08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

16. mál, fjárlög 1946

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Brtt. hv. fjvn. gefa mér ekki nema í fáum atriðum tilefni til umr. En ég á hér á þskj. 322 smávægilega brtt. ásamt tveim öðrum hv. þm., um námsstyrk handa efnilegum pilti, söngmanni, sem fór utan í haust til söngnáms í Stokkhólmi, Einari Sturlusyni. Hann er búinn að nema hér töluvert áður, og hugur hans stendur til þess að auka sér kunnáttu í söngmennt. Það liggja fyrir góð meðmæli með honum frá kennurum hans, Pétri Jónssyni óperusöngvara, dr. Urbantschitsch og Sigurði Þórðarsyni. Og nú sem stendur er hann að læra hjá einhverjum þeim ágætasta manni í þeirri grein, sem völ er á til þessarar kennslu, dr. Josep Hislop í Stokkhólmi. Það, sem fram á er farið, er 2500 kr., og skýri ég það ekki meir. Að öðru leyti vona ég, að n. og hv. þm. sjái sér fært að verða við þessari beiðni.

Ég vil aðeins, úr því að ég stóð upp út af þessari einu till. minni, láta þess getið, að það hefur, sem vænta má, mikið verið rætt um vegi og brýr. En mér var vonbrigði, þegar n. treysti sér ekki til að taka til greina óskir mínar og hv. samþm. míns, 1. þm. Árn., um svolitla hækkun á einum vegi þar í sýslu. Það er einna lægsta upphæðin, sem þar er um að ræða, sem fylgir þeim vegi, Skálholtsvegi. Hann er að miklu leyti ógerður, en mikil þörf. Við fórum fram á að hækka hann úr 10 þús., en n. hefur ekki talið sig geta orðið við þessari beiðni okkar, að hækka hann upp í 20 þús., og á móti ýmsum öðrum grösum, sem þar kennir, tel ég ekki til mikils mælzt. Ég hygg, að ef við hv. 1. þm. Árn. hefðum annar hvor átt sæti í fjvn., þá hefði þetta fengið góðan byr, því að það er svo venjulega, að þó að slík n. sem fjvn. sé skipuð einmitt hinum sanngjörnustu og beztu mönnum, sem vilja gera allt sem réttlátast, þá verður sjálfs höndin hollust. Ég býst við, að þessi litla brtt. komi aftur fram, og þá vona ég, að n. bæti kannske ráð sitt. Það er ekki af því, að þetta sé hroðvirkni hjá henni, en oft má lítið laglega fara, og þetta horfir þá til bóta.

Það væri gaman, ef maður vildi leggja út í að rabba um eitthvað fleira, ég hef kannske ástæðu til þess síðar, annaðhvort við þessa umr. eða við síðari umr. fjárl., en að svo stöddu hef ég ekki orð mín fleiri, en læt máli mínu lokið.