08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Frsm. (Lúðvík Jósefsson) :

Það er út af því, sem hæstv. ráðh. sagði. Mér skildist á honum, að hann væri hlynntur því að fela stjórn Síldarverksmiðja ríkisins stjórn niðursuðuverksmiðjunnar, þar sem hún hefði haft forgöngu í málinu og væri vel þess fær að sjá um það: Það er að vísu satt, að stjórn síldarverksmiðjanna fékk dr. Jakob Sigurðsson til að kynna sér síldarniðursuðu sérstaklega, en það var gert vegna þess, að hann var eini Íslendingurinn, sem lagði sérstaka stund á skyld fög. Dr. Jakob gaf skýrslu um niðursuðuverksmiðjuna, og hafði hann mikið álit á, að möguleikar væru á, að hún nyti sín. En svo þegar þessi sérfræðingur mælist til þess, að tryggt verði með lagasetningu, er hann hefur gefið sitt álit, að hafizt verði handa um framkvæmdir, þá er það, sem stjórn S.R. kippir að sér hendinni. Mér skilst á þessu, að stjórn S.R. vilji ekki lengur fara eftir því, sem sérfræðingurinn leggur til. Það eru að vísu uppi raddir um það og misjafnar skoðanir, hvort tímabært sé að ráðast í byggingu verksmiðjunnar nú, heldur bíða og rannsaka málið í eitt ár enn, og er þá rétt að samþykkja þetta? Nei, allar þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið og liggja fyrir, benda allar í eina átt. Allt hefur gengið að óskum. Um er bara að ræða, hvort við eigum að tapa einu ári enn og bíða með framkvæmdir. Það virðist vera tilgangurinn með því að fela stjórn S.R. stjórn þessarar verksmiðju, að lagt sé til, að öllu sé slegið á frest.

Viðvíkjandi því, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh. (FJ), vil ég taka fram, að upplýsingar þær, sem hann hafði eftir form. S.R., um að sú síld, sem soðin hafi verið niður, hafi í fyrstu verið góð, en versnað svo, er frá leið, svo að hún er óhæf útflutningsvara — ég hef athugað þetta og veit ekki, hvaðan slíkar staðhæfingar eru komnar, og þær eru ekki á rökum reistar. Ég hef sjálfur borðað þessa síld, og hef ég ekki orðið var við annað en hún væri mjög góð. Enn eru til prufur af þessari síld, og geta menn gengið úr skugga um, að þetta er þvættingur.

Hér er svo blandað inn í öðru atriði óviðkomandi, það er byggingu nýju síldarverksmiðjanna. Ég hafði álitið, að stjórn S.R. hefði nóg verkefni á sinni könnu, þátt ekki væri bætt á hana stjórn þessarar nýju verksmiðju. Ég get upplýst, að dr. Jakob Sigurðsson óskar eftir, að skipuð verði sérstök byggingarnefnd og valdir verði í hana menn, sem hafa sérþekkingu, en stjórn S.R. verði ekki falin yfirstjórnin, því að þeir menn, sem þar sitja, hafa enga sérstaka þekkingu á þessum málum. Ég hygg líka, að stjórn S.R. hafi verið gefinn kostur á að hafa á hendi yfirstjórn þessarar verksmiðju, en hún ekki viljað það, fyrr en nú fyrir skömmu. Mín skoðun er sú, að um tvennt sé að ræða: Á að fresta þessu máli um eitt ár, eða á að leggja þegar út í framkvæmdir með þær rannsóknir, sem liggja fyrir?