08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Aðeins örfáar aths. vegna ummæla 6. landsk. Ég veit ekki til, að það hafi verið tekin nein afstaða í sjútvn. um stjórn þessarar fyrirhuguðu niðursuðuverksmiðju, og álít því, að nm. hafi algerlega óbundnar hendur. Hv. 6. landsk. færði það fram sem rök fyrir sínu máli, að stjórn S.R. hafi svo mikið á sinni könnu, að ekki sé rétt að bæta þar við. Um þetta vil ég segja það, að stjórn S.R. mundi ráða til sín framkvæmdastjóra, en hefði aðeins yfirstjórn rekstrarins, og álít ég það heppilegra en að hafa þetta sjálfstæða stofnun.

Þá sagði hv. þm., að nú þegar væri öðrum aðilum en stjórn S.R. falið að sjá um nýbyggingar. Sé þetta rétt, þá hefur verið farið inn á aðrar brautir en venja var, og tel ég það ekki til bóta.

Hv. þm. taldi, að stjórn S.R. hefði sýnt tregðu í þessu máli, en eftir því sem ég bezt veit, hefur hún þó verið aðaldriffjöðrin og fengið aðstoð sérfræðings. Auk þess tel ég ástæðulaust að tala þannig, því að auðvitað segir ríkisstj. til um, hvenær hefja skal framkvæmdir, og hefur óskorað vald um allar aðgerðir í málinu, þegar heimildin er veitt af Alþ.