29.03.1946
Neðri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Það er meir vegna almennra hugleiðinga í ræðu hv. 2. þm. S.-M. en vegna þess, er hann sagði um frv. sjálft, að ég ætla að segja hér nokkur orð. Ég hef nokkrum sinnum áður heyrt þennan sívaxandi dýrtíðarsón kveða við, sem er þó sérstaklega farinn að aukast nú og því meir, sem nær dregur kosningum. Kemur æ betur í ljós, að hv. 2. þm. S.-M. trúir harla litlu sjálfur af því, sem hann lætur í veðri vaka. Jafnlélegur málflutningur af hendi hv. þm. og raun ber vitni leiðir ótvírætt í ljós, að honum hefur veitzt erfitt að koma skipulagi á mál sitt og rökstyðja fullyrðingar sínar.

Hv. þm. hóf mál sitt með því að leiða athygli hv. þingheims að því, að stefna Framsfl. hefði ætíð verið hin rétta, en stj. hefði látið ráðstafanir þær, er gera ætti, undir höfuð leggjast og skeika að sköpuðu í dýrtíðarmálunum. Ég minni hv. þm. á það, af því að hann vill vera að segja þetta, að einnig var samið við Framsfl. þegar samningaumleitanir stóðu yfir um myndun núverandi stjórnar, Ekkert það kom fram í umræðunum frá Framsfl., sem gæfi tilefni til að halda, að hann teldi það skilyrði fyrir þátttöku sinni í stj., að lækkað yrði kaupgjald í landinu, eða stemma stigu við dýrtíðinni yfirleitt. Hins vegar hélt þessi hv. þm. fram, að nauðsyn bæri til að hækka kaupgjald víða úti um land. Bændur hefðu nú víða fengið hækkað verð fyrir afurðir sínar og þess væri því ekki að vænta, enda ekki sanngjarnt, að verkamenn, er væru nálægt bændum, gætu til lengdar unað gömlum og óréttlátum launakjörum. M. ö. o., þar eð honum tókst ekki að halda við óreiðunni, var hann reiðubúinn, meðan komið gat til mála, að hann færi í stj., og reyndar til þess að geta komizt í hana, að kaupa vinnufrið fyrir hækkun kaupgjalds. Þá átti að vera goðgá að hafa í frammi kaupkúgun þá við lægst launuðu stéttirnar í landinu, sem framsóknarmenn hafa barizt fyrir síðan þeim, — m. a. fyrir handvömm foringjanna sjálfra, — tókst ekki að komast í stj., urðu utan gátta. Þessi sónn hefur kveðið við æ síðan, og spáð hefur verið hruni dag hvern, af því að kúgunarstefnu Framsfl. var eigi fylgt til lækkunar á kaupgjaldi.

Við skulum athuga nokkuð, hvernig farið hefði, ef kaupkúgunarleið Framsfl. hefði verið farin. Árangurinn af þeirri stefnu hefði orðið sá, að hér hefðu hafizt harðvítugar kaupdeilur. En þeim hefði óhjákvæmilega lyktað með sigri hinna vinnandi stétta og hins vegar því, að öll þjóðin hefði beðið vafalausan hnekki af þessum átökum, orðið fyrir miklu tjóni í heild. — Ég sagði, að vinnandi stéttirnar hefðu sigrað, af því að ekki er unnt að halda niðri kaupgjaldi meðan atvinnurekstur gengur sæmilega. Það má alls ekki ætla, að verkalýðurinn láti bjóða sér, meðan aðalatvinnuvegur þjóðarinnar ber sig vel, að kosti hans sé þrengt, ráðizt á lífskjör hans.

