04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það hefur verið ákveðið að skera nokkuð niður umr. um þetta mál eða takmarka ræðutíma við 10 mínútur. Ég satt að segja var alveg hissa, þegar ég heyrði þessa tilkynningu. (Forseti: Ég vil taka fram nú þegar, að ég fell frá því að skera niður umr. á þann hátt, sem ég lýsti yfir í gær, en það væri mjög æskilegt, að hægt væri að ljúka umr. á þessum fundi. Hv. 6. landsk. þm. er því ekki bundinn af þessari yfirlýsingu). Mér þykir vænt um að heyra það, en ég skal taka það hins vegar fram, að það er ekki ósk mín að tefja umr. um þetta mál. Ég mun því reyna að stytta mál mitt eins og ég get, en hins vegar hafa verið gefnar allmiklar ástæður til að ræða þetta mál á mjög breiðum grundvelli. Það var hv. 2. þm. S.-M., sem leiddi þessar umr. inn á mjög almennan og breiðan grundvöll. Hann kaus sér að ræða dýrtíðar- og verðlagsmál almennt í sambandi við þetta mál. Eins og hv. þm. almennt vita, þá er það svo um þann hv. þm., og það virðist vera nokkuð svipað um flesta flokksbræður hans, að þetta er þeirra áhugamál, þeir eiga harla erfitt með að tala um önnur mál en dýrtíðarmál og sjá engan möguleika til að gera neitt vegna verðbólgunnar, sem þeir tala um sí og æ. Þegar hann gerði grein fyrir sinni sérafstöðu til þessa máls, sem sé til þessa aðalatriðis, sem felst í fyrirliggjandi frv., að sjá fyrir auknum stofnlánum með hagkvæmari vaxtakjörum en verið hefur hægt til þeirrar nýsköpunar, sem nú er fyrirhuguð, þá segir hann, að hann álíti, að sú leið, sem nýbyggingarráð hefur bent á, sé stórhættuleg leið eða, eins og hann sjálfur komst að orði, að hér væri ráðgert nýtt dýrtíðarmál, þetta væri leið til nýrrar verðbólgu, ný verðbólguuppspretta, eins og hann orðaði það.

Eftir svo að þessi þm. hafði farið mörgum fjálglegum orðum um þá feikna hættu, sem þjóðinni stafaði af verðbólgunni, þá lýsti hann yfir, að hann sé nú eigi að síður með framgangi málsins, með því, að þessi nýja verðbólguuppspretta verði sett í gang, með því, að steypt verði yfir þjóðina nýju verðbólguflóði Ég verð að segja það, að ég veit ekki á þessari afstöðu nema eina skýringu, sem ég get á henni fundið, og hún er sú, að þessi hv. þm. og hans flokkur eru í raun og sannleika á móti því máli, sem hér liggur fyrir, eru andstæðir því, að gerðar verði ráðstafanir í atvinnumálum þjóðarinnar í þá átt, sem núverandi ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún vilji nú stefna að. Það er sem sagt tvískinnungur í þessu, því að í öðru orðinu segja þeir um meginefni þessa máls, að það sé þjóðhættulegt og ný verðbólguuppspretta, en þó segja þeir í hinu orðinu eða þessi hv. þm., að hann vilji samt sem áður verða með frv. Þetta er alveg í samræmi við tal og skrif framsóknarmanna að undanförnu. Þeir hafa í öðru orðinu sagzt vera með þessu máli, en í hinu orðinu hafa þeir sagt, að það væri hreint glapræði og flónska að kaupa og láta smíða skip í stórum stíl, en síðan hafa komið yfirlýsingar í flokksblöðum þeirra, að þeir hafi svo mikinn áhuga fyrir að kaupa fiskiskip og það sé svo mikil þörf, að ríkið setji sérstakar reglur um lánveitingar í þessu efni. Einn daginn bentu þeir á, að það væri búið að festa kaup á 100 nýjum fiskibátum og það án þess, að ríkið hefði þurft að gera nokkrar ráðstafanir, allt og sumt, sem þyrfti að gera, væri að veita lítils háttar fyrirgreiðslu í 1. Þannig er sungið þvers og kruss í þessu máli, eitt í dag og annað á morgun. En ég hygg, að hv. 2. þm. S.-M. og aðrir framsóknarmenn séu ekki þau börn, að þeir búist við því, að þótt þetta frv. verði að l., sem hér liggur fyrir, um stórkostlegar fjárveitingar til sjávarútvegsins eða hagkvæmari kjör honum til handa, þá búist þeir við því, að dýrtíðin í landinu vaxi af þeim ástæðum.

