03.04.1946
Neðri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Forseti (BG):

Vegna ummæla í upphafi ræðu hv. þm. Vestm. þykir mér rétt að taka fram, að hv. þm. var veitt orðið á undan hv. 2. þm. S.-M. vegna þess, að með því móti sparaðist tími. Hv. 2. þm. S.-M. hafði óskað eftir því, að hæstv. forsrh. hlýddi á ræðu sína, og sendi ég boð til hæstv. forsrh. Þótti forseta því rétt að veita hv. þm. Vestm. orðið á meðan beðið var, því að biðtíminn var óviss. Í upphafi ræðu sinnar talaði hv. þm. Vestm. um mjög seina afgreiðslu 5. dagskrármálsins og lét orð í því sambandi falla á þá leið, að þetta mál hefði verið látið lafa síðast á dagskránni. Nú vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. Vestm., hvort þessi orð beri að skilja svo, að hann álíti, að forseti sé að tefja fyrir málinu með þessari afgreiðslu.