03.04.1946
Neðri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Já, ég heyri, að hæstv. forseti hefur gert ráðstafanir til þess að láta hæstv. forsrh. vita, en nú er liðin ein klukkustund, og hann er enn ekki mættur. Það væri æskilegt, að hann væri viðstaddur þessar umræður. Ég víti framkomu hæstv. forsrh. fyrir að láta ekki sjá sig, og þá sjaldan að hann sést hér í deildinni, þá er hann á hlaupum.

Mér finnst furðulegt að heyra hv. þm. Vestm. tala um tafir á máli þessu. Meiri hl. sjútvn. er búinn að tefja þetta mál í hálft ár. Þeir eru búnir að vera með málþóf fram og aftur, hæstv. forsrh. og fjmrh. og hv. þm. Vestm., þannig þrír í röð. Hv. 2. þm. Reykv. hélt hér málþófsræðu eins og fyrri daginn.

Áður en ég svara, ætla ég að minnast á tvö atriði, sem eru óskyld þessu máli. Þessi hv. þm. sagðist ekki hafa orðið var við, að ég hefði neinar leiðir, nein úrræði fyrr en nú. Ég get sagt, að þegar ég var ráðh., reyndi ég að binda nokkurn gjaldeyri og komst ég það langt að binda nokkurn hluta togarainnistæðnanna erlendis, en sjálfstæðismenn afnámu strax þennan lokaða reikning. Þessi hv. þm. hefur í frammi slúðursögur um gjaldeyrismálin og talar um, að illa hafi verið á þeim haldið, og bendir á nýsköpunina í því sambandi. Ég er óhræddur við þann samanburð. Hagskýrslur sýna, að á árunum frá 1934–1938 var meira fé fest. í atvinnutækjum en næstu 10 árin á undan. Hvað viðkemur innflutningi skipa, þá eru ósönn ummæli hv. þm. Vestm. Það var beinlínis skorað á alla að reyna að festa kaup á fiskiskipum, ef hægt væri, áður en stríðið skylli á. Gjaldeyrisskortur var þá í landinu og ekki var hægt að borga skip út í hönd.

Það hefur verið fundið að till. mínum í þessu máli. Þetta byggist á því vantrausti, að almenningur vilji ekki kasta fé sínu til kaupa á ríkisskuldabréfum. Á þessari vantrú byggist það, að verið er að reyna að lögbjóða þjóðbankanum að leggja fram fé til þessa sjóðs. Er meiningin að búa til nýtt fjármagn? Nei, hv. meiri hl. segir, að þetta sé ekki meiningin. En er þá ekki hægt að fá þetta fé með frjálsum hætti? Þeir segja, að það sé ekki hægt. Ég vil benda hv. þm. á þetta hættulega fordæmi. Hvar eru takmörkin? Geta þeir ekki seinna skyldað menn til þess að lána í eitthvað annað? Það gæti komið einhver annar aðili og heimtað 20, 30 eða 40 milljónir.

Mig undrar málflutningur hv. þm. Vestm. Á móti hinum erlendu innistæðum stendur sparifé landsmanna, og ef ekki á að koma fram mismunur, verður fjármagn að koma, sem festist. Ef festa á seðladeild Landsbankans, verður bankinn að auka seðlaútgáfuna. Sé slíkt gert, þá er verið að stefna að verðbólgu. Með þessu er fjármagnið jafnlaust og menn geta heimtað fé sitt úr bankanum, og þá, verður að auka seðlaútgáfuna. Ég er hissa á því, að þetta skuli rætt hér á hæstv. Alþingi. Allir ættu að vera klárir á þessu fyrir löngu.

Það er alls ekki af gamni, að þjóðirnar hafa reynt að festa fjármagnið. Ég vara við þessari leið. Ég tel, að hægt hefði verið að fara hina, og held því fram, að hún sé betri. Það er talið, að greiða þyrfti hærri vexti, ef farin væri sú leið, sem ég benti á. Ég vil benda á, að þetta er rugl í hugum manna. Hvar er fjármagnið?