Það er alveg auðskilið mál, að þegar við eigum í erlendum innistæðum nokkur hundruð milljónir króna, sem þar liggja að langmestu leyti vaxtalausar, þá þýðir sú ráðstöfun að breyta þeim að nokkru leyti í framleiðslutæki, kaupa ný fiskiskip fyrir 100 millj. króna, þá þýðir sú ráðstöfun ekki það, að verðbólgan þurfi að vaxa. Ég vil leiða sérstaka athygli að því, að eftir kenningum þessa þm. mundu þessar aðgerðir þýða vaxandi verðbólgu. Ef seðlabankinn ætti með þessum ráðstöfunum að orsaka verðbólgu, mundi hún einnig vaxa af öðrum útlánum bankans. En málið liggur ekki þannig fyrir, það er um allt annað að ræða. Þjóðbankinn fær litla eða enga vexti af erlendum innistæðum, þess vegna verður bankinn ekki fyrir neinu vaxtatapi, þó að þetta fé sé lánað hér út fyrir 1½% eins og gert er ráð fyrir. Hitt er rétt, að bankinn gæti orðið fyrir einhverju vaxtatapi, ef hann hefði það markmið að lána erlendum aðilum féð fyrir eitthvað hærri vexti. En er það stefna þjóðbankans að lána frekar féð út erlendum aðilum fyrir 2½%–3% en að verja því i framkvæmdir innanlands, þó að ekki sé um að ræða nema 1½% vexti?

Hv. 2. þm. S.-M. segir: Við viljum byggja upp atvinnuvegina, en það má ekki skylda þjóðbankann til að lána fé til framkvæmdanna. Það á bara að bjóða út verðbréf, og ef féð fæst ekki á þann hátt, þá á bara þessi pappírssamþ. að duga. Þannig er lausn hv. þm. á þessu máli.

Þá kom þm. að því, að það væri sökum hinnar glæfralegu fjármálastefnu ríkisstj., að grípa ætti til þessara ráðstafana að skylda bankann til að láta féð af hendi. Nú veit hv. þm. það, að það hefur ekki verið rekin hér önnur fjármálastefna en tíðkaðist í hans ráðherratíð, og sömuleiðis veit hann, að dýrtíðin hefur lítið vaxið síðan hann og hans flokkur lét af stjórnartaumunum. Og 2. þm. S.-M. veit líka, hvað mest veldur dýrtíðarflóðinu. Annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, atvinnuvegur, sem flokkur þessa hv. þm. hefur veitt forustu og ber ábyrgð á, getur ekki framleitt aðalneyzluvörur landsmanna með hóflegu verði. Þetta er langveigamesti þáttur verðbólgunnar. Það þýðir því ekkert fyrir þennan hv. þm. að reyna að sannfæra aðra um það, að hann og hans flokkur eigi enga sök á dýrtíðinni.

Og svo um leið og þessi þm. notar þetta mál til að vefja því inn í dýrtíðarmálin, þá ber hann það á ríkisstj., að hún beinlínis verndi skattsvik og hún hafi beinlínis valdið því, að stríðsgróðinn safnaðist á fáar hendur. En hann athugar það ekki, að hann er einmitt höfundur að þessum skattalögum, sem hann nú deilir á, en hefur oft stært sig af.

Það er ekki hægt að dreifa þessu máli með því að tala um skattsvik, stríðsgróða og dýrtíð. Það er augljóst, að þjóðin hefur fulla getu til að ráðstafa 100 millj. kr. til eflingar sjávarútveginum þrátt fyrir verðbólgu og skattsvik, sem vissulega er nauðsynlegt að koma í veg fyrir.

Það er vissulega öfugmæli, að hér sé um að ræða að grípa til einhvers óyndisúrræðis, vegna þess að einkaframtakið vilji ekki láta fé til sjávarútvegsins. Allir vita, að bæði bæjarfélög og einstaklingar eru með miklar framkvæmdir í hyggju og hafa safnað og lagt fram mikið fé í því skyni, en átakið, sem hér er fyrir dyrum, krefst mikils fjármagns, en hins vegar eru takmörk fyrir því, hvað mikið fé er hægt að fá í gegnum verðbréfamarkaðinn. Það mun varla vera nokkurt bæjar- eða sýslufélag, sem ekki óskar eftir stórum lánum til rafveitna, hafnarmannvirkja og ótal fleiri framkvæmda. Mikið af þessum lánum er fengið með verðbréfum. Ef sjávarútvegurinn ætti líka að keppa á sama markaði, yrði það óhjákvæmilega til hindrunar þeirri þróun, sem ákveðin er á næstu árum.

