08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég þarf litlu við það að bæta, sem ég sagði áðan. Margt af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, er ég honum alveg sammála um. Við þurfum að leggja áherzlu á það að búa, til mat úr síldinni okkar með niðursuðu og niðurlagningu, og ég tel, að þessu beri að hraða sem mest. Í samræmi við það lýsi ég fylgi mínu við frv. með þeim breyt., sem hv. 2. þm. S.-M. hefur lagt fram. Sú breyt. er, að ég hygg, til þess að flýta því, að framkvæmdir verði hafnar í þessu máli á þeim grundvelli, sem heppilegast er. Ég fæ ekki betur séð en stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hafi haft með höndum allan undirbúning þessa máls, sem enn hefur verið gerður. Og þótt stjórnin telji, að halda beri áfram tilraunum með niðursuðu á síld á þessu sumri, þá þarf það ekki að verða ,til þess að fresta málinu. Það er mjög fjarri því, að till. verði til þess að fresta málinu. Ég er hæstv. atvmrh. alveg sammála um, að það hefði verið mjög nauðsynlegt fyrir löngu að fá vélaverkfræðing til síldarverksmiðja ríkisins, og fyrir 3–4 árum fékk ég till. samþ. um það í stjórn verksmiðjanna, en þá var enginn verkfræðingur fáanlegur til þess starfs. Þeir voru annaðhvort fastir við önnur störf eða við nám utanlands. Ég hygg, að forstjóri verksmiðjanna hafi ráðið fyrsta verkfræðing, sem völ var á til starfsins.

Viðvíkjandi undirbúningi að núverandi byggingum, þá er mér kunnugt um, að það hefði verið hafið að byggja þessar verksmiðjur fyrir tveimur árum síðan, ef ekki hefði verið neitað um afhendingu á vélum frá Ameríku. Og annað var ekki hægt að leita meðan stríðið stóð. Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur heyrt um þetta. Þetta er ástæðan fyrir því, að ekki var byrjað á þessum verksmiðjum fyrr. Viðvíkjandi teikningum þeim, sem boðnar voru út, þá veit ég ekki betur en sérfræðingar hafi dæmt um það mál, en ekki verksmiðjustjórnin. Ég skal ekki segja um, hver á till. um að reisa hina svo kölluðu aflstöð fyrir allar síldarverksmiðjurnar á Siglufirði. En ef ég man rétt, þá eru 3 ár eða lengra síðan þáv. framkvæmdastjóri verksmiðjanna hreyfði þessu í verksmiðjustjórninni á fundi. Hæstv. atvmrh. sagði, að þrýstiketillinn gerði ónauðsynlega 7 aðra katla og sparaði mikinn mannafla og eldivið. Ég veit ekki betur en fyrrv. framkvæmdastjóri hafi verið búinn að undirbúa þetta mál. Og einmitt það, að nú er verið að setja þennan ketil niður, mun að mínu viti sanna, að hann var keyptur af fyrrv. framkvæmdastjóra verksmiðjanna í Ameríku. Það hefur ekki þurft að fá nýjan mann í verksmiðjuna til að gera tilraunir um þetta, því að þær lágu fyrir, hvaðan sem hugmyndin er, en það en mér ókunnugt um.