Það hlýtur að vera, að annaðhvort verður bankinn að greiða lægri vexti af sparifé landsmanna eða taka hærri vexti af lánum. Er nokkuð mætara að taka féð af sparifjáreigendum eða af rekstrarlánum? Er ekki eins gott að taka fjármagnið eftir skattstiga?

Hv. 2. þm. Reykv. hélt hér furðulega ræðu og hélt því fram, að fjármagnið yrði tekið af útgerðinni, ef mín leið væri farin. Þetta er furðuleg fjarstæða, en er sannleikur, ef málið fer eins og meiri hl. vill. Þá verða vextirnir teknir af fé viðskiptamanna bankans. Mér þætti furðulegt, ef útgerðin borgaði minna, ef farið væri eftir því, sem ég legg til. Þetta stafar af þeim kvíða, að hægt sé að fá féð með eðlilegu móti.

Nýbyggingarráð hefur bitið sig í það, að fjárfesting og lán innanlands séu í samhengi. Þetta eru tvö óskyld mál, sala gjaldeyris til kaupa og hitt, hvernig eigi að fara að útvega lán innanlands. Nei, betra er að ganga hér hreint til verks. Ég held, að hér hafi ekkert fram komið, sem mæli á móti því, að leið mín sé eðlileg, og ég fullyrði það þrátt fyrir mótbárur hæstv. ríkisstjórnar. Það er hægt að ná í fjármagn með þessu móti. Ég tel nú hv. þm. Vestm. svarað.

Ég vil nú víkja að hv. 2. þm. Reykv. Hann talaði um þetta eins og hann einn vissi skyn á þessu, og varð niðurstaðan í ræðu hans eftir 1½ klukkustund, að eftir því, sem ég legði til, þá ætti að reka gamaldags og úrelta peningapólitík, en tillögur nýbyggingarráðs væru að reka peningapólitík eftir vissu „plani“. Já, heyr á endemi. Ég veit annars ekki, hvað þetta á að þýða. Hann segir, að þetta sé til þess að hafa vald á innistæðunum. Það er nú svo, að lausaféð í landinu er ófest með öllu, þó að seðlabankinn sé skyldaður til þess að leggja fram þessar 100 milljónir. Þetta er því til þess að skapa enn minna vald yfir fjármagni því, sem til er. Það, sem hv. 2. þm. Reykv. heldur fram, er því algert öfugmæli. Mín leið er sú, að reyna að fá fjármagnið með frjálsum hætti, og þá er það fé, sem næst á þann hátt, ekki laust, en leið þessa hv. þm. er gagnstæð. Hann vill láta lögbinda þjóðbankann, en láta fjármagnið leika lausum hala. Óvitlausir menn vita þetta, og það er bókstaflega furðulegt af stjórnarmeirihl. að hengja sig þannig upp á vegg. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á, hve erfitt verður að stöðva þessa skriðu, er beiðnunum rignir inn í seðlabankann um að kaupa skuldabréfin. Ég veit, að fjmrh. er á móti þessu, þó að hann hafi látið dragast út í þetta eins og svo margt annað. Ég vil því skora á hæstv. fjmrh. að athuga þetta.

