17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

31. mál, menntaskólar

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, þá hefur menntmn. mælt með því, að þetta frv. verði samþ., og sé ég ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum. Það er hv. þdm. kunnugt. Frv. tók litlum breyt. í hv. Nd., þar sem það fyrst var lagt fram. Það er þó ástæða til að taka það fram, að þetta frv. er einn sérstakur liður í því skólakerfi, sem lögfest var nú fyrir stuttu á þessu þingi sem lög um skólakerfi og fræðsluskyldu. Og það er full ástæða til að setja sérstök lög um menntaskólana, ekki sízt vegna þess, að það er ósamræmi í þeim lögum og reglum, sem um þá hafa verið látin vera gildandi. Um Menntaskólann í Reykjavík eru ekki til nein lög. Hann starfar samkv. reglugerð, sem sett var eftir frv., sem dagaði uppi á þingi að ég ætla 1932. Aftur á móti eru til lög um Menntaskólann á Akureyri, sem hann þó hefur ekki starfað reglulega eftir, heldur að nokkru leyti eftir reglugerð Menntaskólans í Reykjavík. Það er því full þörf á að kippa þessu í lag með því að setja samræmd lög um menntaskólana.

Það er tekið fram í nál., að n. hafi veitt því athygli, að í frv. vanti ákvæði um ákveðna kennsluskyldu fastra kennara hliðstætt þeim, sem gilda um kennsluskyldu við aðra opinbera skóla. Þess vegna hefur n. athugað þetta, og hún, a. m. k. meiri hl. hennar, gerir ráð fyrir að flytja við 3. umr. brtt. um að bæta slíku ákvæði inn í frv.