23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

31. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég heyri, að hv. þm. er sammála mér; að æskilegt sé að blanda þessu máli ekki saman við frv. um menntaskóla, en hv. þm. segir að hann treysti því ekki, að þar sem búið væri að ákveða skólanum stað, þá yrði samþykkt Alþ. tekin til greina, ef hún væri í formi þál. Nú er ekki svo að skilja, að ég sé á móti því, að skólinn sé reistur á þeim stað, þar sem hann er, ef það er framkvæmanlegt, síður en svo. Það er tilfinningamál fyrir mér eins og flestum, sem hafa útskrifazt úr þessum skóla, þannig að ef ég sæi nokkurn kost þess, að skólinn gæti verið áfram á þessum stað og Alþingi væri búið að samþ. þáltill. um það, þá mundi ég auðvitað framkvæma hana. Og ef sú yfirlýsing liggur fyrir, þá vil ég vænta þess, að hv. þm. léti sér það nægja. En ef hann aftur á móti með engu móti getur látið sér það nægja, en vill fá um þetta bindandi samþykkt frá Alþingi í lagaformi, þá vil ég mælast til þess, að hann flytji sérstakt frv. um það mál, en blandi því ekki saman við þetta. Og ef hv. þm. vill ekki fallast á þetta og taka sína till. til baka, þá vil ég alvarlega mælast til þess við þm., hvað sem þeirra skoðun líður á þessu máli, hvar sem þeir vilja, að skólinn standi, þá greiði þeir atkv. á móti þessari till., greiði atkv. á móti því, að þessi gr. verði sett inn í það frv., sem hér liggur fyrir, og ljái þá heldur því máli lið, að skólanum verði ákveðinn staður þar, sem hv. 6. þm. Reykv. vill vera láta, án þess að blanda því inn í það mál, sem hér er um að ræða.

Annars held ég, að ástæðulaust sé fyrir okkur að ræða hér, hvar skólanum skuli ákveðinn staður. Þetta er í raun og veru mál, sem þarf mikillar rannsóknar við af sérfróðum mönnum, og ég þykist vera búinn að láta slíka rannsókn fara fram allýtarlega. Sjálfsagt má margt um þetta segja enn þá, en það er ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi haldið fram, að eins og nú standa sakir, þyrfti meiri hluti þeirra, sem skólann sækja, á farkosti að halda, þangað sem skólinn er nú, en ég sagði það, að þótt skólinn yrði þar, sem hann er nú, þá þyrfti allmikill hluti þeirra á farkosti að halda. Og ef hann yrði einhvers staðar annars staðar en á gamla staðnum, þá væri hvergi hægt að finna lóð, sem væri þannig sett, að ekki þyrfti meiri hluti þeirra, sem skólann sækja, á farkosti að halda.

Hv. þm. segist óttast, að það mundu koma upp kröfur um að fá skóla í vesturhluta bæjarins, ef hann væri nú reistur í austurhluta bæjarins. Mér þykir það satt að segja ekki ólíklegt, að það komi einhvern tíma að því, að upp komi kröfur um, að reistur verði nýr menntaskóli. Það er ætlazt til, að þessi skóli verði nokkuð rúmur, það er gert ráð fyrir, að hann taki a. m. k. 500 nemendur, en af skólamönnum er það talið með öllu ófært, að skólar séu öllu stærri en það, en stærstu skólar, sem geta komið til greina nú á dögum, séu fyrir 500–600 nemendur. Nú get ég gert ráð fyrir, að að því komi, að meira skólahúsnæði þurfi hér í Reykjavík fyrir þá, sem stunda menntaskólanám, og þá kemur að því að reisa nýjan skóla, og þá þætti mér ekki ólíklegt, að það yrði uppi um það krafa, að hann yrði reistur einhvers staðar fjarri hinum skólanum, t. d. í Vesturbænum, svo að ég óttast ekki slíkar kröfur, og þær koma sjálfsagt, áður en langt líður.