12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru sérstaklega ummæli hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), sem voru þess efnis, að mér fannst rétt að taka hér til máls. Þessir tveir hv. þm. lýstu yfir sem sinni skoðun, að þetta frv., sem hér lægi fyrir, bæri vott um, að sjávarútvegur okkar væri ekki lengur samkeppnishæfur og þess vegna þyrfti að grípa til slíkra neyðarráðstafana eins og þetta frv. gerði ráð fyrir; enn fremur að þetta frv. væri afleiðing af þeirri dýrtíðarverðbólgustefnu, sem farin hefði verið, og skildist mér á hv. 2. þm. S.-M., að þetta væri sérstaklega að kenna þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefði farið í þessum málum. — Ég lít á þetta mál, sem hér liggur fyrir, allt öðrum augum en þessir hv. þm. Ég get ekki fallizt á, að þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir að heimila hæstv. ríkisstj. að framkvæma með þessu frv., séu fram komnar vegna dýrtíðarmálanna sérstaklega. Ef þess er gætt, hvernig þessum málum var fyrir komið t. d. um það leyti, sem núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og hvernig ástandið var þá í verðlagsmálunum hér á landi, þá er það augljóst, að það, sem nú er verið að gera, og það, sem gert var um síðastliðin árámót, er ekki sérstaklega vegna þess, að dýrtíðin hafi hækkað á þessum tíma, heldur er hér fyrst og fremst um það að ræða, að það er einmitt nú verið að hlutast til um að hækka fiskverðið til fiskimanna fram yfir það, sem áður hefur verið. Fyrir rúmu ári síðan, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, var skráð fiskverð til fiskimanna kr. 0.45 pr. kg miðað við slægðan fisk, þó með haus, og hygg ég, að dýrtíðarvísitalan hafi þá verið kringum 275 stig. Þegar ríkisstj. hafði setið að völdum 2–3 mánuði, gerði hún ráðstafanir til þess, að fiskverðið væri hækkað til fiskimanna um það bil 8%, og hafði þá dýrtíðin ekki vaxið neitt á þeim fáu mánuðum. Hæstv. ríkisstj. gat komið þessari fiskverðhækkun fram á þá lund að velta þessari verðhækkun yfir á þá, sem önnuðust fiskflutninga á erlendan markað, og voru þeir skyldaðir til þess að greiða fyrir allan þann fisk, sem þeir keyptu, með 15% verðhækkun frá því, sem gilt hafði um tveggja ára skeið. Hins vegar þótti ekki fært að láta frystihúsin greiða hækkað fiskverð, en sett var á verðjöfnun og er talið, að meðaltalshækkun hafi numið ca. 8%. Það frv., sem hér liggur nú fyrir, er beint áframhald af þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. um áramótin 1944–1945. Nú hefur hún enn hlutazt til um, að fiskverð til fiskimanna hækki um ca. 12% frá því, sem var, þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum. En þessi verðhækkun hefur ekki fengizt samþ. nema með þeim skilyrðum, að frystihúsin fái nokkra baktryggingu frá ríkinu vegna þessarar hækkunar, meðan ósýnt er, hvaða verð kemur til með að fást fyrir hraðfrysta fiskinn. Svipað er að segja um þann saltfisk, sem hér er ætlazt til, að ríkisstj. fái heimild til að verðtryggja allt upp að kr. 1.70 pr. kg. Ef maður ber saman það fiskverð, sem ákveðið var á vertíðinni 1944, og fiskverðið, sem ákveðið var 1945, og loks á vertíðinni 1946 og svo verðlagsmálin þessi sömu ár, þá er sýnilegt, að það eina, sem verulega hefur tekið breytingum, er það, að með ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. er fiskimönnum ákveðið nokkru hærra verð fyrir afla sinn en þeim var ákveðið árin áður. Þessar ráðstafanir ganga aðeins í þá átt að bæta nokkuð aðstöðu fiskimanna frá því, sem áður var, en ekki neinar afleiðingar af hækkuðu verðlagi á þessum tíma. — Það er alveg rétt, að árið 1944, þegar utanþingsstj. fór með völd, hefði verið hægt að hækka þetta fiskverð um 8% eða um 12% eins og nú, og meira að segja hefði það verið enn þá auðveldara þá, af því að á því ári var fiskverðið á erlendum markaði hærra en í fyrra og nú. Þá voru hins vegar engar slíkar ráðstafanir gerðar og dýrtíðin þó sú sama og nú, svo að það má öllum ljóst vera, að það frv., sem hér liggur fyrir til stuðnings bátaútveginum, er ekki að kenna stefnu hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálunum, heldur ber að þakka henni fyrir það, að hún skuli nú, þegar þessi mál eru orðin erfiðari en þau voru áður, sjá nauðsynina og réttlætið í því, að fiskverðið til fiskimannanna verði nokkuð hækkað frá því, sem var. Hitt er svo annað mál, að þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir í þessum efnum, eru að mínum dómi á engan hátt fullnægjandi og við þurfum að ganga lengra í þessum efnum. En það er líka rétt að athuga það, að þessi mál liggja nú þannig fyrir, að ekki er hægt um .vik að fá þeim þannig fyrir komið, að fiskimönnum verði yfirleitt sýnt fullkomið réttlæti.

