl. sjútvn. Ég hef gert nokkra grein fyrir fyrirvara mínum á nál., en mun gera nokkru nánari grein fyrir honum í þeim orðum, sem ég læt hér falla við þessa umr. málsins. — Fyrirvari minn er um ýmis atriði, en það veigamesta er, að ég er mótfallinn þeirri leið að afla fjár til útlánanna með löngum lögboðnum skyldulánum frá seðladeild þjóðbankans. Með þessu er farið inn á nýja, óþekkta braut í löggjöfinni, sem að mínum dómi er mjög hættuleg, eins og ég mun víkja síðar að. Áður ætla ég að minnast nokkuð á þær ástæður, sem nú eru fyrir hendi í fjárhagsmálum landsins og hv. meiri hl. Alþ. og hæstv. ríkisstj. telur vera þannig vaxnar, að nauðsynlegt sé nú að leggja inn á þessa braut.

Segja má, að það sé undarlegt tímanna tákn, að það skuli vera vilji hv. meiri hluta Alþ. að leggja inn á þessa leið til fjáröflunar, þar sem þannig er ástatt í landinu, að aldrei hefur verið meira til af lausu fjármagni en einmitt nú, og þess vegna ætti aldrei að hafa verið léttara að afla fjár með venjulegum hætti til þeirra framfara, sem þjóðin ætlar að hrinda í framkvæmd, en einmitt nú. En á þessu eru nú talin svo mikil tormerki, að það mun nú verða horfið að því ráði að leggja út á þessa nýju braut til fjáröflunar. Þegar rætt var um stjórnarmyndunina fyrir hálfu öðru ári síðan, áður en núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, reis upp nokkur ágreiningur um ýmis atriði. Enginn ágreiningur var um það, að stórfelldar framfarir þyrftu að eiga sér stað í atvinnulífi þjóðarinnar, en sá ágreiningur snerist um það, hvort nauðsynlegt væri eða ekki að skapa áreiðanlegan fjárhagslegan grundvöll fyrir þessum framförum. Framsfl. lagði áherzlu á, að þessi nauðsyn væri, fyrir hendi og þá fyrst og fremst sú að stöðva vaxandi verðbólgu og helzt að færa hana strax niður. Hann áleit, að þetta væri nauðsynlegt til þess að skapa trú á gildi peninga, til þess að eyða þeim ugg meðal margra landsmanna, að því væri ekki treystandi, og til þess að koma í veg fyrir þá „panik,“ sem hlaut að verða áður en langt um liði, ef ekki hefði tekizt að skapa trú á framtíðarverðmæti krúnunnar. Enn fremur taldi Framsfl. nauðsynlegt, að þegar í byrjun gerðu menn sér grein fyrir því, hvernig ætti að afla fjár til framkvæmdanna, bæði lánsfjár og framlaga, hvaða lánskjör væru búin þeim mönnum, sem vildu leggja í nýjar framkvæmdir, og hvers stuðnings þeir mættu vænta af hendi hins opinbera, þannig að menn vissu, út í hvað þeir væru að ganga. Á þetta lagði sá sami flokkur megináherzlu, þegar l. um nýbyggingarráð voru hér til meðferðar á síðasta ári, en þær till. hans fengu ekki byr og ríkisstj. var mynduð á allt öðrum grundvelli en sá flokkur var samþykkur. Hún var mynduð á grundvelli, sem leiddi af sér aukna verðbólgu og skaut öllum aðgerðum á frest um það, hvernig ætti að afla fjár til hinna fyrirhuguðu framkvæmda. Í stað þess sneri hæstv. ríkisstj. sér að því að leita uppi ýmsar framkvæmdir fullkomlega af handa hófi og að miklu leyti án samráðs við þá, sem ætlazt var þá til, að yrðu þátttakendur í þeim. Það var dregið á langinn von úr viti að gera mönnum ljóst, á hverju þeir ættu von hvað lánskjör til þessara framkvæmda snerti, og það er fyrst nú, þegar komið er á annað ár eftir að hæstv. núverandi ríkisstj. tók við