23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

31. mál, menntaskólar

Bjarni Benediktsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, en því miður geta þær ekki orðið til þess, að ég taki mína till. aftur, heldur sýnist mér rétt, að þar skeri atkv. úr, sérstaklega vegna þess að hæstv. ráðh. skýrði frá því, að hann teldi þetta mál í raun og veru afgert, og þá er ljóst, að ef á að fá þeirri ákvörðun haggað, sem hann sagði, að sé búið að taka, þá verður Alþingi að gera þær ráðstafanir í því formi, að öruggt sé, að vilji þess sé virtur. Nú veit ég ekki, hver er vilji Alþingis í þessu efni, ég hef ekki borið mig saman við aðra um þessa till., en ég hef þá öruggu sannfæringu, að hún sé réttmæt. Ég vil því stefna að því, ef menn eru mér þar sammála, að þá verði sá vilji settur fram á bindandi hátt. Það er ekki nein tortryggni til hæstv. ráðh., og ég mundi láta mér nægja að flytja þáltill. um áskorun til hans, ef hann væri ekki svo ráðinn í þessu eftir till. þeirra, sem hann hefur haft til ráðuneytis, og ég er sannfærður um, að því verður ekki haggað nema með sérstakri bindandi ákvörðun Alþingis. Það tekur því ekki að vera að deila um þetta lengur.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé búið að samþ. þetta í bæjarráði Reykjavíkur. Það er ekki rétt út af fyrir sig. Bæjarráð Reykjavikur hefur enga afstöðu tekið aðra en þá, að það vildi láta ríkisstj. fá þann stað undir skólann, sem af ríkisins hálfu yrði ákveðinn. Það var talið ríkisins mál, að það ætti að ráða því. Það er auðvitað hægt að byggja ágætan skóla inni í Laugarnesi, og af skipulagsástæðum er ekki hægt að amast við því. Hitt er annað mál, hvaða stað ríkisvaldið velur til að setja skólann á. Það á bæði að setja ákvarðanir um skólann og standa undir kostnaðinum, en ég gerði fyrirvara um það fyrir bæjarráði, að ég mundi á réttum vettvangi reyna að koma fram mínum skoðunum í þessu efni, þó að ég beinlínis legði til, að orðið væri við málaleitun ríkisstj.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það mundi alltaf verða svo, að meiri hluti þeirra, sem í skólann færu, þyrfti farartæki til að komast í hann. Ég leyfi mér að fullyrða af talsvert nánum kunnugleik í bænum og fyrirhuguðu skiplagi, að ef skólinn verður, látinn vera á þeim stað, sem hann er á, eða mjög nærri þeim stað, þá þarf lítill hluti þeirra, sem í skólann fara, á sérstökum farartækjum að halda til að komast í hann, en þar er öfugt með Laugarnes, því að þá verða langflestir af þeim, sem í skólann fara dags daglega, að fara með bílum á einn eða annan veg, og ég er ákaflega hræddur um, — og mín till. er m. a. komin fram af því, — að því yrði ekki til lengdar unað að hafa skólann inni í Laugarnesi, heldur mundi koma fram krafa um annan skóla, t. d. í Vesturbænum, þar sem nú er mjög vaxandi byggð, ef á að fara að velja skólanum þann stað, sem hægt er að finna afskekktastan fyrir neðan Elliðaár. Þetta eru engar ýkjur, heldur augljósar staðreyndir, og almenningur mun ekki sætta sig við það, því að ég þykist sjá fram á það, sem ég tel ekki heppilegt, að löggjafinn ýti undir, sem sé þá skoðun, sem ég og hæstv. ráðh. vitum um. að menntaskólunum fjölgi enn þá fyrir utan Verzlunarskólann.