Þegar 2. þm. S.-M. vill láta fara óvissu leiðina í þessu máli, getur það ekki stafað af öðru en að hann sé andvígur því, að þetta sé gert. Hann virðist vera sammála flokksbróður sínum í bankastjórn, að lána heldur erlendum aðilum innistæður þjóðarinnar en að leggja þær í atvinnutæki og atvinnurekstur innanlands. Ég vil spyrja hv. þm., hvernig það megi vera, að hann sé hlynntur þessu máli, ef hann telur þessar till. meiri hl. sjútvn. þjóðhættulegar og uppsprettu fyrir vaxandi dýrtíð. Mér fyndist full ástæða til, að þm. með slíkar skoðanir og sinn stöðuga dýrtíðarsón væri í hreinni andstöðu við frv.

Mig og hv. meiri hl. greinir ekki á um aðalatriði frv., það að tryggja útgerðinni fé með lágum vöxtum. En mig greinir á við meiri hl., hvernig haga beri framkvæmdum. Ég get ekki fallizt á, að fullt öryggi náist um framkvæmd þessa máls með till. meiri hl. Ég tortryggi það að fela þeim aðilum framkvæmd í þessum lánveitingum, sem hafa sýnt sig andvíga nýsköpunarstefnu stjórnarinnar, sem frv. byggist á.

Það er ekki rétt hjá fjmrh., að stjórn Landsbankans hafi aðeins gert aths. við einstök atriði frv. Það sanna er, að stjórn Landsbankans hefur lýst sig andvíga meginatriði málsins, þ. e. að frv. feli í sér þjóðhættulega stefnu og vaxtafóturinn sé allt of lágt áætlaður.

Eins og ég sagði í upphafi, hafa menn rætt þetta frv. meira almennt, en hins vegar sneitt hjá einstökum atriðum. Það hefur bil dæmis enginn minnzt á það atriði, sem ég benti á, að það væri mjög óheppilegt að stofna sérstaka lánadeild við hliðina á fiskveiðasjóði. Fiskveiðasjóður hefur mikið fé til umráða, tekjur hans munu vera um 3 millj. árlega. Hann lánar út gegn 1. veðrétti, en það er líka gert ráð fyrir, að stofnlánadeildin láni gegn 1. veðrétti, en gegn lægri vöxtum. Nú á fiskveiðasjóður mikið fé útistandandi gegn 1. veðrétti, bæði í skipum og öðrum eignum. Þegar þeir, sem áður hafa fengið lán hjá fiskveiðasjóði, koma til stofnlánadeildarinnar til þess að fá hagkvæmust lán, t. d. til að setja nýja vél í bát eða slíkt, þá verður stofnlánadeildin að leggja út fyrir því veði, sem hvíldi á bátnum hjá fiskveiðasjóði, til að fá eðlilegt veð. Útkoman yrði að líkum sú, að tekjur söfnuðust hjá fiskveiðasjóði og hann sæti með fé sitt ónotað, en stofnlánadeildin gæti ekki fullnægt eftirspurn. Virðist því í alla staði eðlilegra, að lánveitingar þessar væru hjá einum aðila en ekki slitið þannig í sundur. Einstakir þm, telja eðlilegt að fela fiskveiðasjóði þessa framkvæmd alla, en svo er það bara stjórn Landsbankans, sem heimtar að fá að ráða í þessu efni. Mér virðist full ástæða til að segja þessum stjórnarmeðlimum, að það sé Alþingi, sem ræður og skipar þessum málum eins og það álítur hagkvæmast fyrir þjóðina.

Þá vil ég minnast á eitt atriði, sem mér finnst vanta í frv., en það er ákvörðun á því, hvaða vexti stofnlánadeildin skuli greiða seðlabankanum. Það er ákveðið, að útlánsvextir stofnlánadeildarinnar skuli vera l½% og alls ekki hærri en 2½%, en hins vegar ekkert ákveðið, hvaða vexti deildin þurfi að greiða seðlabankanum, þó að ríkið beri fulla ábyrgð á stofnlánadeildinni. Mér finnst augljóst, að nauðsyn sé að setja skýr ákvæði um þetta atriði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð lengri að sinni, en ég vil undirstrika það, að ég trúi ei, að alþm. láti umræður um dýrtíð og verðbólgu villa sér sýn um aðalatriði þessa máls, heldur tryggi sjávarútveginum þau lán, sem nýbyggingarráð hafði gert ráð fyrir.