07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

16. mál, fjárlög 1946

Helgi Jónasson:

Ég skal nú ekki tefja þessar umr. lengi.

Hv. frsm., þm. Barð., hefur rakið mjög ýtarlega till. n., sem hér liggja fyrir, og skal ég ekki fara neitt út í það í einstökum atriðum.

Hann byrjaði ræðu sína á því, hvernig fjárlfrv. væri nú, hvað það bæri vott um mikinn nýsköpunaranda hjá ríkisstj. og hvað Alþingi treysti hæstv. stj. vel. Þetta er náttúrlega ekki alveg svona eftir orðanna hljóðan, af því að ég býst við, að þótt frv. sé það hæsta, sem nokkru sinni hefur verið, um það eru allir sammála, en um þá miklu kosti, sem því fylgi, rýst ég við, að séu skiptar skoðanir, því að við vitum það vel, hv. þm. Barð. eins vel og aðrir, að við fáum nú heldur minna fyrir hverja krónuna en oft hefur verið áður, og þó að nú sé miklu fé varið í krónutali til ýmissa framkvæmda, þá vitum við það, að framkvæmdirnar ganga ekki, því er nú verr og miður, því hraðar eða fljótstígar en oft undanfarið.

Hv. frsm. gat um það eins og hv. 4. landsk., hvað hæstv. stj. vildi verja samkv. fjárlfrv. miklu til nýsköpunarinnar, sem nú er oft um talað. En þegar maður fer yfir frv., sem hæstv. stj. lagði fyrir, þá er það einkennilegt við það, að þegar kemur að þeim greinum, sem tilheyra verklegum framkvæmdum í þessu landi, þá fyrst kemur fram, að hæstv. stj. vill fara að spara, því að bæði 13. gr., sem viðkemur vega- og hafnarmálum og öðru slíku, og eins 16. gr., þá fyrst fer maður að verða var við lækkanir á frv.

Við erum búnir að fara yfir allt frv. í fjvn. Okkur varð fyllilega ljóst við yfirlestur þess, að till. frá forstjórum einstakra fyrirtækja hafa allar verið teknar til greina, þar hefur engu verið breytt, ekkert verið raskað við þeim óskum, sem þeir hafa farið fram á um mannahald og annað slíkt. Hjá flestum stofnunum er mikill fjöldi fólks, launin vitanlega stórhækkuð samkv. launal., og það er meira en það, því að þar eru ýmsir þeir liðir, sem áður voru settir inn í vissar gr. frv. og voru beint gerðir til þess að vera persónuleg uppbót til vissra manna, meðan laun þeirra voru lág. Þessu er öllu haldið í frv. Fjvn. hefur því miður ekki getað lagað nema lítið eitt af þessu. Til þess hafði hún ekki tíma, tækifæri né aðstöðu. Við höfum séð meira að segja, að með reglugerðarákvæði hefur hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum verið breytt svo vinnutíma um leið og launin voru hækkuð, að það nemur hjá sumum stofnunum á 10. hundrað þúsunda, þrátt fyrir það, að þingið hefur samþ. einróma till. frá fjvn. um það, að athugað yrði við setningu nýrra launal., hvort ekki væri eitthvað hægt að draga úr kostnaði við starfsmannahald og eins að athuga alla starfrækslu hinna einstöku stofnana. Þetta hefur ekki verið gert, síður en svo, því að frv. ber með sér, að þar hefur ekkert verið til sparað í þessum atriðum, heldur hefur sukkið aldrei verið eins mikið og nú. Og þó að því væri haldið fram á síðasta þingi við setningu nýrra launal., að þetta ætti að lagfæra, þá hefur það því miður ekki verið gert. Hv. frsm. benti réttilega á þetta í vissum atriðum, og ég undirstrika það; sem hann sagði um þessi atriði. En mér fannst ekki eins til um það, sem hann sagði um þá nýsköpunaröldu, sem nú væri að rísa svo hátt í þessu landi, því að eins og ég gat um áðan, þá er það svo, að fyrst þegar komið er að þeim atriðum, þá er farið að færa niður. Hann sagði, að það væri gleðilegt, hvað hæstv. forsrh. og fjmrh. hefði tekizt að skaffa margar krónur í ríkissjóð. Það er að vísu rétt, að krónutalan er há, en ég held nú samt, að ýmsir þeir liðir, sem mestar tekjur gefa nú í ríkissjóð, séu þannig, að þjóðin hafi litla ánægju af. Ég heyrði á hv. 4. landsk., sem hér talaði áðan, að hann teldi tekjuáætlunina ákaflega varlega. Ég er honum í því efni algerlega ósammála. Ég tel, að við höfum í þeim efnum farið svo hátt sem forsvaranlegt er að fara, og um það er enginn ágreiningur milli mín og hv. frsm. Hv. 4. landsk. hélt fram, að við hefðum mátt hækka einn lið um 5–6 millj. kr., sem sé tekjur af áfengissölunni. Þar er ég honum algerlega ósammála. Við heyrum nú víðs vegar, bæði í þessum bæ og annars staðar, koma fram mjög háværar raddir um, að það sé þjóðarnauðsyn að reyna nú eitthvað að draga úr áfengisflóðinu. Ég játa það fyrir mig persónulega, að ég er enginn templari, síður en svo. En þrátt fyrir það blöskrar mér, hvað drukkið er, sérstaklega hvað unga fólkið drekkur. Ég bý hér í miðbænum, og það eru færri nætur, sem maður vaknar ekki við ólæti og hópgöngur af drukknu fólki í miðbænum. Þetta er sorglegt að sjá, og ég held, að hæstv. stj. ætti að taka til athugunar kröfur hinna fjölmörgu manna og félaga, sem líta svo á, að það sé nóg komið og eitthvað verði til bragðs að taka, svo að ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á að hækka þann lið, sem áfengið nú gefur, hann er kominn alveg nógu hátt, og ég held, að það sé enginn þjóðarhagur að því, að hann hækki.

