20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Það er búið að ræða mikið þetta mál og hafa spunnizt út af því miklar umr., sem ekki beinlínis snerta það, en þó óbeinlínis, og er ekki nema gott eitt um það að segja. Ég vil taka fram, að það var ekki ég, sem byrjaði á því að koma þessu inn í umr., en mun þó ekki skorast undan að ræða það.

Út af nokkrum aths., sem fram komu hjá hv. 3. þm. Reykv., vil ég segja nokkur orð. Ég benti á, að skapazt hefði ósamræmi milli verzlunarinnar og sjávarútvegsins, og þessi þróun hefði byrjað fyrir alvöru, þegar innflutningshöftin voru sett á eftir kreppuna 1929–1932. Frá þeim tíma byrjar þetta ósamræmi og byggist á því, að þegar farið er að takmarka eins mikið úthlutun gjaldeyris eða innflutning alls konar iðnaðarvara inn í landið eins og gert er með gjaldeyrishöftunum og við úthlutun gjaldeyrisins eru gerðar áætlanir um það, hvað þjóðin þarf og ákveðnar verzlanir af gjaldeyri til kaupa á þessari vöru, — þegar slíkt er komið á, er verulegur hluti af þeirri áhættu, sem áður var í verzlunum, horfinn, nema hjá sérstökum verzlunum, sem kaupa óhæfa hluti. Ef þær kaupa góða hluti, þá er búið að ganga þannig frá málinu af þjóðfélagsins hálfu, að þær geta ekki tapað á þessu. Eftir því, sem hert er meira á innflutningshöftunum, því meiri gróðavegur er það hjá þessum fyrirtækjum. Verzlunin var örugg á mestu kreppuárunum. Þó að lítið sem ekkert fengist fyrir fiskinn og ekki mætti selja hann nema það bezta úr honum, var verzlunin örugg, þá mátti græða á henni. Og þetta fyrirbrigði verður til þess, að bankarnir ganga inn á þessa braut, vilja koma peningum sínum á þá staði, þar sem þeir geta fengið rentur, þeir lána peninga til þess að fá rentur fyrir þá, og þá auðvitað fyrst og fremst í verzlanir, en ekki í sjávarútveginn. Og þegar stríðið byrjar, er ástandið þannig, að fá má peninga í verzlunum. Allir, sem geta fengið innflutningsleyfi, geta fengið peninga. Það er opinbert leyndarmál, að gjaldeyrisleyfi gengu kaupum og sölum. Þeir, sem vildu fá vöruna, urðu bara að kaupa leyfi, og sá, sem gat fengið leyfi, var öruggur með að fá peninga. Meðan þessu fór fram, hélzt sama óvissan áfram í sjávarútveginum. Bankarnir héldu að sér höndum, því að þeir töldu peninga sína betur geymda í verzlununum en í sjávarútveginum. Útkoman hefur orðið sú, að við eigum sennilega einhverja þroskuðustu innanríkisverzlun, sem til er í heiminum, og í engu landi í víðri veröld mun vera eins mikið af fínum heildsalaskrifstofum og á Íslandi. Við höfum hér mikla viðhöfn í okkar innflutningsverzlun og betri aðstöðu til þess að pranga þessu inn á þjóðina en nokkur önnur þjóð í heiminum hefur. Þetta hefur líka haft sín áhrif til þess að auka dýrtíðina í landinu. Það er hlutur, sem allir í verzlunum viðurkenna, að það er orðið of mikið af fólki við verzlunarstörf, of mikill hluti þjóðarinnar, sem starfar að því að pranga inn á náungann, en vinnur ekki störf, sem skapa verðmæti fyrir þjóðina. — En jafnhliða þessu, að við höfum einhverja hina fullkomnustu innanríkisverzlun, sem skortir ekki fé til nokkurra hluta og getur haft tugi af flottum skrifstofum í sambandi við innflutningsverzlunina, þá erum við mjög illa staddir með sjávarútveg okkar. Við eigum engin tæki til að vinna úr sjávarafurðum okkar, svo að við verðum að flytja þær út óunnar, því að það skortir fjármagn í sjávarútveginn. Þeir menn, sem áttu peninga, vildu ekki leggja þá í sjávarútvegsfyrirtæki, og bankarnir voru hræddir við að lána útveginum. Hér voru aðeins örfá frystihús, þegar stríðið byrjaði, en þau hafa skapazt í stríðinu, og nú gera menn það af litlum efnum og verða að hætta öllum sínum eigum, þannig að einn skellur getur gert þá ómögulega. Maður getur rakið sig eftir öllum hraðfrystihúsunum í landinu, það eru yfirleitt fátækir menn, sem standa að þeim. Á sama tíma og innanríkisverzlun okkar blómgast, hnignar sjávarútveginum og við verðum að flytja út sjávarafurðir okkar ýmist óunnar eða á þann hátt, að við verðum að henda miklum hluta af framleiðslunni í sjóinn aftur. Og þó að menn gangi um og reyni að sannfæra peningastofnanir um það, hve miklu sé verið að henda í sjóinn af verðmætum, er ekki hægt að hafa áhrif á þá. Við flytjum út hrávörur, sem við fáum ekki nema sáralítið fyrir samanborið við það, sem við mundum fá, ef þær væru fluttar út unnar. Við eigum engar teljandi