Ég læt nægja þetta svar til hv. 2. þm. Reykv. Ókvæðisorð hans um Landsbankann koma mér ekki við. Landsbankinn er gyðingur í augum hv. 2. þm. Reykv., sem hann ofsækir og er óvinur hans.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði: „Hefur þessi hv. þm. gert sér ljóst, hve mikið fé þyrfti að festa á næstu misserum og næstu árum?“ Ætti ekki frekar við að spyrja hv. 2. þm. Reykv. um þetta og þá í nýbyggingarráði? Það ætlaði nýbyggingarráð að byrja að gera áætlanir um, en sveik það. Þeir eru nokkuð loftkenndir þessir menn. Þessi hv. þm. sagði, að hér þyrfti að festa þúsund milljónir. Þá spyr ég: Verður ekki þá einhvern tíma þungt undir fæti, er byrja þarf við fyrstu 100 millj. að skylda Landsbankann til að lána? Þessir menn eru svo trúlitlir, að þeir treysta sér ekki að ná inn eitt hundrað millj. eftir. venjulegum leiðum. Ég vil biðja hv. þdm. að hugsa um þetta. Mér hefði fundizt, að hæstv. fjmrh. hefði átt að leggja til, að farin yrði önnur leið í þessu. Það er ekki aðeins varhugavert að skylda Landsbankann til þessa, heldur er hættulegt að fara inn á þá leið að skylda Landsbankann, því að ef hún væri tíðkuð, þá leiðir það til þess, að það verður að auka seðlaútgáfuna eða menn fara að frysta inneign sína í bönkunum.

Þá minntist hæstv. ráðh. á brtt., sem við hv. 6. landsk. flytjum, og sagði, að ekki væri rétt að spyrna við, að dráttarbrautir fengju lán úr sjóðnum. En ég er ekki sammála hæstv. ráðh. um þetta. Ég álít, að það eigi bara að hleypa sjávarútvegsmönnum í sjóðinn, og held því fast við þessa till., að „slippir“ fái því aðeins lán, að þeir séu reknir á vegum útgerðarinnar. Þetta eru styrktarlán og þessi vaxtafótur er lægri en tíðkast í frjálsum viðskiptum, og hans eiga ekki aðrir að njóta en þeir, sem stunda sjávarútveg.

Hæstv. ráðh. sagði, að menn mundu leggja strax í fyrirtækin. En þetta getur ekki staðizt. Margir munu ekki treysta því, að hægt verði að nota svo lágan vaxtafót í stofnlánum, en verja fé sínu þegar vaxtafóturinn er hærri. Það er gefið mál, að ef menn vilja leggja í mikið, þá vilja þeir láta sjóðinn standa vaxtalausan til að fá svo hærri vexti seinna. Ég er þeirrar skoðunar, að um þetta verði að vera ákvæði í löggjöfinni. Það er áhætta í þessum lánum og ekki ástæða fyrir ríkið að hætta fé, nema einstaklingar leggi líka á móti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, sem hæstv. fjmrh. sagði.

Þá kem ég að hæstv. forsrh., sem er nú ekki viðstaddur að venju. Hann hljóp hér um og hreytti úr sér nokkrum orðum. Ég lét falla orð á þá leið, að það væri verðbólgustefnan, sem orsakaði, að farið væri inn á þessa braut. En hæstv. forsrh. notaði tækifærið og minntist á dýrtíðina og ærðist að venju. Hann sagði, að það þýddi ekki að vera alltaf með þennan dýrtíðarsón og að það hefði verið ósvinna að standa á móti kauphækkun. Öðruvísi mér áður brá. Árið 1942 sagði þessi maður um gerðardómslögin, en þau voru sett til að stöðva kauphækkun, að þessi stöðuga kauphækkun væri þjóðarböl, og hann gekk svo langt, að líkja dýrtíðinni við þá verstu plágu, sem gengið hefur, svartadauða. Þó segir hann nú, að það hafi verið ósvinna að ætla að standa gegn dýrtíðinni. En það eru bara allir hættir að taka mark á því, sem þessi ráðh. segir, því að hann hefur svo oft lýst sig ómerkan og gerir allt til að veita sjálfum sér vegtyllur. Hann snerist gegn dýrtíðinni á meðan hann fékk að vera í ríkisstj., en nú segir hann, að það hefði verið ósvinna og fávitaháttur, ef farið hefði verið að hans eigin ráðum, bara til að hanga í ríkisstjórn. Hann sagði, að ég hefði breytt um skoðun. En ég hélt því fram á meðan á samningum stóð um stjórnarmyndun, að kauphækkunin ætti að stöðvast, nema hjá þeim, sem byggju við lægri laun en aðrir, sem ynnu samskonar störf. En hann sneri við blaðinu á einni nóttu og tók að semja við kommúnista til að hækka kaup þeirra, sem höfðu hæsta kaupið. Allar þessar vesælu tilraunir hæstv. forsrh. til að koma þessu á aðra eru sprottnar af því, að hann sjálfur hefur gert sig sekan um hringlandahátt. En enginn undrast, þótt slíkur maður segi, að aðrir séu á förum sömu leið og hann. Þetta minnir mann óneitanlega á söguna af manninum, sem sagði: Grípið þjófinn, á meðan hann var að stela.