völdum, að verið er að reyna að ráða þessum þýðingarmiklu málum til lykta. Sú hefur líka raun orðið á, að verðbólgan í landinu hefur farið sívaxandi, og niðurstaðan af þessum vinnubrögðum hefur í stuttu máli orðið sú, að hæstv. ríkisstj. hefur fest kaup á talsvert mörgum framleiðslutækjum, bæði botnvörpuskipum erlendis og gert ráðstafanir til þess, að byggðir væru bátar í landinu sjálfu, en undirtektir manna eru þannig, að ekki er kunnugt um, að enn þá sé búið að selja innlendum aðilum einn einasta af þeim bátum, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um smíði á innanlands, og það mun láta nærri, að þeir einstaklingar og félög, sem hafa haft togaraútgerð með höndum og safnað nýbyggingarsjóðum undanfarið, hafi sótt um kaup á 8 af þeim 30 togurum, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um smíði á í Englandi. Enn þá er því algerlega á huldu, hvað verður um hin skipin. Hvernig stendur á því, að þessum málum er þannig komið? Skýringin er ákaflega einföld, og hún er fólgin í því, að áhugi manna er lítill fyrir þessum framkvæmdum, vegna þeirrar stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið uppi í dýrtíðarmálunum, og allt, sem hún hefur aðhafzt, hefur verkað gegn því, að fjármagnið hafi leitað inn í þær framkvæmdir, sem þjóðin hefur með höndum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki einu sinni tekizt að stöðva verðbólguna, heldur hefur hún alltaf látið undan síga og verðbólgan hefur farið hækkandi, þannig að fjármagnið hefur leitað dræmt til þessara framkvæmda í stað þess, að ef stefna Framsfl. hefði verið tekin upp um að stöðva verðbólguna og lækka hana, þá hefði fjármagnið leitað mjög ört inn í framkvæmdir þær, sem þjóðin hefur með höndum. Auk þess er allur stofnkostnaður hinna nýju tækja svo gífurlegur og fer stöðugt vaxandi, að mönnum hrýs hugur við að hugsa til kaupa á þeim, og kemur þetta einnig til af þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi í þessum málum. Allt, sem ég hef hér á minnzt hvað snertir framkomu hæstv. ríkisstj. í þessum málum, miðar að því að auka ótrú manna á verðgildi peninga í landinu og skapa þeim kvíða fyrir framtíðinni. Kemur þetta m. a. fram í vaxandi erfiðleikum á því að selja ríkistryggð skuldabréf til langs tíma, sem hins vegar ætti að vera auðvelt, þar sem svo mikið af lausu fjármagni er til í landinu og þar sem slík skuldabréf eru seld með háum vöxtum. En það er vitað, af hverju þetta stafar. Ástæðan er sem sé sú, að einkafjármagnið leitar inn í verðbólgubraskið, sem hæstv. ríkisstj. heldur verndarhendi yfir, og menn vilja ekki festa fjármuni sína til langs tíma. Allt þetta er afleiðing, ekki af fjármálastefnu, heldur af fjárglæfrastefnu hæstv. ríkisstj., eins og það er orðað af einum hagfræðingi landsins, því að það, sem lá mest á að gera, er hæstv. ríkisstj. tók við völdum og tók ákvörðun um að ráðast í þessar framkvæmdir til framfara íslenzkum atvinnuvegum, var að festa hið lausa fjármagn landsmanna í hinum fyrirhuguðu framleiðslutækjum, og var þá bezt að fá menn til að verða þátttakendur í framleiðslutækjunum og þar næst að fá menn til að kaupa ríkisskuldabréf með sæmilegum vöxtum til þess að útvega fjármuni til þessara framfara. En stefna ríkisstj. hefur miðað gegn þessu.

