08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

16. mál, fjárlög 1946

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð, sem ég þarf að segja, út af þeim brtt., sem ég á á þskj. 322. Fyrst eru tvær brtt. um fjárveitingar til nýrra akvega. Eins og hv. form. fjvn. mun hafa skýrt frá, hefur verið höfð sú aðferð — að því er snertir sýslu þá, sem ég er hér fulltrúi fyrir, og nokkrar aðrar — að taka sérstaklega upp fjárveitingar til endurgreiðslna á framlagi 1945, það sem unnið hefur verið umfram áætlun. Hér er um að ræða brtt. hv. fjvn. varðandi Stykkishólm og Ólafsvík, og hefur sú aðferð verið viðhöfð, að fjárveitingar í þessu skyni verða að miklu leyti dregnar frá sýslunni. Afleiðingin verður sú, að vegaframkvæmdir í sýslunni verða á næsta ári sáralitlar á móts við undanfarin ár, ef till. n. verða samþ. óbreyttar. Ég verð að taka það fram, að hér stendur nokkuð sérstaklega á, þar sem ekki er um að ræða venjulegar umframgreiðslur, heldur einungis um verkhyggnisástæður, sérstaklega hvað snertir Stykkishólmsveginn, en endurgreiðsla vegna hans á að nema 120 þús. kr. Þessi vegalagning milli Borgarness og Stykkis. hólms var mjög langt komin í heild, og tókst að fá þangað jarðýtu á síðastliðnu sumri. Þess vegna hefði það verið lítil verkhyggni að flytja jarðýtuna á burtu og flytja hana svo þangað aftur næsta sumar, og yrði heildarkostnaðurinn miklu meiri. Ég vildi taka þetta fram til skýringar þeim till., sem ég flyt á þskj. 322. Sú fyrsta er um 20 þús. kr. fjárveitingu til Hnappadalsvegar. Hann hefur verið tekinn í þjóðvegatölu og hefur 2 undanfarin ár haft 15 þús. kr. styrk í fjárl., sé ég ekki ástæðu til að fella þann veg alveg niður, eins og hér er gert. Þá ber ég fram till. um styrk til Hellissandsvegar, en hann hefur orðið fyrir barðinu á hv. fjvn. undanfarin 3 ár, og er þar þó um mikla þörf að ræða. Hellissandur er stórt kauptún, sem hefur ekki verið í bílasambandi, þótt að vísu komist þangað sérstaklega útbúinn bíll, sem hefur haldið uppi mjólkurflutningum. Hins vegar vantar mjög á, að vegagerð þar sé komin í sæmilegt horf. Enn þá hefur hv. fjvn. ekki fengizt til að taka upp fjárveitingu til þessa vegar, og flyt ég því brtt. um 50 þús. kr. fjárveitingu til hans. Ég skal taka það fram, að án þess að fjvn. samþykkti það, þá hefur fengizt af 22 gr. fjárl. um 25 þús. kr. fjárveiting í hvort skipti til samgöngubóta á þessum slóðum.

Þriðja brtt. mín er varðandi Fróðárhrepps- og Eyrarsveitarveg. Er lagt til, að þangað verði veittur 20 þús. kr. styrkur, en þar sem um tvo vegi er að ræða, legg ég til, að hann verði hækkaður upp í 40 þús. kr. Þrjár ofangreindar brtt. eru undir I. á þskj. 322.

Næst á ég brtt. á sama þskj., XVI. liður, sem er tvær till. Sú fyrri er nýr liður og fjallar um framlög til lendingarbóta að Hellum, að upphæð 10 þús. kr. Ég flutti þessa till. í fyrra, en hún fékk þá ekki náð fyrir augum þingsins. Er þarna um mikla þörf að ræða. Ég býst ekki við, að mikið verði unnt að vinna fyrir þessa upphæð, en þó mundi þetta bæta mjög úr skák fyrir þá báta, sem þaðan stunda sjó. Skýrði ég þetta nánar í fyrra eða á tveim síðast liðnum þingum og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um till. þessa, enda ekki um stóra upphæð að ræða. — Síðari till. undir sama lið er einnig nýr liður og fjallar um byggingarstyrk til Hellnakirkju. Hef ég einnig skýrt það mál nánar áður. Þarna er fámennur söfnuður, sem hefur ráðizt í að koma, upp kirkju við erfiðar fjárhagsástæður, og hvíla allmiklar skuldir á kirkjunni. Kunnugt er, að margir staðir hafa fengið slíkan byggingarstyrk, og sé ég því ekki, hvaða sanngirni er í því að veita sumum kirkjum hann, en öðrum ekki, sem eins stendur á um.

Loks á ég á sama þskj. brtt. undir XIX. lið. Er það nýr liður og kveður á um 10 þús. kr. byggingarstyrk til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi. Er þetta eitt af hinum gömlu merkilegu amtsbókasöfnum. Stendur bókasafnið á einum fegursta og víðsýnasta stað í Stykkishólmi, en er nú gersamlega að hruni komið. Hefur það annars fengið nokkurn rekstrarstyrk undanfarin ár. Hefur verið gerð áætlun um, hvað kosta mundi að byggja yfir safnið, og telur húsameistari ríkisins, að það muni kosta 60 þús. kr. Nú hefur sýslan og hreppurinn lagt fram eins ríflegan skerf til þessa og frekast er hægt að heimta, og held ég, að þau eigi 15–20 þús. kr. í byggingarsjóði. Hins vegar er ómögulegt fyrir þessa aðila að leggja út í þessa safnsbyggingu, nema einhver styrkur komi á móti úr ríkissjóði. Ég færði nánari rök fyrir þessu í fyrra, og fór ég þá fram á 20 þús. kr. styrk, en hann náði ekki fram að ganga. Fer ég nú aðeins fram á 10 þús. kr. styrk. Ég vil taka það fram, að sér er ekki um eins dæmi að ræða. Í fyrra var m. a. á Ísafirði og Húsavík veittur sérstakur byggingarstyrkur auk rekstrarstyrks. — Sé ég ekki ástæðu á þessu stigi málsins til þess að fara fleiri orðum um þessar brtt. mínar.