08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

16. mál, fjárlög 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég talaði hér fyrir mínum brtt. í gær. Hv. frsm. fjvn. taldi, að það væri svo um þessar tvær vegabrtt., sem ég flyt, að með tilliti til framlags til þeirra í fyrra — virtist mér hann meina — væri ekki ástæða til að auka framlagið nú. Um annan þessara vega, þar sem ekki er lagt til, að verði veittar nema 5 þús. kr. til vegarins, vildi ég þó enn taka fram til skýringar, að þessum vegi hefur verið komið þannig áfram undanfarið, a. m. k. þrjú síðast liðin ár, að einn og sami maður í héraðinu hefur lánað fé til þess að hægt væri að vinna að honum, og svo hefur fjárveiting komið eftir á. Nú hagar svo til, að ekki er eftir að vinna í þessum vegi nema að malbera dálítinn part, sem lagður var sumarið, sem leið og nær niður á árbakka, sem svo er hægt að aka eftir 30 km. leið alla leið á hreppsenda. Og mér þykir það hart, ef hæstv. Alþ. vill ekki veita þessar 5 þús. kr. til þess að vegurinn geti komizt áfram. Hins vegar skal viðurkennt, að ef hæstv. samgmrh., sem nú er staddur hér í salnum, vildi gefa vilyrði fyrir því, að fjárveiting fengist til þessa vegar að ári, ef þessi sami maður, sem ég gat um, lánaði fé til þess, að hægt væri að halda vegagerð þarna áfram og ljúka veginum á næsta sumri, þá mundi ég láta mér það nægja. Báðar þær leiðir til þess að ljúka þessum vegi eru færar, annaðhvort að hæstv. ráðh. gefi þetta vilyrði, sem ég mætti svo flytja þessum manni heima í héraði, eða þá hin, að samþ. þessa brtt. mína við fjárlagafrv.

Hv. frsm. fjvn. hefur lofað að taka til athugunar það, sem ég sagði um læknisvitjanastyrkina, og heldur þó hv. frsm. fjvn., að á því sé ekki þörf. En dæmið liggur þannig fyrir heima í héraði, að lítill hreppur, Loðmundarfjarðarhreppur, er í læknishéraði með Seyðisfjarðarkaupstað. Þessi hreppur hefur haft 200 kr. læknisvitjanastyrk, en breyt., sem gerð var í fyrra um þetta efni, er á þá leið, að ætlazt er til þess, að læknisvitjanastyrkir séu aðeins borgaðir til þeirra læknishéraða, sem hafa læknisvitjanasjóði, og því hefur enn ekki fengizt, síðan þessu var breytt þannig, útborgaður læknisvitjanastyrkur til þessa hrepps. Þarna er óhugsandi, að hægt sé að koma á því fyrirkomulagi, að læknisvitjanasjóður verði myndaður, þar sem meiri hluti læknishéraðsins er Seyðisfjarðarkaupstaður, því að kaupstaðurinn sjálfur hefur ekkert með hann að gera. En hins vegar verða íbúar Loðmundarfjarðarhrepps, ef þeir þurfa að sækja lækni, annaðhvort að fara á sjó eða yfir fjallgarð. Og ég fer fram á það við hv. fjvn., að hún hagi því svo, að þar, sem hagar svo til a. m. k., að læknisvitjanasjóðir verða ekki myndaðir, verði ekki læknisvitjanastyrkurinn tekinn af hreppunum, enda þótt almenna reglan sé — og ég er sammála því, að svo eigi að vera almenna reglan, — að veita eigi aðeins þennan styrk til þeirra læknishéraða, sem stofnað hafa læknisvitjanasjóði.

Ég er ánægður yfir því, að hv. form. fjvn. er mér sammála um það, að það sé dálítið athugavert við það að láta yfir helming af öllu byggingarefni, sem til landsins kemur, fara í opinberar byggingar, meðan svo er ástatt, að þegnar þjóðfélagsins allt of margir hafa ekki hús yfir höfuðið. En hv. form. fjvn. segist ekki hafa geta ráðið því í fjvn. Mér þykir mjög athugaverð stefna, sem hv. fjvn. hefur tekið í þessu efni, og ég álít rangt í sjálfu sér að gera það.

Þá vildi hv. form. fjvn. ekki telja vegamálastjóra manna dómbærastan um það, hvar mest væri þörf á brúm á landinu. Um það skal ég ekki deila við hann. Það er sjálfsagt alltaf ágreiningur um það, hvar brúa er mest þörf, hver sem á að dæma um það. En að öðru jöfnu verð ég samt að telja, að vegamálastjóri hafi töluvert betra yfirlit yfir þörf í þessu efni um land allt en hv. form. fjvn. og heldur en hver einstakur hv. þm. í fjvn. Því að það þarf meira en lítinn kunnugleika í öllum sýslum og hreppum landsins til þess að geta dæmt um, hvar mest er þörf á brúm. Og ég hefði talið rétt að hækka fjárveitingu til brúa yfirleitt það mikið, að þingið geti orðið að óskum vegamálastjóra um að brúa, auk þeirra vatnsfalla, sem fjárlagafrv. og till. fjvn. gera ráð fyrir að brúa, líka þrjár ár, sem vegamálastjóri lagði til, að væru brúaðar, og að meira fé væri veitt til brúargerða, sem við nokkrir þm. höfum flutt brtt. um, að bætt verði við. Með því höfum við farið eftir till. vegamálastjóra. Og hann er sá maður, sem langbezt yfirlit hefur um það, hvar mest er þörf á brúm á landinu.