22.11.1945
Neðri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

104. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Vestm. höfum leyft okkur að bera fram frv. þetta. Vélstjórafélögin á Akranesi og í Vestmannaeyjum hafa farið þess á leit við okkur, að við flyttum þær breyt. á viðkomandi lögum, sem felast í frv. þessu, en þær snerta einungis 5. kafla laganna, er fjallar um réttindi vélstjóra á mótorskipum. Frv. þetta fer fram á, að þeir, sem nú hafa rétt til að stjórna 150 hestafla mótorvél, fái réttindi til að stjórna 250 hestafla mótorvél, af hvaða gerð sem hún er. Reynslan hefur sýnt á undanförnum árum, og svo mun verða að þeim aðstæðum óbreyttum, að allmjög hefur skort á, að nógu margir menn væru til með þessi réttindi, að fara með vélar í fiskiskipaflotanum. Því hefur orðið að fara inn á þá braut að veita mönnum undanþágur til að fara með stærri vélar en lögin ákveða, því að annars hefði mikill hluti fiskiflotans stöðvazt. En auðskilið er, að allmiklir erfiðleikar eru á að afla þessara undanþága, þar sem sækja þarf um sérstaklega fyrir hvern einstakling. Nú þegar eru þær breyt. að komast í framkvæmd, er stuðla að aukningu skipaflotans, og stærð þessara báta, sem bætast við, er þann veg, að meginhlutinn af vélunum í þessum bátum er stærri en 150 hestöfl. Af þessu leiðir það, að nú þarf vélstjóra á nýju skipin, auk þess að gamla flotanum verður haldið úti sem áður, og þrátt fyrir það, að nokkrir menn brautskráist nú árlega, sem hafa þau réttindi, er nægja til að fara með vélar allt að 250 hestafla, hrekkur það engan veginn til að bæta úr vandkvæðum þessum. Ekki verður, svo fljótt sem nauðsyn krefur, bætt úr þeim nema veittar séu undanþágur frá lögunum eða að í framkvæmd komist þær breyt., sem frv. þetta fer fram á, og er það flutt samkv. óskum vélstjóra í fyrrgreindum vélstjórafélögum, og telja þeir þetta miklu hagkvæmara. Mér er kunnugt, að Alþ. muni berast sams konar óskir frá fleiri vélstjórafélögum, og munu þær þá verða sendar til þeirrar nefndar, sem frv. þetta fær til athugunar.

Í greinargerð vélstjóranna, sem að álitinu standa, telja þeir, að það öryggi, sem felst í ákvæðum laganna, sé engan veginn skert með frv. þessu. Er það vegna þess, að munurinn á að fara með 150 eða 250 hestafla vél er tiltölulega lítill, þegar í hlut eiga æfðir vélstjórar.

Ég vil bæta því við, að sú réttindaaukning, sem frv. þetta felur í sér, tekur einnig til þeirra, sem öðlazt hafa vélstjóraréttindi, eins og þeirra, er fá réttindi eftir samþykkt frv. Sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar að svo stöddu.

Legg ég til, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.