08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

16. mál, fjárlög 1946

Frsm. samvn. samgm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Í fjárl. ár hvert hefur nú um undanfarin ár verið fastur liður á 13. gr. B. 2. um flóabáta, — styrkur eða tillag til rekstrar samgangna kringum landið, sem eru ekki reglulegar strandferðir. Þennan lið hefur önnur n. en fjvn. haft til meðferðar, sem sé samgöngumálanefndir Alþ., sem einu nafni hafa kallazt samvinnun. samgöngumála. Nál. hefur nú samvn. samgm. gefið út á þskj. 270. Og till. n. um allar upphæðir, sem veita þurfi og segja má, að óhjákvæmilegt sé undir öllum kringumstæðum að veita til þessa, eru samanlagt til þessara samgangna kr. 853.150. Þetta hefur hv. fjvn. líka tekið til meðferðar, og fylgir hennar brtt. till. um að koma þeirri upphæð inn í fjárlagafrv., svo að samvinnun. samgm. gerir engar sérstakar brtt. um það, heldur hefur orðið að samkomulagi, að það yrði falið fjvn. Að öðru leyti heldur sér það ákvæði til varhygðar, sem einnig hefur staðið í fjárl., hvernig greiðsla á þessum styrkjum fari fram. Þar eru skilorð, sem fylgja með, sem verða eins og síðast algerð skilyrði fyrir greiðslu fjárins. En að tilhlutan ráðuneytisins hefur Skipaútgerð ríkisins haft umsjón með þessum samgöngum og að nokkru leyti samgöngurnar á hendi og eins till. um greiðslu þessa fjár, að fengnum skilríkjum. — Á þskj. 270 gefur einnig að líta, sem nauðsynlegt er, til þess að greiðsla geti farið fram eins og til er ætlazt, yfirlit um skiptinguna, þar sem talið er upp, hvað veita beri til þessara samgangna á hverjum stað, sem hér koma til greina í kringum land allt Og má segja, þó lauslega sé, að þetta skiptist nokkuð eftir landsfjórðungum. Og einnig tekur nál. svo til í grg., að talað er um höfuðsamgöngurnar í hverjum landsfjórðungi, og eru þeir bátar sem samgöngutæki taldir í þessu yfirliti, sem hér eiga að koma til greina. Þó hafa víða gloppur orðið á, sérstaklega á stríðstímanum, um það að ávallt hafi orðið svo nægilegir farkostir sem skyldi til þessara samgangna, svo að leita hefur þurft sérstakra úrræða þar, sem allt hefur komizt í óefni, bæði vegna þess að ekki hefur verið hægt að halda uppi samgöngum af hálfu héraða og eins hafa nokkrir misbrestir orðið á því, hvernig þessir bátar hafa reynzt og að hvaða haldi þeir hafa komið. En úr því hefur Skipaútgerðin átt að bæta, enda gert það eftir föngum. Svo að í heild má segja, að það þyki mjög vel við hlítandi eftir atvikum eins og þessu hefur verið fyrir komið og rekið einnig á síðasta ári. Er þess að vísu vænzt, að nokkrar umbætur komi til í þessu efni, þegar strandferðabátarnir nýju koma til, því að þá mun vera í ráði að haga þessu á ýmsan hátt öðruvísi en nú hefur verið um hríð og þá með öruggari hætti. En það mun nú fyrst koma til að ári, þegar fjallað verður um þessi mál fyrir næsta ár þar á eftir, og þá til framkvæmda á árinu 1947, ef vænta má, að málið fái greiðan framgang.

Ég hef ekki orðið þess var, að hv. þm. hafi gert neinar aths., eða komið fram með fyrirspurnir viðvíkjandi þessum sérstaka lið fjárl., og tel ég því ekki þörf á að greina frekar frá þessum málum, sem nál. samvn. samgm. ella tekur til í öllum höfuðatriðum svo, að skiljanlegt ætti að vera öllum hv. þm., sem hér þurfa að að líta. Því að það eru ekki nærri allir staðir á landinu, sem koma til greina í þessum efnum, eða mjög mismunandi eftir héruðum, hve ríka áherzlu ber að leggja á þessar samgöngur, heldur er fyrir samgöngunum séð með öðrum hætti oft og einatt í ákveðnum héruðum. En þó varðar þetta þjóðina í heild og atvinnuvegi í heild, svo fremi að við teljum, að samgöngur beri að hafa þann veg hjá hverju þjóðfélagi, að höfuðáherzla skal á það leggjast að halda samgöngum í góðu horfi, því að ella geti þjóðarbúið ekki staðizt. — Sé ég ekki þörf á að lengja þetta mál frekar, nema sérstakt tilefni gefist.