Sannleikurinn er sá að hæstv. ráðh. er skoðanalaust rekald, en stendur í þeirri meiningu, að hann sé leiðtogi. Hann vinnur það til valdanna að eiga alltaf von á þessari hýðingu, þegar hann minnist á þessi mál.

Annar vitnisburður, sem hann hefði e. t. v. viljað hlusta á ef hann fengist til að hlusta á það, sem þm. hafa að segja, er í Morgunblaðinu 6. janúar, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „.... því að vafalaust er þessum flokkum ljóst, að samtímis, sem þessar kröfur eru gerðar, er viðhorfið þannig hjá bátaútvegi landsmanna, að vafasamt er, hvort nokkur fleyta fer á sjó á vertíð þeirri, sem nú fer í hönd. Vonandi tekst þó ríkisstjórninni að greiða þannig úr þessum málum til bráðabirgða, að eigi komi til stöðvunar. Þó er allt í óvissu um, hvort menn fáist á bátana. Og fullvíst er, að verði enn hert á kröfum landsmanna, rekur að því, að enginn maður fáist á fiskibátana.“ Og þetta er satt, þótt það standi í þessu málgagni.

Hæstv. forsrh. sveikst um framkvæmd gerðardómslaganna. Framsfl. vildi ekki taka þátt í stjórninni nema dýrtíðarmálin yrðu leyst. Síðan hæstv. ráðh. tók að sér að mæla fyrir dýrtíðinni, þá hefur hann haldið fram þeirri staðhæfingu, að verðbólgan hafi verið notuð til að dreifa stríðsgróðanum. Og hvernig hefur þetta svo tekizt? Við skulum leiða sem vitni stærsta verkalýðsfélag landsins. Trúnaðarráð Dagsbrúnar lýsir þannig ástandinu og því, hvernig dreifing stríðsgróðans hefur tekizt, sbr. rökstuðning trúnaðarráðs Dagsbrúnar fyrir uppsögn Dagsbrúnarsamninganna í ársbyrjun 1946: „Samt sem áður hefur það komið í ljós, að þrátt fyrir þessa grunnkaupshækkun veitist verkamönnum, sem eiga við lægsta grunnkaupið að búa, æ erfiðara að framfæra fjölskyldur sínar.“

Í tímariti Alþýðusambandsins 1946 segir í ávarpi forseta Alþýðusambandsins: „Fyrir vanmátt og úrræðaleysi valdhafanna hefur ósamræmið milli verðlags og kaupgjalds verið svo launþegunum í óhag vegna falskrar vísitölu og svikins verðlagseftirlits, að kauphækkanir þær, sem verkalýðurinn náði 1942 og síðar 1944, eru að engu orðnar.“ Þetta er ekki vitnisburður Framsóknar, heldur frá forseta verkalýðssamtakanna. Og hvernig lýsir svo Þjóðviljinn þessu. Hann kemst svo að orði snemma á árinu 1946: „Sannleikurinn er sá, að hlutur verkamanna er mun lakari nú en hann var fyrir nokkrum árum.“ Og enn fremur segir Þjóðviljinn, að ógerlegt sé að lifa mannsæmandi lífi af tekjum hinna lægst launuðu manna. Samband íslenzkra útvegsmanna hefur lýst yfir, að hag smáútgerðarinnar í landinu hafi sífellt farið hnignandi síðan 1942. Og hvað mundu bændur svo segja? Það er ekki haldinn svo fundur, að ekki hafi verið mótmælt þeim búsifjum, sem þeir verða fyrir.

