07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

16. mál, fjárlög 1946

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við 22. gr. fjárl., sem að vísu hafa ekki fengizt afbrigði fyrir enn þá, vegna þess að hún er í prentun. En með leyfi hæstv. forseta vænti ég, að ég megi tala fyrir henni nú. Þessi brtt. er um það, að í 22. gr. komi nýr liður svo hljóðandi, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 1100 þús. kr. til jarðborana samkv. l. nr. 114 1943 og jarðhitarannsókna.

Ég varð satt að segja hissa á því, þegar ég varð þess var við yfirlestur bæði brtt. frá fjvn. og eins fjárlagafrv. sjálfs, að það hefði láðst að gera ráðstafanir til þess, að fé væri veitt til jarðborana og jarðhitarannsókna. Samkv. l. frá 1943, sem ég gat um áðan, er ákveðið, að kostnaður við jarðboranir bæjar- eða sveitarfélaga eða boranir, sem framkvæmdar væru eftir till. frá þeim, eigi að greiðast að hálfu af sveitarsjóðum en að hálfu úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þeirra í fjárl. Nú er það kunnugt, að þessar rannsóknir og boranir eru þegar hafnar og umsóknir um slíkar framkvæmdir berast nú óðum að frá ýmsum stöðum. Og þá er leitt, þegar þessa er gætt, hve mikið þjóðarhagsmunamál er hér á ferð, ef ríkið getur ekki staðið við skuldbindingar, sem því raunverulega samkv. l. ber að uppfylla. Það hefur t. d. verið borað á ýmsum stöðum bæði eftir heitu og köldu vatni. T. d. á Reykjanesskaga hefur verið borað eftir köldu vatni með ágætum árangri fyrir þorp, sem áður voru þar vatnslaus. Og um boranir í næstu framtíð hafa komið fram umsóknir frá Akureyri, Ísafirði, Húsavík, Selfossi og víðar að. Og þá væri mjög leitt, ef ríkið stæði ekki við sínar skuldbindingar og ekkert yrði úr þessum framkvæmdum þess vegna. Við þær boranir, sem ég nefndi, að framkvæmdar hefðu verið, hafa verið notaðir svonefndir höggborar, sem keyptir hafa verið af setuliðinu. En þeir eru báðir gamlir og slitnir og talið, að þeir endist ekki nema í hæsta lagi eitt til þrjú ár enn. Það er því nauðsynlegt, að hægt verði að kaupa fleiri slíka bora.

Samkv. þál., sem samþ. var 1944, var ríkinu heimilað að leggja fram fé til rannsókna á gufuborunum bæði í Henglinum og í Hveragerði í samvinnu við Reykjavíkurbæ og í Krýsuvík í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Og til þess að framkvæma þær boranir, þar sem aðallega yrði borað fyrir gufu, þá eru þessir höggborar, sem nú eru til hér, og jafnvel þeir, sem keyptir yrðu, of grannir. Til þess að bora eftir gufu þarf gildari bora, og þá er talið heppilegt að nota bora, sem snúast í hring, en eru ekki höggborar. Þessir borar eru miklu dýrari og geta kostað um eða yfir eina millj. kr. En ef í það væri ráðizt að kaupa þessa dýrari bora, er gert ráð fyrir, að það verði gert í samvinnu við þá bæi, sem þá þyrftu að nota, og frá þeim kæmi helmings tillag á móti framlagi ríkissjóðs til þessara kaupa. Með þessari þál. var að vísu veitt heimild til þessa, þegar hún var samþ. 1944. En það er heldur ekkert ákveðið í fjárl. að leggja fram til þess að mæta kostnaði, sem leiða mundi af framkvæmd l. frá 1943, sem ég nefndi viðkomandi jarðborunum. Upphæð brtt., sem ég flyt og ég gat um, hef ég miðað við, að keyptir verði einn til þrír höggborar, til þess að haldið yrði áfram þeim rannsóknum, sem þegar eru hafnar, og til þess að leggja til helming á móti framlagi annars staðar að til þess að kaupa gufubor. Það má um það deila, hvort á næsta ári ætti að ráðast í að kaupa þennan stóra bor. En það er fásinna að ætla ekkert fé í þessar rannsóknir og boranir, því að það er vitað, að þær verða framkvæmdar. Það er heilmargt starfslið, sem vinnur að þessu nú. Og kröfur eru komnar það víða að um framkvæmd þessara borana, að þetta verður ekki stöðvað, enda er þetta þjóðnytjamál. — Ég hef flutt um þetta brtt. við 22. gr., þó að hún ætti miklu frekar heima við 15. gr.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Skal ég þó að lokum taka það fram, að ég er reiðubúinn til þess að taka þessa brtt. aftur til 3. umr., ef hv. fjvn. fengist til að athuga þetta mál á milli umr.