Þá gat frsm. um, hvað það væri gleðilegt, hvað atvinnuvegir okkar stæðu með miklum blóma. Það má kannske segja, að svo sé, en þó er það þannig í fjárl. nú, bæði þessum og undanfarandi fjárl., að þar hefur verið milljónaframlag, sem er greitt til einstaklinga í þessu landi, vegna þess að framleiðslukostnaðurinn er svo hár hjá vissum hluta framleiðslunnar, að það verður að gefa í milli úr ríkissjóði. Þetta er ekki gott ástand hjá framleiðslu okkar. Við vitum það, að í þessum mánuði hafa komið ákveðnar raddir frá hinum aðalatvinnuvegi okkar lands, sjávarútveginum, bæði frá fundi útvegsmanna á Suðurnesjum og eins frá fundi Fiskifélagsins, og þær fundarályktanir gefa til kynna, að þessum mönnum finnst ekki vera mjög bjart fram undan í þeim efnum, jafnvel þó að það verðlag, sem nú er á fiski okkar á erlendum markaði, haldist óbreytt. Skal ég engu spá um það, hvernig því máli reiðir af, fisksölu okkar erlendis, en þó býst ég við, að flestir séu sammála um, að ekki sé útlit fyrir, að verðið fari hækkandi, ég býst við, að fremur komi fram óskir um lækkun en hitt, um það held ég, að allir geti verið nokkurn veginn sammála, eins og nú er háttað. Þá sjáum við það, að ef enn þá heldur krónunum áfram að fjölga og verðgildi þeirra minnkar, þá eru komnar hærri tölur, en ég efast um, að það verði talið öruggt undirstöðuatriði undir framleiðslu okkar.