Þegar ríkisstj. var mynduð, var álitið, að hún mundi afla fjár með því að sækja fjármagn þangað, sem það væri. Þá sagði hæstv. forsrh. digurbarkalega, að ríkisstj. mundi sækja féð inn í rottuholurnar. Þetta hefur þó ekki verið gert, og ekki virðast nein plön í þá átt. Ef menn draga þetta saman í nokkrar setningar, þá er ástandið þannig, að allar ráðstafanir ríkisstj. til að nota stríðsgróðann hafa farið út um þúfur: Með öðrum orðum, ríkisstj. hefur alveg gefizt upp á því að afla fjár til nýsköpunar. Þetta, að skylda þjóðbankann til að lána út fé, er fullkomnasta vantraust á fjármálastefnu ríkisstj., það er yfirlýsing um algera uppgjöf. Það er engin fjáröflunarleið að skylda þjóðbankann til að lána svo og svo mikið til einhvers eða einhverra. Það væri þá ekki vandi að útvega fé til þeirra hluta, er gera skal, ef ekki þyrfti annað en að samþykkja á Alþ. að fá þær milljónir til þessa eða hins.

Fólk vill ekki leggja fé í fyrirtæki ríkisstj., af því að það skortir traust á fjármálastefnu hennar, enda þótt meira fé sé nú hjá almenningi en nokkru sinni áður. Ef við lítum á þá aðferð, sem hér er fyrirhuguð, að skylda þjóðbankann til að lána svo og svo mikið fé, og lítum svo aftur á, hvernig aðrar þjóðir héldu á þessum málum, þá verður annað uppi á teningnum. Það mun vera nær óþekkt fyrirbrigði í landi, sem vill hafa frjálst hagkerfi, að lagt verði inn á þá braut að skylda þjóðbankann til að lána ríkinu stórlán. Á styrjaldartímum þurfa þjóðirnar að nota allt sitt fé til endurbygginga. Aðrar þjóðir hafa aflað fjárins með útboðum á ríkisskuldabréfum, en ekki með því að skylda þjóðbankann til að lána ríkinu. Til hvers er þetta gert? Til þess að forðast verðbólgu og öngþveiti, því að ef hin leiðin er farin, er ekki hægt að hindra stórkostlega verðbólgu.

Ætli það væri ekki nokkru þægilegra fyrir þjóðirnar að geta bara sagt þjóðbankanum að leggja fram svo og svo mikið fé en að gefa út skuldabréf, með öllu því vafstri og starfi, sem því er samfara? Jú, en því er það ekki gert? Vegna þess að þá yrði stórmikil verðbólga og fjárhagskerfið bilaði.

Það er ekki hægt að búa til peninga. Ef bankinn er látinn festa mikið fé í lánum, er sú hætta yfirvofandi, að þeir, sem innistæður eiga, komi og vilji fá þær út, og af því stafar svo sú hætta, að ef bankinn .á ekki að komast í þrot, verður hann að gefa út meir og meir af seðlum, en við það eykst verðbólgan. Ég sagði, að það skipti ekki aðalmáli, hvort lagt væri til, að þjóðbankinn legði fram 50, 100 eða 200 milljónir, heldur lægi hættan í því að fara inn á þessa braut. Hvar ætla menn að fóta sig? Hér hafa fleiri frv. komið fram í sömu átt. Hér er farið fram á, að seðlabankinn leggi fram 100 millj., og í öðru frv. 150 millj. til verkamannabústaða. Ef þetta verður samþykkt, þá mun rigna yfir Alþ. frv. í þessa átt, og ef eitt er samþ., munu önnur koma í kjölfarið, því að þetta er svo óendanlega þægilegt.

Ég tel mig hafa fært rök fyrir því, að þetta sé að fara inn á þessa braut og að þetta sé þrotayfirlýsing frá ríkisstj. Það þarf að vísu mikið fé til að framkvæma allt, sem í vændum er, en þetta er ekki leiðin til að afla þess.