Það þarf því eigi að vera neinum til efs, að þessar spár mínar hefðu eins vel rætzt og víst er, að Framsókn hefur orðið sér til athlægis með þessum bölspám sínum og illbænum. Og nú halda þessir menn, að þeir geti blekkt þjóðina með þessum són sínum rétt fyrir kosningarnar. Hv. þm. sagði, að frv. það, er hér um ræðir, benti til, að stj. hefði hreinlega gefizt upp við fjármálastefnu sína, þ. e. að því er snertir stofnlánin til sjávarútvegsins. Ég vil benda á, að tvær leiðir voru til í málinu. Fyrri leiðin var að knýja þá, sem peninga eiga, til að leggja fram fé í atvinnutæki. Þessari stefnu má margt færa til ágætis, og hefði ég óskað, að einstaklingsframtakið hefði haft sig meira í frammi og mátt sín meir. Hin leiðin var að hlutast til um, að fleiri gætu eignazt hin nýju framleiðslutæki en þeir, sem eiga peninga og hafa þau ekki. Ég ætla að skýra þetta með dæmi. Það er t. d. einn kaupstaður, sem nú er í miklum uppgangi og hefur fyrir ötula forustu tekizt að auka útveg sinn mjög, en menn telja þar, að bærinn eigi sjálfur að hafa umráð yfir öllum framleiðslutækjunum. Nú vildi þessi kaupstaður ráðast í togarakaup, en skorti handbært fé. Ef stefnu hv. 2. þm. S.-M. hefði verið haldið, þá gat kaupstaðurinn engan togara eignazt. Þótt hann e. t. v. gæti aflað sér annarra tækja með tekjum sínum, tækja, er líka geta veitt honum fjármagn, þá vilja kaupstaðarbúar nú einnig fá togara, til þess að hafa enn fjölbreyttara framleiðslulíf. Þessi hv. þm. fór nú á stúfana og getur fengið lán fyrir þennan kaupstað hjá ríkinu, að upphæð 91.66%, og á að leggja það fram. Þegar svo stendur á, að þessi kaupstaður er í kjördæmi hv. þm. og hann er einmitt á biðilsbuxunum fyrir honum vegna komandi kosninga, þá á að vera ágætt að láta ríkið leggja af mörkum. Er þetta auðskilið, því að kaupstaður þessi er Norðfjörður. Annars held ég, ef ég hefði verið einráður, að ég hefði farið nær hinni stefnunni en hér er gert. Þessi er seinni stefnan, sem hv. þm. er með í kjördæmi sínu, þar sem hann ætlar að bjóða sig fram. En þegar á Alþ. kemur, þá upphefjast nýjar rímur og aðrir sálmar. M. ö. o., hann berst á móti síðari stefnunni á þingi, en fyrir henni, þegar hann er kominn á framboðsbuxurnar og kosningar standa fyrir dyrum. Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

Stj. hefur engan veginn gefizt upp við fjármálastefnu sína. En hún vill reyna báðar þessar leiðir. Ég undrast, að ekki óskýrari maður en hv. 2. þm. S.-M. skuli lenda í slíkum ógöngum, er hér sést, þegar hann ætlar að fara að sýna fram á fjárglæfrastefnu stj. og það vantraust þjóðarinnar á mátt peninganna, að hún vilji ekki kaupa framleiðslutækin. Ég spyr: Hverjum er það að kenna, að komið hefur verið inn hjá þjóðinni að vanmeta verðgildi peninganna? Svona rökvillur færa ekki aðrir fram en þeir, sem trúa ekki því, er þeir segja sjálfir. En ef menn svo spyrja, hvers vegna einkaframtakið hafi sig ekki meira í frammi, þá er þetta svar mitt: Almenningur trúir lítt á aðgerðir Alþ. í skattamálunum vegna slæmrar reynslu af því. Ég á hér við skattastefnur þær, sem enginn hefur átt meiri þátt í að innleiða á Íslandi en einmitt þessi hv. þm. Voru þær á góðum vegi með að lama allan sjálfstæðan atvinnurekstur í landinu.

Ég upplýsi það, að búið er, að því er ég hygg, að panta 11–12 hinna 30 togara. Ég veit sjálfur um 3–4 einstaklinga í viðbót, sem hafa hug á að kaupa nýja togara, og er það mín skoðun, að þeir verði fleiri, áður en lýkur, en hægt verður að fullnægja með góðu móti. En ég hygg, ef sjá á þessum málum borgið, að það sjónarmið eigi að ríkja, að þeim, er ekki hafa nóg fjármagn nú, verði gert kleift að fá togara líka. Hins vegar er ekki nægilegt fé fyrir hendi til að sinna öllum.

Út af hinum eilífa dýrtíðarsón vildi ég annars segja það, að broslegt er að sjá og heyra sýknt og heilagt menn gaspra um hina geysilegu og ægilegu dýrtíð. En hvað er hún raunverulega? Hún er aukið kaupgjald og hækkað afurðaverð. Hún hefur verið úrræði til auðmiðlunar milli atvinnurekenda, er standa að framleiðslunni, og almennings í landinu. Og þetta hefur í för með sér: a) hærra kaup fyrir verkamanninn og b) hærra afurðaverð fyrir bóndann.