Þá gat hv. frsm. réttilega um það, að samkomulag hefði orðið um ýmis stærstu atriðin hjá fjvn. Fjvn. var alveg ljóst, hvernig þörfinni í þessum málum er háttað. Við skulum taka t. d. hafnargerðir og lendingarbætur. Nú er fullvíst, að á næsta ári kemur hér inn til landsins fjöldi báta, en svo er ástatt, að jafnvel þó að fáist menn á þessa báta, en það er annað atriði málsins, þá er þannig ástatt, að þeir geta hvergi lagzt í höfn, en það held ég, að sé fullkomið skilyrði, því að það er lítil nýsköpun í því, þó að mörg skip séu keypt, ef þau verða að vera úti á rúmsjó, en geta hvergi lagt að landi. Og það er vitað mál, að eins og nú er ástatt, þá er þörf á að bæta aðstöðuna til þess að geta hagnýtt fiskimið okkar. Og þess vegna lagði ég fyrir mitt leyti til, — og gerði það hálfnauðugur, enda þótt n. hækkaði útgjöld fjárl. verulega frá því, sem í frv. er gert ráð fyrir, — að gefin yrði heimild til þess, að ríkisstj. gæti tekið að láni allt að tvær millj. kr. til þess að bæta úr í þessu efni. Þetta gerði ég nauðugur, af því að ég taldi vart forsvaranlegt á tíma eins og nú að taka lán til framkvæmda. En ég sá, að þörfin á þessu var svo brýn, að ég setti mig ekki á móti því, að þetta lán yrði heimilað að taka. Og það er ekki neinn vottur um glæsilega fjárhagslega útkomu, að við þurfum nú, á meðan stríðsgróðinn er enn í okkar landi, að taka lán til nauðsynlegra framkvæmda, sem þjóðin þarf að gera.

Ég skal ekki fara neitt út í nýsköpunina. Mér heyrist, að margir, sem trúaðir hafa verið á hana, séu farnir að efast um, að hún verði eins mikil og af hefur verið látið. Því að það þarf að gera meira en að panta og kaupa báta og skip. Það er ekki nóg að hugsa um einn þátt nýsköpunarinnar, en láta allt annað reka á reiðanum, eins og ríkisstj. virðist hafa gert. Það er ekki nóg að kaupa skip, ef ekki er til höfn til þess að láta þau lenda í og ekki er maður til á skipin. Þetta þarf að hugsa um. En þessu hefur ríkisstj. gleymt.

Viðkomandi vegunum var nýsköpunin ekki meiri en það, að þó að fjárlagafrv. hækkaði að krónutölu útgjalda megin, þá var lækkað framlagið til nýrra akvega um rúma millj. kr. frá því, sem var á síðasta ári. N. var nokkurn veginn sammála um það, að hér þyrfti að breyta um og hefja nýsköpun í því að reyna að halda áfram að hjálpa því fólki, sem úti á landsbyggðinni býr. Því að það er víst, að ef á að taka alveg fyrir þær litlu greiðslur, sem undanfarin ár hefur verið varið til vega úti á landi, þá er það sama og að flæma fólkið burt af jörðum sínum. Ef þetta fólk, sem býr við erfiðar samgöngur, sér, að Alþ. og ríkisstj., sem er með fjárlagafrv. upp á yfir 100 millj. kr., getur ekki miðlað þessu fólki fjárframlögum, til þess að það geti fengið vegi til að geta haldizt við á býlum sínum, þá hefur það þau áhrif að koma inn fullkomnu vonleysi hjá því í sambandi við það að vera kyrrt í sveitinni. N. var ljóst, að hækka þurfti framlög til vega og gerði till. um það. En það kostar það, að afgreiðsla frv. verður ekki eins glæsileg og hv. frsm, vildi vera láta. Fjvn. hækkaði tillag til veganna eitthvað um 2 millj. kr. og reyndi að dreifa því um landið eins og kostur er á og með fullu samkomulagi innan n., og er það gott, því að maður getur vænzt þess, að það, sem fjvn. er sammála um, muni þingið líta svipuðum augum og fjvn.

Ég skal í þessu sambandi ekki fara út í einstaka liði. Hv. frsm. fjvn. minntist á þetta mjög greinilega. Náttúrlega vorum við í n. stundum ekki á sama máli og bar á milli um einstaka liði. Og hv. form. n. dæmdi þá liði, sem hann var á móti, óalandi og óferjandi.