Hverjir hafa þá grætt? Hverjir hafa fengið stríðsgróðann? Það er óuppgert, og það má ekki gera það upp. Meiri hluti Alþingis heldur verndarhendi yfir skattsvikunum og er á móti því, að ráðstafanir verði gerðar til að vita, hvað hefur orðið af stríðsgróðanum. Fyrir kosningar sagði Ólafur Thors ekki, að verðbólgan væri til að dreifa stríðsgróðanum, þá var hann ekki kominn á verðbólgufyllirí. En hvílík er þá ekki orðin saga þessara manna, ef það er rétt, sem þeir sögðu þá, en dásama nú verðbólguna. Ég skil hæstv. ráðh. vel, þegar hann ærist, er hann minnist á verðbólguna, en það er ekki hægt að komast hjá því að taka á þessum málum. Bæði hæstv. forsrh. og fjmrh. hafa sagt, að það væri ósamræmi í mínum málaflutningi, því að ef menn væru hræddir við gengishrun og vildu ekki kaupa ríkisskuldabréf, þá mundu þeir leggja í fyrirtæki. En hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að halda mönnum hræddum við hvort tveggja, bæði að kaupa skuldabréf og leggja í framleiðsluna. Verðbólgubraskararnir eru þeir einu, sem eru óhultir og óhræddir.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það væri ósamræmi í því hjá mér, að ég væri að deila á ríkisstj. fyrir útlánastarfsemi, en væri jafnframt að tæla hana til að lána út á einstök fyrirtæki. Þessi ummæli hæstv. forsrh. gefa mér tilefni til að segja nokkur orð um þetta atriði.

Stjórnarandstaðan lagði til í upphafi, að það væri ákveðið, hvaða stuðnings einstaklingar og félög mættu vænta til að afla þeirra tækja, sem þeir óskuðu að komast yfir. Það var eðlilegt, að þessi leið væri farin, fyrst ákveðið um stuðning til kaupa á tækjunum og síðan leitazt fyrir um, hvaða tæki væru fáanleg og hagkvæmust, á meðan unnt var að fá þau, en síðan mátti bjóða einstaklingum og bæjarfélögum að kaupa þessi tæki. En eins og kunnugt er, var ekkert ákveðið um, hverrar aðstoðar mætti vænta, heldur hljóp ríkisstj. í það að kaupa 30 togara og svo og svo mikið af mótorbátum, án þess að vitað væri, hvort nokkrir vildu eignast þessi skip. Og nú hefur reynslan orðið sú, að menn vilja ekki leggja fé sitt í þessi tæki. En tækin eru keypt og ríkið hlýtur að greiða þau, m. ö. o., ríkið hefur keypt þessi skip og þau verða rekin einhvers staðar á landinu. Vitanlega er hér um stórkostlega áhættu að ræða fyrir ríkið, þar sem það kemur til með að ganga í ábyrgð fyrir mestum hluta kostnaðarverðs tækjanna, þótt þau verði á annarra nöfnum. Þegar svo er komið, þá er spurningin: Hvernig á að dreifa tækjunum um landið? Eiga þau öll að fara hér til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og þar með draga allt landsfólkið hingað, eða á að dreifa þeim út um landið? Þetta er sérstakt vandamál, og ég vil eindregið svara þessu á þann hátt, að það eigi að dreifa skipunum út um landið, úr því að þau eru komin.

Ég vildi taka þetta fram út af ummælum hæstv. forsrh. Enn þá er ekkert komið í ljós um, hvaða leið verður valin í þessu efni, en ætla mætti, að hæstv. ríkisstj. hefði einhverjar till. fram að bera um það efni.