26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég held, að skilningur okkar hv. þm. Borgf. og sjútvn. falli alveg saman. Viðauka við námið, sem um er að ræða í 8. brtt. n. undir staflið a, ber að skilja sem almenna till. frá sjútvn., sem varðar framtíðarnám hjá þeim vélstjórum, sem tilheyra þeim 3 flokkum, sem þar um ræðir. Hins vegar er till. undir staflið b, eins og ég sagði áðan, gerð til þess að létta undir framkvæmdir þessa máls varðandi hina sömu þrjá flokka vélstjóra, sem n. áleit, að þyrftu að hafa fljótlegri aðgang að því að afla sér sinna auknu réttinda, og er þá gengið út frá því, að þeir hafi áður lokið sínum réttmætu prófum. En fordæmið fyrir þessu er að finna í bráðabirgðaákvæði l. nr. 68 frá 12/4 1945, þar er svo ákvæði um smáskipavélstjóra, að þeim er gefinn kostur á að fara á sérstakt námskeið til þess að öðlast aukin réttindi. Og þau l. eru nú komin til framkvæmda. Og nú fyrir nokkrum vikum var lokið einmitt prófi hjá skipstjórum, og voru þeir margir vinnandi smáskipaskipstjórar utan af landi og stóðust allflestir eða allir þetta próf og öðluðust svo sín réttindi þannig, að þeir mega vera jafnvel með togara, ef svo ber undir. N. hafði þetta bráðabirgðaákvæði 1. fyrir augum, þegar hún lagði til, að svipað yrði gert gagnvart þeim 3 flokkum vélstjóra, sem nauðsynlegt er, að geti öðlazt réttindi, en til þess þarf aukið nám, eins og tekið hefur verið fram.

Hins vegar er, eins og hv. þm. Borgf. lagði réttan skilning í, gerð undantekning um einn flokk þessara vélstjóra, Þ. e. a. s. þennan flokk, sem hefur lokið hinu minna mótorvélstjóraprófi Fiskifélags Íslands og hafa siglt sem vélstjórar í samtals 4 ár frá þeim tíma, er þeir öðluðust réttindi til vélstjórnar, og til þess tíma, er l. þessi ganga í gildi, þeir fái réttindi til þess að fara með vél, sem er 250 ha. Þetta er skilningur minn og sjútvn. á málinu, og ég vona, að þetta falli alveg saman við skilning þann, sem hv. þm. Borgf. vildi leggja í það. Þeir fá þessi réttindi án þess að bæta við sig námi eða ganga undir nokkurt aukapróf, en aðeins gildir þetta fyrir þennan flokk vélstjóra, sem staðizt hafa hið minna mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands og siglt 4 ár samfleytt frá þeim tíma, er þeir öðluðust réttindi til vélstjórnar, og til þess tíma, er l. þessi ganga í gildi.