17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

31. mál, menntaskólar

Bjarni Benediktsson:

Ég vil bara benda á dagskrána. Er það ákaflega hart, að neitað skuli vera um frest, þegar ekki er hægt að taka málið fyrir nema afbrigði séu viðhöfð. Svo er og um fleiri mál. Hefur aldrei verið sagt, að menn mættu ekki bera fram brtt. Ætti málið að fá framgang, eins og prúðum þm. sæmir, þótt brtt. séu fluttar. En við getum stöðvað þetta fundarhald. — Brtt. eru í samræmi við meginefnið. Það hafa skolazt fullyrðingar um, hvort málið verði samþ. eða ekki.

Varðandi umsögn hv. þm., að bæjarráð Reykjavíkur hafi samþ. ákveðinn stað, þá hef ég því til að svara, að það er ekki á valdi bæjarráðs að ákveða stað fyrir eitt eða annað. En samþ. var í bæjarráði að synja ekki beiðni hæstv. ríkisstj. Menntaskólinn er nefnilega ríkisstofnun. Hins vegar er eigi nema rétt, að bæjarráð hafi sína skoðun á málinu. Ég er á Alþ. kominn til þess að halda á málefnum umbjóðenda minna. Finnst mér í meira lagi hart aðgöngu, ef okkur á eigi að gefast kostur á að tala við hæstv. ríkisstj.Hv. þm. veit, að ég gat þess í bæjarráði, að málið bæri að taka upp á réttum vettvangi, og hann er hér í þingsölunum. Ég hafði meira að segja hugsað mér að flytja það í Sþ.

Að lokum vildi ég svo taka fram, að mér þykir það vera harðir kostir, ef meina á mér að flytja mál mitt hér.