Hvaða leið á þá að fara? Það fyrsta, sem gera þarf, er að endurvekja trú manna á gildi peninganna. Það gerist með því að stöðva verðbólguna. Ef menn tryðu, að þetta væri hægt, og stjórnin gerði þetta að sínu fyrsta boðorði, mundi þetta vissulega lagast fljótt. Þá er enginn vafi á því, að einkafjármagn mundi leita meir inn í framkvæmdir og markaðir mundu skapast fyrir ríkisskuldabréf. Þá mundi vera hægt að fá almenning til að leggja fram fé í nýsköpunina. Þetta er það fyrsta.

Þá væri sjálfsagt að hverfa frá þessari leið; sem nú er verið að fara, en fara í staðinn þá leið, að ríkisstj. útvegaði fé til sjávarútvegsins með því að bjóða út lán meðal almennings og semja við banka landsins um styttri lán. Ef horfið yrði frá þeirri leið að skylda bankann til að lána löngu lánin, væri sjálfsagt að efla fiskveiðasjóðinn til stofnlánanna, en ekki að stofna nýja stofnlánadeild við Landsbankann. Ríkið yrði að borga hærri vexti en 2½%. Í þeim till., sem ég geri hér, er gert ráð fyrir, að vaxtagjöld fiskveiðasjóðs yrðu hærri en tekjurnar, og yrði þá ríkið að borga mismuninn.

Menn þykjast hafa fundið eitthvað púður með því að setja þetta í samband við erlendu innistæðurnar. En þetta er bara leikaraskapur að vera að fleygja þessu á milli sín. Ekkert púður hefur verið fundið. Ef bankinn verður skyldaður til þess að lána ríkinu stórfé, þá getur hann ekki borgað eins háa vexti til sparifjáreigenda og hefur því minna varafé. Ég er með því að efla fiskveiðasjóð. En mér finnst óhæft að skylda bankann til að lána út fé, en treysta honum ekki til að lána beint út.

Mér finnst það vera skrýtið, sem kom fram hjá hv. 6. landsk., þar sem hann talaði um, að aðalatriðið væri að skylda bankann til að lána þetta. Ég vil endurtaka, að mér finnst það einkennilegt sjónarmið. Hér er um 2 aðalatriði að ræða, annað snýr að sjávarútveginum, að hann fái sem hagstæðust lán. Hitt snýr að því, hvernig fjárins verði aflað, og um það er ágreiningur. Ég býst við, að þetta sjónarmið hv. 6. landsk. byggist á minnimáttarkennd, að ef ekki verði lögfest, að bankinn láni fé, þá fáist það ekki. Það er þessi uppgjöf, sem einkennir þetta frv. Ég er alveg hissa á ríkisstj. að leggja út á þessa braut, og ég get ekki skilið það. Ég er hissa á að ríkisstj. skuli ekki heldur fara inn á þá braut að semja við Landsbankann um lán og hætta við skylduna. Ég er ekki í vafa um, að ríkisstj. er í vanda um skyldulán til verkamannabústaða. En það á ekki að láta hrekjast undan erfiðleikunum við að afla fjárins á heppilegan hátt, en auðvitað er það í stíl við annað úr þessum herbúðum. Þetta er ákaflega einkennilegur hugsunarháttur. (EOl: Er ekki hægt að nota það til hvors tveggja?) Þá munu erlendu innistæðurnar eyðast smátt og smátt, svo að ekki verður hægt að nota þær til nýrra kaupa. Útlán Landsbankans munu og ekki geta bjargað þessu við, hamlað á móti. Hér eru menn komnir út á einhverjar villigötur, og hefur það orðið til þess, að þeir hafa neyðzt til að lögbjóða þetta.

Ég hef nú minnzt á þær brtt., sem lúta að annarri öflun lánsfjárins.