Það hefur verið talið, að hraðfrystihús landsins, sem síðustu 3–4 ár hafa keypt verulegan hluta af fiskaflanum til vinnslu, hafi greitt fyrir hann sanngjarnt verð, og menn hafa yfirleitt slegið því föstu, að þau hafi ekki getað greitt hærra verð, þótt þeir hafi séð, að hraðfrystihúsunum hafi vegnað svo vel undanfarið, að þau hafa komið sér upp stórum og dýrum byggingum. Við höfum séð, að hraðfrystihúsin hafa safnað allmiklum fjármunum, og að dómi flestra fiskimanna hefur það verð verið skráð of lágt, sem þau hafa greitt fyrir aflann, miðað við getu þeirra. Ég er einnig á þeirri skoðun, að flest hinna nýju hraðfrystihúsa séu það vel úr garði gerð og það stæð, að þau gætu nú greitt það verð, sem nýlega hefur verið ákveðið fyrir fiskinn, þ. e. 50 aura fyrir kg, miðað við sama verð og gilti á hraðfrystum fiski síðastliðið ár, og ef tekið er tillit til þess, að flest þessi fyrirtæki hafa verið að auka vinnukraft og véltækni sína til mikilla muna á síðastliðnum árum, þannig að fyrirtækin hafa getað skilað eigendunum auknum arði, þá hefur þetta ekki verið látið koma fram í hækkuðu fiskverði til fiskimanna, fyrr en ef það verður gert nú að þessu sinni. En það er nú einu sinni orðið þannig, að ekki er auðhlaupið að því að skylda hraðfrystihúsin til að greiða fiskimönnum hærra verð fyrir aflann en þau hafa gert, vegna þeirrar hefðar, sem á er komin í þessum efnum, og það liggja ekki fyrir nægilegar skýrslur um það, hvað þessi fyrirtæki geta gefið fyrir hráefnið. Þegar nokkrar vonir stóðu til þess, að sjómenn fengju hærra verð fyrir fiskafla sinn, var ekki hægt að verða við kröfum þeirra nema ríkið yrði einnig við kröfum hraðfrystihúsaeigenda, þannig að það tæki á sig stóra bakábyrgð þeirra vegna, þar til séð yrði, hvaða verð fengist fyrir hraðfrysta fiskinn, þegar samningar hefðu farið fram. Hvað viðvíkur þeirri heimild, sem felst í þessu frv. og snýr að saltfiskinum, þá er einnig rétt að athuga það, að það verð, sem gert er ráð fyrir, að fáist fyrir hann, er mjög verulega hærra en það var öll stríðsárin. Hefur verið skýrt frá því hér, að saltfiskverðið eigi nú að vera kr. 1.54 pr. kg, en síðastliðið ár var verð á honum kr. 1.24 pr. kg. Má af þessu sjá, að það hefur verið hægt að hækka fiskverðið um 20–25% frá því, sem það var í fyrra, án þess að koma þyrfti til nokkurrar sérstakrar ábyrgðar ríkissjóðs fyrir þessa tegund fisks. Þetta sýnir, að hæstv. ríkisstj. hefur í þessu tilfelli verið að leitast við að koma fram verulegri hækkun á fiskverði til fiskimanna.

