08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki lengja mjög umræður um þetta mál. Hv. 6. landsk. þm. sagði hér áðan, að till. mín fjallaði um það, hvort fresta ætti framkvæmd þessa máls eða ekki. Þetta eru furðuleg ummæli, þegar þess er gætt, að það er algerlega á valdi ríkisstj., hvenær framkvæmdir hefjast.

Hæstv. atvmrh. sagði, að sérfræðingar í niðursuðu ættu ekki sæti í stjórn síldarverksmiðjanna. Það er að vísu rétt, en svo mundi ekki heldur verða í hinni nýju stjórn. Það er fyrst og fremst hin almenna stjórn verksmiðjanna, sem þessi stjórn hefur með höndum og velur siðan menn til einstakra starfa. Þetta eru því engin rök hjá hæstv. ráðh. — Ég tel það illa farið, að farið sé inn á þá braut að fela nýjum aðilum stjórn á viðbótarbyggingum við síldarverksmiðjurnar. Sú stjórn, sem nú situr, átti að hafa þetta með höndum og kveðja sér síðan menn til aðstoðar eftir því, sem þörf krefur. Þannig var tryggð samvinna kunnáttumanna og þeirra, sem reynsluna hafa.

Ég vildi líka geta þess í sambandi við ummæli hv. 6. landsk. þm. um dr. Jakob Sigurðsson, að ég dreg ekki í efa þekkingu hans, en ég tel ekki víst, að hann sé neitt sérstaklega vel fallinn til að stjórna slíkri verksmiðju, og ég vil ekki fallast á, að hann sé nokkur hæstiréttur, sem Alþ. beri að hlýða.