Mig langar til þess að minnast á einn þennan lið, sem er tillag til Jóns Dúasonar. Ég hef alltaf lagt til í fjvn., að þessi maður fengi dálitla upphæð til þess að ljúka við það mikla verk, sem hann hefur ungur hafið og fórnað allri ævi sinni fram að þessu til þess að reyna að koma í framkvæmd. Ég efast um, að nokkur maður, sem við nú þekkjum til, hafi lagt eins mikið í sölur og fórnað eins miklu fyrir áhugamál sín og Jón Dúason. Ég játa, að ég get ekki dæmt um þetta frá vísindamanns sjónarmiði. En þó er það svo, að ýmsir þeir, sem hafa lesið þessi rit hans og hafa fylgzt með þeim og eiga að hafa nokkra kunnáttu til þess að geta dæmt um, hvort rétt eða rangt er farið með í ritum hans, hafa borið lofsorð á þessi skrif hans. Og þar sem hæstv. Alþ. undanfarið hefur mælt með því að veita honum styrk, vil ég ekki verða til þess, að hann geti ekki haldið áfram með vísindastarf sitt. Og þessi styrkur, sem fram á er farið, að honum verði veittur til viðbótar, er ætlaður til þess, að hann geti byrjað á því að koma út á ensku ritum þessum frá hans hendi og þegar er byrjað að þýða. Ég vildi veita smáupphæð í þessu skyni, og meiri hl. n. var samþykkur því.

Um aðra liði, sem hv. frsm. fjvn. ræddi, skal ég ekki ræða. Þó skal ég játa, að ég tel Arnór Sigurjónsson þess maklegan að fá rithöfundarstyrk. Hann er mikill fræðimaður, hefur margt skrifað og margt vel og nú fyrir nokkrum dögum lokið við að semja ævisögu Þorgils gjallanda. Og ég hygg, að það verk hafi farið honum mjög vel úr hendi. Þess vegna gat ég fylgt því, að hann fengi 5 þús. kr. rithöfundarlaun.

Ég man ekki, hvort það eru fleiri liðir, sem hv. form. fjvn. var sérstaklega hneykslaður yfir. Kann að vera, að þeir hafi verið fleiri. En ég man ekki, hvort ég hef verið sérstaklega við þá riðinn.

Þá minntist hv. form. fjvn. og hv. 4. landsk. þm. líka nokkuð á sauðfjársjúkdómavarnirnar, og mér heyrðist þeir báðir vera á þeirri skoðun, að miklu hefði verið kostað til þeirra. Og það er satt. Til þeirra hefur verið kostað miklu fé. En n. gerði engar till. um breyt. á þeim lið. Ríkisstj. fékk þann lið töluvert lækkaðan í fyrra. Og ég býst við, að hæstv. landbrh. hafi haft fulla yfirsýn yfir það mál, og þess vegna hafi það verið, að hann lagði ekki til nú, að þessi liður yrði lækkaður á næsta árs fjárl. Og þess vegna var það, að ég vildi halda þessum lið óbreyttum. Við fengum ýmsar upplýsingar í n. um þessi mál hjá framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar. Og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, virtist ekki kleift að draga úr þeim kostnaði á næsta ári, sem í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir. Og hann gat um það sem algert nýmæli, sem ég get fallizt á, að sé réttlátt, að nú verði hætt að greiða til þeirra manna, sem framleiða mjólk að nokkru ráði, þ. e. hafa 6–8 kýr, styrk til þess að ala upp sauðfé, og er það mikil breyt. frá því, sem var á fyrri tíma, er menn fengu jafnan styrk til slíkra hluta, hvort sem þeir framleiddu mikla mjólk eða litla. — Um sauðfjárveikivarnirnar er það að segja, að um það hefur lengi verið deilt, hvort þær kæmu að þeim notum, sem haldið hefur verið fram og þær áttu að gera. Hvað sem um það má segja, verður því ekki mótmælt með réttu, að varnirnar hafa a. m. k. tafið mjög fyrir veikinni í sauðfénu. Og enn þá er eftir a. m. k. helmingur af landinu, þar sem fé hefur ekki fengið þessa veiki. Og ekki er vafi á því, að ef engar mæðiveikivarnir hefðu verið, má búast við, að veikin hefði verið komin um allt landið. Og það er ábyggilegt, að það er stórfelldur sparnaður fyrir þjóðarbúið í heild, ef hægt er að láta þessa veiki fara hægt yfir. Því að það hefur sýnt sig, að margir hafa haft miklu betri tekjur af sauðfé sínu þar, sem veikin hefur komið smám saman, heldur en þar, sem hún hefur geisað, sem mæðiveikin hefði gert um allt landið, ef engar girðingar hefðu verið til þess að tefja fyrir útbreiðslu hennar.