Þetta eru þau atriði, sem ég vildi undirstrika í sambandi við þetta mál. Það verður að skoða þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, í framhaldi af því, að hér er verið að koma fram verðhækkun á fiskinum til fiskimanna frá því, sem verðið hefur verið, þótt aðstaðan sé nú ekki betri til þess en verið hefur. Hér er hins vegar ekki verið að framkvæma verðhækkun á fiskinum af þörf vegna aukinnar dýrtíðar, sem orðið hafi t. d. frá því í fyrra. Flestum mun vera kunnugt, að upphæð þessi er of lág. Og hæpið er að miða verðið við vetrarvertíðina eina. Ég er hér með brtt. um að breyta 2. gr. frv., svo að hún verði líka bundin við upphæð til fiskafla þess, er saltaður verði til októberloka þ. á. En þessi brtt. er reyndar ekki enn komin fram. Það er ekki hægt að binda sig við vetrarvertíðarfisk. Einnig á að taka til greina fisk, er til fellur um sumarið. Það er ekki hægara fyrir þá, sem stunda sumarútgerð, að selja afla sinn, og er því nauðsynlegt, að þetta nái líka til þeirra. Er ekki óeðlilegt, að ábyrgð ríkisins nái út yfir sumarmánuðina.

Að því leyti, sem fiskflutningamálin frá síðasta ári hefur borið á góma, get ég verið fáorður. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að ekki hafi verið staðið við gefin loforð um fiskflutningana frá smáhöfnum. Skip hefðu ekki verið fengin til að ganga á þær og sú heimild hafi ekki verið notuð að styrkja fiskflutninga milli hafna. Ég hygg þetta vera munu ranghermi hjá hv. þm. Þessi heimild var veitt 1944, en þáv. atvmrh., sem einmitt er flokksbróðir þessa hv. þm., neitaði að notfæra sér heimildina, og var hún því ekki endurnýjuð 1945. Þá var hún ekki til. — Ég veit, að ýmsar smærri hafnir urðu þeirra skipa aðnjótandi, er ríkið hafði á leigu. Hygg ég, að einmitt megi þar nefna smáhafnir eins og Vopnafjörð og Bakkafjörð, sem hv. þm. tiltók. Mér er kunnugt um, að skip fiskimálanefndar tóku þar nokkrum sinnum fisk. En hafnir þessar eru hins vegar svo litlar, að varla er hægt að taka þar ísaðan fisk. Aflinn er svo lítill, að hann getur ekki fyllt fiskflutningaskipin á viðunanlega stuttum tíma eða svo, að fiskurinn skemmist ekki, enda get ég nefnt dæmi. Vissi ég um það, að eitt sinn, er skip hafði tekið fisk á þessum höfnum, þá fékkst ekki einn eyrir fyrir hann í erlendri höfn, m. ö. o.: hann eyðilagðist allur. Það var engin leið að koma aflanum í sómasamlegu ástandi á markaðinn. En menn fundu ástæðu til að reka upp neyðaróp mikið og ásaka fiskimálanefnd fyrir að stuðla að eyðileggingu fisksins. Það var takmörkunum háð að koma fiskinum á markaðinn. Fiskimálanefnd bar engin skylda til þess að reyta saman fisk á smáhöfnum úti um land.

Hér hefur einnig verið minnzt á útflutningsuppbæturnar. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þetta frv. væri að því leyti merkilegt, að nú væri í fyrsta skipti gert ráð fyrir að greiða útflutningsuppbætur á afurðir aðalatvinnuvegs þjóðarinnar. Hann væri ekki orðinn samkeppnisfær. Mér finnst of snemmt hjá hv. þm. að minnast á útflutningsuppbætur í þessu sambandi. Held ég, að frv. muni ekki leiða af sér greiðslu þeirra, og álít þess von, að til þeirrar þarfar komi ekki. En hitt er aðalatriðið, að ekki er hægt að koma fram fiskverðshækkun til sjómanna, nema ríkið vildi baktryggja hraðfrystihúsin. Það er ekkert víst, að til þess komi að greiða þetta. Leið þá, er ríkisstj. hefur farið, tel ég verið hafa alveg rétta.