Ég ætla svo að víkja að hinum brtt. Það eru einkum tvær aðaltill. með hv. 6. landsk.: 1. brtt. við 3. frvgr., sem er um það, út á hvað megi lána. Í frv. voru ákvæði um þetta ákaflega víðtæk, og þrengdi meiri hluti n., sjútvn., þetta nokkuð, en við leggjum til, að svo verði enn meir þrengt, að lán séu ekki veitt til skipasmíðastöðva, dráttarbrauta, vélsmiðja o. fl. fyrirtækja, nema þau séu eingöngu eða að langmestu leyti rekin á vegum útvegsmanna og í þágu sjávarútvegsins. Við vitum, að eftirspurn mun verða mikil, það munu fara um 50 millj. kr. í togarana eina. Og við þykjumst sjá fram á, að á næstu árum muni fjárþröng verða í sjóðnum. Við getum eigi fallizt á, að slík lán, sem hér um ræðir, séu veitt úr sjóðnum til þeirra fyrirtækja, er koma útveginum ekki beint við. Það er óhæfa og má ekki eiga sér stað, að milljónir kr. með 2½% vöxtum séu veittar til þessara fyrirtækja. Við eigum líka að gæta að því, að þetta eru geipileg hlunnindalán, sem vextirnir af eru til jafnaðar 4½–5%. Hér eru því veittir mjög stórfelldir styrkir. Þótt þetta fé sé vitanlega frá Landsbankanum tekið, er það styrkur samt, og hlýtur því hagnaðurinn að verða minni hjá öðrum viðskiptamönnum bankans, m. ö. o. þetta bitnar á þeim.

2. brtt. okkar er við 7. frvgr. og er á þá leið, að þeir, sem eigi nýbyggingarsjóði, skuli leggja fram fé til kaupanna, en eigi megi þó lána hærri upphæð en sem svarar virðingar- eða kostnaðarverði eignar, sem lánað er út á. Ef hægt er að sanna, að lántakandi hafi gert ráðstafanir til kaupa á tveim eða fleiri framleiðslutækjum, þá megi skipta nýbyggingarsjóði hans til kaupanna, enda takist tækin í notkun innan tveggja ára, frá því er sótt er um lánið.

Þessar eru brtt. okkar. Ekkert vit er í að taka það fjármagn, sem ætlað er útveginum, og lána það út úr sjóðnum til óviðkomandi aðila. Þetta er mikilvægt og réttlátt atriði að mínum dómi: Þeir, sem safnað hafa sjóðum, hafa þar með safnað stórkostlegum hlunnindum. Er bæði eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, er þegar hafa fjármagn undir höndum, leggi sitt af mörkum til fyrirtækjanna og fái því minna úr sjóðnum en ella hefði orðið. Hér ber og á að líta, að lán þessi eru áhættulán, og þarf ríkisábyrgðir fyrir öllum lánveitingum. Það er því ekkert hóf á, að ríkið sé að leggja fram, nema aðrir komi með fé á móti.

Þetta málsatriði mun eitthvað hafa verið rætt í sjútvn., og vona ég, að það verði athugað þar nánar. Ég býst við, að samkomulag náist í n., enda virðist það sjálfsagt. Síðar við umræðurnar mun ég enn bera fram brtt. um að takmarka lánveitingarnar nánar. Ég tel ekki rétt að lána ótakmarkað úr slíkum sjóði til einstakra fyrirtækja. Ég hef eigi lagt fram till. um þetta við þessa umr., en mun gera það við 3. umr.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál, en vildi bara sýna og undirstrika, að þessi fjáröflunarleið, sem ákveðin er af stj., er hættuleg. Og það, sem hrekur stjórnarmeirihlutann út í þetta, er öngþveitisástand það, er stj. sjálf hefur skapað. Er ekki auðvelt að bæta úr þessu, nema stj. snúi við. Það er áreiðanlega hægt fyrir stj. að afla fjár án þess að leggja út á þessa hættulegu braut. Þrátt fyrir allt mundi vera hægt að leysa þetta með hæfilegum áróðri fyrir því, að menn legðu fram fjármagn það, er þeir hver fyrir sig ráða yfir.

Ég bendi á brtt. þær, sem við flytjum saman ég og hv. 6. landsk.