26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

31. mál, menntaskólar

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti Ég flyt hér ásamt hv. 2. þm. Reykv. (EOl) brtt. á þskj. 632 við frv. það, sem hér liggur fyrir, en henni er því miður ekki búið að útbýta enn þá. Fyrri till. á þskj. miðar að því að taka upp esperanto sem kennslugrein við menntaskólana, og er óþarfi að færa rök fyrir því, hve mikill kostur væri að því að það mál væri kennt við þessa skóla. Esperanto er fyrir löngu viðurkennt mál, og fyrir stríð var það viðurkennt í flestum skólum erlendis sem eitt af fjórum aðaltungumálunum. Þótt við Íslendingar tækjum upp slíka kennslu við menntaskólana, mundi það litlu áorka á heimsmælikvarða, því að það væri að sjálfsögðu miklu þýðingarmeira, ef eitthvert stórveldanna tæki upp þetta mál sem skyldukennslugrein í skólum sínum, en við lítum svo á, að með þessu gefum við öðrum þjóðum gott fordæmi og hér sé stigið spor í rétta átt. Vænti ég þess, að hv. dm. greiði till. atkv.

Þá flytjum við á sama þskj. aðra brtt., sem kveður á um að fella niður orðin „kristin fræði“ úr 9. gr. frv. Mín skoðun hefur ávallt verið sú, frá því að ég gekk í menntaskólann, að kennsla í kristnum fræðum, eins og hún tíðkast þar, eigi ekki að eiga sér stað. Ég veit, að fjöldi manna, bæði þeir, sem hafa stundað nám í menntaskólum, og eins aðrir, eru sömu skoðunar og ég um þetta atriði, og þess vegna hefur mér þótt rétt að flytja þessa brtt. Eins og þessari kennslu er nú háttað, mun hún eingöngu fara fram í lestri á biblíusögunum. — Mér er ljóst, að þetta er hégómamál á móts við það að fá nýja löggjöf um menntaskóla, en hins vegar er mér einnig ljóst, að þetta er tilfinningamál fyrir marga, en mér hefur þótt rétt að flytja till. um þetta atriði, svo að einnig þetta sjónarmið mitt og margra annarra, sem mér er kunnugt um, komi fram.