Þá er það niðurlagið á ræðu hv. form. fjvn. Ræða hans var prýðileg, nema upphafið og endirinn. Í endi ræðunnar sló mjög út í fyrir honum, sem mér kom mjög á óvænt. Hann vildi halda því fram, að samflokksmenn mínir hefðu haft í frammi einhverja þvingun gagnvart mér í sambandi við það, að ég skrifaði undir nál. fjvn. með fyrirvara, sem ég gerði. Ég get trúað því, að hv. form. fjvn. sé vanur því að hafa yfir sér eitthvert húsbóndavald. Það mætti segja mér, að svo væri, og þess vegna mundi þeim hv. þm. ekki finnast nema eðlilegt, að í Framsfl. hefðum við húsbóndavald yfir okkur, sem skipaði okkur fyrir verkum. Það er eðlilegt að vissu leyti, að menn haldi, að aðrir búi við það sama sem þeir sjálfir. En svo er ekki hjá okkur í þessu tilfelli. En mér er nær að halda, að hv. form. fjvn. hafi fengið einhverjar óbeinar fyrirskipanir um það, að hann setti þann fyrirvara, sem raun varð á, því að þegar hann kom á fund í n. stuttu áður en hann skrifaði undir, var ekki annað á honum að heyra en að hann væri algerlega sammála um nál. Og ég veit, að í hjarta sínu er hann okkur algerlega sammála. Hann hefur sýnt það í vinnubrögðum í n., að hann lítur svipuðum augum og framsóknarmenn í n. á málin, en það er húsbóndavaldið, sem varnar honum þess að halda því fram opinberlega. Ég veit, að hv. þm. Barð. er það fullljóst, að eins og dýrtíðin er orðin í þessu landi, þá er næsta erfitt að afgr. fjárl. svo, að það fari vel úr hendi. Og ég er alls ekki ánægður með afgreiðslu þeirra fjárl., sem hér liggja fyrir. Og ég veit, að hv. form. fjvn. er mér algerlega sammála í því efni. Ég veit, að honum þykir það ekki góð fjárlagaafgreiðsla, að nú skuli, á þessum albezta tíma, sem yfir landið hefur komið hvað tekjur snertir, þó ekki vera veitt meira til verklegra framkvæmda í fjárl. hlutfallslega en árið 1938. Því að árið 1938 var 40% af útgjöldum fjárl. varið til útgjalda á 13. og 16. gr., en nú eru það rúm 30%. Það eru hærri tölur nú, en hlutfallslega lægri upphæð miðað við heildarupphæð fjárl. Og ég býst við, að hv. form. fjvn. sé mér algerlega sammála um, að það sé óviðunandi afgreiðsla að þurfa að afgr. fjárl. með stórum rekstrarhalla og miklum halla á sjóðsyfirliti. Ég veit, að hann er algerlega á móti því, þó að hann verði að gera það, vegna þess að hann hefur yfir sér húsbónda. En við framsóknarmenn í n. skrifuðum undir með fyrirvara alveg af frjálsum vilja. Við höfum þessa skoðun, sem ég nú síðast hef lýst, og það veit ég, að okkar flokksmenn hafa yfirleitt. Og ég býst við, að flestir, þegar þeir athuga fjármálaafgreiðsluna, verði á sama máli, að það verði ekki okkur til sóma að þurfa nú að afgr. fjárl. með miklum rekstrarhalla á sjóðsyfirliti og þannig, að lán þurfi að taka til þess að geta haldið verklegum framkvæmdum í svipuðu horfi og var fyrir stríð.