08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Ég vil aðeins undirstrika, að það er útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh. að segja, að þessi till. fjalli nokkuð um það, hvað hraða afgreiðslu málið fær. Ef ráðh. hefur áhuga fyrir að byggja, getur hann lagt svo fyrir, að byggingin verði reist með fullum hraða. Það er því alveg út í hött að tala um, að það geti ekki farið saman að gera frekari tilraunir á þessu sviði og hraða byggingu verksmiðjunnar. Það er þá einhver einkennilegur stirðleiki í þessu máli. En mér skildist á hæstv. ráðh., að þetta væri ekki hægt. Auðvitað er skynsamlegast að láta tilraunirnar halda áfram og láta verksmiðjuna vera tilbúna fyrir næsta sumar. Ég vil benda hv. þm. á, að það kemur ekki til greina að láta ráðh. ákveða stjórn verksmiðjunnar. Ef það yrði ofan á í málinu, þá er það einsdæmi, að þingið ákveði ekkert um, hver eigi að stjórna svo stóru fyrirtæki. Ég get skilið, að hæstv. ráðh. vilji hafa sem frjálsastar hendur um þetta, en það er ekki meira fyrir hann en alla fyrirrennara hans að þola þá skipan, sem þingið telur heppilegasta. Ég legg fram þessa till., þar sem ég tel þetta fyrirkomulag skynsamlegast.