En vel mætti hv. 2. þm. S.-M. minnast þess, að reynt hefur verið af honum m. a. að hækka afurðaverð bænda í landinu. Öðrum mun hafa tekizt sæmilega, öðrum miður, en sem heild sæmilega. Ástæðan er sú, að sjómaðurinn, sem vinnur að framleiðslunni, hefur fengið hærri hlut, meiri peninga fyrir vinnu sína. Landverkamaðurinn segir: Ég vil líka fá hærra kaup eins og hann. Af því leiðir svo, að bóndinn fær hærra verð fyrir sínar afurðir. Þegar þannig er komið, hlýtur vísitalan í landinu að hækka. Stjórnarvöldin geta ekki hvort tveggja hælt sér af þeim afrekum að selja framleiðsluvörur landsins út úr landinu á sem hæstu verði, en skorast undan ábyrgð á hækkaðri vísitölu í landinu. Nú eru horfur á hækkandi verðlagi á framleiðsluvörum okkar á þessu ári. Sennilega er útlit fyrir mjög verulega hækkun á verði aðalframleiðsluvaranna. Í fyrra var sagt, að gjaldþrot væri framundan. Að vísu sögðu þetta framsóknarspámennirnir, svo að á því tók enginn mark. Síldarmálið, sem var selt á 18 pund, kemur nú til með að verða selt á 26 pund. Ég get ekki fullyrt um þetta, en miklar líkur eru fyrir því, að síldarlýsi, síld og margar aðrar afurðir seljist á góðu verði. Af þessu kemur til með að leiða, að vísitalan hækki, nema menn geri öflugar ráðstafanir til, að svo verði ekki. Og fyrir mitt leyti er ég viðmælandi um það. — Þetta er nú dýrtíðin, sem alltaf er verið að rausa um og látið með eins og um mannsmorð væri að ræða. En ef afurðaverðið fellur, þá er ekki um annað að ræða en laga framleiðslukostnaðinn eftir verðlaginu. En það er allt annað mál en að koma nú til vinnustéttanna meðan atvinnureksturinn skilar arði og heimta að lækka kaupið. Þegar svo er komið, að atvinnurekstur landsmanna er farinn að vera rekinn með tapi, þá er allt annað mál, þótt sagt sé : Nú verður hver að minnast þess, að stærri skammt en atvinnulífið gefur getur enginn fengið. Og ég efa ekki, að þetta mæti skilningi, sér í lagi þó gagnvart þeim valdhöfum, sem hafa sýnt það, að þeir vildu ekki skerða hlut almennings meðan ekki var nauðsyn til þess. Það er því fjarri því, að um fjárglæfra sé að ræða í stefnu núv. ríkisstj. Það voru glæfrar að fylgja annarri stefnu, sem hefði óumflýjanlega leitt til innanlandsstyrjaldar, sem hefði kostað landið hundruð millj. kr. og þjóðin sopið seyðið af því.

Varðandi það frv., sem. hér liggur fyrir, er það að segja, að ég lít á þessa till., sem hér er borin fram af meiri hl. n., sem samkomulag við Landsbankann. Ég fullyrði, að Landsbankinn er reiðubúinn að ganga inn á þetta og sættir sig við það, svo að um enga þvingun er að ræða. Ég er til viðtals um aðra leið við útlánastarfsemina, ef Landsbankinn hefði viljað sætta sig við það. En þar sem Landsbankinn taldi sig geta sætt sig við þessa leið og aðra ekki, get ég unað við þessa leið. Ég legg mikið upp úr því, að sú leið sé valin, sem Landsbankinn telur sig geta fylgt. Og ég er sammála hv. þm. um það, að það er varhugaverð braut að leiða þjóðbankann út í þá útlánastarfsemi, sem stjórn hans er andvíg.

Um meginefni málsins ætla ég svo ekki að fjölyrða. Það hefur orðið ofan á, að stjórnarandstaðan hefur slegizt í för með okkur og þar með viðurkennt, að sjávarútvegurinn eigi heimtingu á að fá ódýr stofnlán. Hann hefur skapað auðmagn þjóðarinnar síðustu áratugina og er því vel að því kominn að fá sæmileg lánskjör. Það, sem nú á að gera, er að taka innstæður þjóðarinnar, sem liggja erlendis vaxtalitlar eða vaxtalausar, og breyta þeim í tæki, gera tvennt í senn, sem hv. þm. virtist telja mestu goðgá og fjarstæðu, kaupa tækin og leggja í útlán til þeirra, sem vilja kaupa þau. Ég held hv. þdm. muni skilja þetta, ef hann leggur höfuðið í bleyti.

Ég held þetta frv. sé eitthvert það merkasta og bezta, sem fyrir þingið hefur verið lagt um nokkurt árabil. Ég vona það fari hraðbyr gegnum þingið og verði þjóðinni til þeirrar blessunar, sem þeir ætlazt til, er að því hafa unnið.