Annar er sá þáttur þessa máls, sem ég tel rétt að drepa á. Flestir hafa gert sér ljóst, að algengust verkun á fiski hér áður fyrr, þ. e. a. s., að hann var ísaður, mundi ekki geta staðizt lengi eftir stríðslok. Menn hafa líka séð, að gamla aðferðin, saltfisksverkunin, yrði ekki tekin upp með sama árangri og fyrr. Flestir voru hins vegar á því máli, að við mundum hverfa að því að hraðfrysta fiskinn og sjóða hann niður. Þyrftum við þá sýnilega að koma okkur upp niðursuðuverksmiðjum og hraðfrystihúsum. Þá var auðséð og eðlilegt, að millibilsástand eins og nú er mundi skapast, meðan verið væri að skipta um yfir í hinar nýtízku aðferðir, hraðfrystingu og niðursuðu, og koma upp nægilega mörgum byggingum í þessu skyni. Við mundum þurfa að selja lengur með gömlu aðferðinni en hagkvæmir markaðir mundu fást. En þá var vandamálið. Átti að draga úr tekjum fiskimannanna með verðlækkun eða átti ríkið að styrkja sjómennina, þegar þeir yrðu að flytja út ísvarinn fisk lengur en æskilegt hefði verið? M. ö. o., spurningin var, hvort fiskimenn skyldu bera skaðann einir, eða hvort réttmætt væri, að ríkið hlypi undir bagga með þeim, tæki á sig ábyrgð og styrkti þá á annan hátt. — Við verðum að sjá, hversu meiri fisk við verðum að flytja út en heppilegt er. Álit flestra útgerðarmanna og sjómanna er, að ekki sé haganlegt að flytja út ísfisk í apríl og maímánuðum, en nú verðum við að gera þetta, þótt okkur þyki það slæmt. Af því að vinnslustöðvum hefur ekki fjölgað nægilega mikið, verðum við að flytja út þvílíkan fisk. Ég tel sjálfsagt, að ríkið taki á sig skakkaföllin. Á síðastliðnu vori hefðu fiskflutningar stöðvazt, ef ríkið hefði ekki aðstoðað, þá er margir skipsfarmar fóru fyrir ekki neitt, þegar ekki var hægt að selja fiskinn, af því að menn hlupu frá störfum sínum, en það var bein afleiðing af friðardögunum úti. Til viðbótar þeim ráðstöfunum, er hér um ræðir, tel ég brýna nauðsyn bera til þess, að ríkið styrki bátaútveginn meira.

Íslenzku fiskiskipin ein hafa nú fiskflutningana með höndum. Þau hafa talið sér hagkvæmt að flytja fiskinn út, þegar fiskverðið er hæst. Þegar kemur fram undir næstu mánaðamót, verðið lækkar niður í sumarverð, eins og venjulega, og allar fisksölur verða vafasamari, má búast við því, að íslenzku fiskflutningaskipin skorist undan því að kaupa fisk, flytja hann út og selja. Er viðbúið, að þau snúi sér að öðru í staðinn. Ég tel að stjórnin hefði því átt að hafa heimild til að láta ríkið annast flutningana, sjá um fisktökuskipin, taka þau á leigu eða jafnvel leigunámi e. ,t. v., svo að flotinn yrði svo lengi við flutningana og bátaútvegurinn krefst þess. Verið getur, að ekkert skip verði við flutninga á fiskinum eftir svo sem ½ mánuð. Það er engin leið að salta allan þann fisk, sem bátar kunna væntanlega að koma með. En stj. mun nú enga heimild hafa til leigunáms, og tel ég, að þessari heimild ætti að bæta við.

Svo er hér eitt atriði, sem hið opinbera verður að taka föstum tökum, en það er að fara að vinna kappsamlega að því að reisa fleiri fiskvinnsluverksmiðjur, svo að við þurfum ekki lengur að flytja út meiri ísfisk og saltfisk en nauðsynlegt er. Í Hornafirði er t. d. ekki enn hægt að hraðfrysta einn fiskugga, því síður að sjóða þar hið minnsta niður. En sumar leiðirnar til úrbóta eru neyðarleiðir. Á stöðum eins og Hornafirði verður hið opinbera óhjákvæmilega að taka í sínar hendur að koma fiskvinnslustöðvum upp. Fyrir Alþ. liggur nú frv. um, að ríkið beiti sér fyrir byggingu fiskvinnslustöðva. Mér er ljóst, að ríkið getur ekki lengur skorazt undan því að taka málið föstum tökum. Þetta ár má ekki líða sem hin fyrri, án þess að það sé tekið föstum tökum. Ég geymi mér svo að ræða það frekar.