23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eftir að þetta mál var afgr. í sjútvn., hafa nefndinni borizt brtt. frá hv. Nd., sem komu ekki inn, er málið var afgr. í n., og koma því að sjálfsögðu til atkv. við 3. umr. Ég vil benda á, að ein brtt. skilst mér komi frá ríkisstjórninni, og er hún við 55. gr., að hún orðist svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumálaráðherra er heimilt, þegar skortur er á vélstjórum, að veita æfðum kyndurum leyfi til þess að gegna undirvélstjórastarfi við eimvél í skipum allt að 300 hestafla og við eimvél í fiskiskipum allt að 1200 hestafla og aðstoðarmannsstarfi á eimskipum með vél allt að 800 hestafla og við eimvél í fiskiskipum allt að 1200 hestafla. Atvinnumálaráðherra er einnig heimilt, þegar skortur er á vélstjórum, að veita fiskiskipum með 800–1200 hestafla vél undanþágu frá því að hafa aðstoðarvélstjóra. — Áður en undanþága er veitt, skal leita umsagnar skipaskoðunarstjóra og Vélstjórafélags Íslands.“

Þótt þetta frv. eins og það er nú verði samþ. eins og meiri hl. sjútvn. leggur til, er útilokað, að það geti leyst það, sem það átti að gera. Sífelldar beiðnir um undanþágur streyma inn, og þær munu ekki hætta, þótt þetta frv. verði samþ. Svo eru aðrar brtt. frá Nd. til leiðréttingar á frv. Læt ég nefndinni þær eftir.

Ég vil óska eftir svari frá hæstv. ráðherra, hvort ekki mundi vera heppilegasta leiðin, sem ég hef lagt til í nál. mínu, að 1. gr. frv. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Aftan við ákvæði til bráðabirgða bætist:

a. Ráðherra er heimilt, þegar skortur er á vélstjórum, að veita þeim mönnum, er skipaskoðun ríkisins mælir með, leyfi til þess að gegna vélgæzlu og vélstjórastarfi, enda liggi fyrir umsögn viðkomandi stéttarfélaga um það, að réttindamaður sé ekki fáanlegur, og vottorð tæknifræðilegra manna um hæfni umsækjanda til starfsins. Jafnframt er ráðherra heimilt að veita undanþágu frá því að hafa aðstoðarvélstjóra á fiskiskipum með 800–1200 hestafla vél.

b. Ráðherra skipar nú þegar 3 manna milliþinganefnd til þess að endurskoða þá kafla þessara laga, sem snerta vélgæzlu, og gera tillögur um breytingar á þeim til samræmingar við þróun flotans í landinu, svo snemma, að hægt verði að leggja þær breytingar fyrir næsta reglulegt Alþingi.

c. Ráðherra lætur nú þegar undirbúa möguleika til frekara náms í verklegri og bóklegri vélfræði við stofnanir þær, sem nú kenna þessar greinir, og breytir reglugerðum þeirra í samræmi við það.“

Einnig hef ég lagt til, að samþ. verði brtt. um, að 2.–28. gr. falli niður. Á þennan hátt álít ég, að fljótlegast sé hægt að bæta úr.

Ég vil svo heyra álit ráðh. um það, hvort mínar till. séu ekki bezta lausnin á málinu. Ég skal svo ekki halda uppi meira málþófi.