08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Það er rétt, að verksmiðjustjórnin fékk ekki útflutning á vélum frá Ameríku. En ég vil minna á það, að á sama tíma sem stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sat auðum höndum, þá byggði Siglufjarðarkaupstaður sína verksmiðju og lét smíða í Héðni í Reykjavík vélarnar. Þetta er óverjandi mál, að stjórnin skyldi sitja auðum höndum, þegar hún fékk ekki smíðaðar vélarnar í Ameríku. En Siglufjörður, sem hefur yfir að ráða miklu minna fé, lætur vélsmiðjuna Héðin smíða miklu betri vélar en Síldarverksmiðjur ríkisins vildu kaupa í Ameríku. Ástæðan fyrir þessu var sú, að verksmiðjurnar vantaði næga þekkingu á því, að hægt væri að smíða þessar vélar á Íslandi. Þær höfðu ekki nógu góða fagmenn. En Rauðka hafði það góðan fagmann, að hann sá, að þetta var hægt. Út af ummælum, sem féllu hér áðan, vil ég taka það fram einu sinni enn, að Þórður Runólfsson kom fyrstur með hugmyndina um þessa aflstöð og það liggja fyrir í síldarverksmiðjunum skjöl, sem sýna það. Hæstv. dómsmrh. er fylgjandi þessari till., en sá maður, sem hann tók sæti fyrir í n., er andvígur þessari till. Þannig er það kynlegt að taka sæti í n., þegar búið er að afgreiða mál, og gera það ómerkt, er sá maður gerði, er hann tók sæti fyrir. Hæstv. ráðh. fylgir till., segir hann, til þess að hraða málinu. Þetta eru heldur einkennileg rök, þar sem ég álít, að byggja eigi verksmiðjuna strax, en meiri hl. verksmiðjustj. vili ekki gera það fyrr en eftir næsta sumar, vill aðeins framkvæma tilraunir í sumar. En þetta þýðir árs mismun, eins og síldarútvegi okkar er háttað. Og með því að taka málið úr mínum höndum og fela síldarverksmiðjustjórninni það, þá er verið að hraða því. Ég fæ ekki skilið svona röksemdafærslu. Nei, það er verið að tefja málið í eitt ár eða meira. Og þeir sérfræðingar, sem með þessi mál hafa að gera, t. d. dr. Jakob Sigurðsson, segja, að ljóst sé, að meiri hl. verksmiðjustj. hafi ekki áhuga fyrir málinu. Þótt við rekum tilraunir í 10 ár, verðum við að byrja verksmiðjureksturinn með einhverri áhættu. Samkv. tilraunum í niðurlagningu síldar eru full rök fyrir því að leggja út í þennan rekstur strax. Það eru ekki til nokkur rök fyrir þessari till. önnur en þau, að þingið vilji ekki láta hraða þessum framkvæmdum, heldur láta fresta þeim.