niðursuðuverksmiðjur, því að okkar litlu niðursuðuverksmiðjur eru tilraunir, gerðar af vanefnum og meir af áhuga en menn hafi fjármagn til þess. Og okkar litlu niðursuðuverksmiðjur eru allsendis ófærar um að keppa um verð við niðursuðuverksmiðjur erlendis, því að þær eru reknar í svo smáum stíl. Þetta er okkar stóra böl, hvað verzlunarstéttin tekur mikið til sín af kapítali þjóðarinnar. Í árslok 1944 var útkoman í bönkunum sú, að 20 millj. kr. voru lánaðar sjávarútveginum, en yfir 30 millj. verzlunum. Þessar tölur sýna, hvernig bankarnir meta hlutfallið milli verzlunarinnar og sjávarútvegsins og í þessu tilfelli á kostnað annarra stétta í þjóðfélaginu, sem fást við sjávarútveg. Það, sem ég hef sagt í þessum umr., er að ég tel þetta ósanngjarnt og óeðlilegt og hljóti að stefna í voða, ef svona heldur áfram. Það þarf að vera þannig, að íslenzkur sjávarútvegur sé blómlegur atvinnuvegur, það á að vera þannig, að það fjármagn, sem þjóðin hefur yfir að ráða, fari til þess að koma upp nýjum skipum og nýjum verksmiðjum til þess að vinna úr afurðum sjávarútvegsins, en verzlunin verður að vera í öðru sæti. Menn geta ekki lifað á því að selja hver öðrum. Menn lifa ekki á öðru en framleiðslunni, vörum, sem þeir geta sent út úr landinu. Þess vegna er það, að ástæðuna fyrir því, að sjávarútvegurinn stendur þannig af sér nú, er kannske fyrst og fremst að finna í því, að sjávarútvegurinn vinnur með frumstæðum tækjum, skipin hafa verið úrelt og verksmiðjurnar hafa verið úreltar, og það byggist á því, að það hefur skort fjármagn ,til þessara hluta. — Það eru til tvær leiðir til að gera sjávarútveginn samkeppnisfæran. Annað er að ganga á kaup verkafólksins, en hitt er að auka tæknina við sjávarútveginn, auka tæknina með fullkomnum hraðfrystihúsum og niðursuðuverksmiðjum. Með því getum við aukið afköst íslenzks vinnuafls svo, að það geti orðið samkeppnisfært við vinnuafl annarra landa. Við getum orðið samkeppnisfærir, af því að við búum við auðug fiskimið. En til þess að þetta sé hægt, verður sjávarútvegurinn að fá stórkostlega aukið fjármagn. Það er að vísu verið að gera ráðstafanir til þess að lána fé til sjávarútvegisins, og það er gott. En það er ekki nóg. Það verður að gera ráðstafanir til þess, að hver sá maður, sem á fé á Íslandi, sjái, að því er betur borgið með því að setja það í sjávarútveg en í verzlunarfyrirtæki. Verzlunin hefur þanizt of mikið út, tekið of mikið fé til sin. Þess vegna á að ráðstafa þessu þannig, að fjármagnið renni til sjávarútvegsins.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að heildsalaverzlunin væri háð opinberu eftirliti. Það er alveg rétt. Ég veit, að ríkisvaldið hefur beinlínis litið eftir því, að hún gæti grætt. Með því að takmarka mjög rækilega, hvað flytja mætti inn af hverri vöru, var vörusölunum fengið í hendurnar, hvað þeir gætu grætt mikið. Þeir þurftu ekki annað en setjast niður og reikna út, hvað þeir gætu grætt mikið á vörunni. Þeir hafa notið beztu kjara hjá ríkinu. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því, hvað verzlunin hefur þanizt út, en sjávarútvegurinn dregizt saman.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi kalla það einokun að tala um landsverzlun. Það má kalla það hvaða nafni sem er. En ef komið er á landsverzlun, þá á að gera það í þágu þjóðarheildarinnar, en ekki fara eftir því, hvernig það mundi falla í geð einhverjum fámennum hópi manna innan þjóðarinnar. Staðreynd er, að þeir, sem taka við gjaldeyrinum og kaupa eitthvað fyrir hann erlendis og selja innanlands, græða tugi milljóna. En hinir, sem hætta lífinu til að afla gjaldeyrisins, eru tæplega matvinnungar. Þetta er staðreynd, og þetta er hægt að jafna með því, að ríkið annist innflutninginn á nauðsynjum landsmanna. T. d. mundu fyrstu áhrifin af því verða þau, að fjöldi þeirra manna, sem starfa að verzlun, mundi ekki verða eins mikið í ósamræmi við framleiðslu þjóðarinnar í heild og nú er. — Hv. þm. talaði um afrek íslenzkrar verzlunarstéttar, hvernig hún hefði náð verzluninni úr útlendum höndum o. s. frv. Mér finnst önnur stétt fremri í því. Mér finnst sjómennirnir vera þar miklu fremri, ef fara ætti að metast um það og um afrek einstakra stétta. En nú er svo komið, að verzlunarstéttin er orðin þjóðinni til stórkostlegs trafala, og það er nauðsynlegt, að þessu verði kippt í lag. Ég veit, að það eru ýmis öfl, sem ekki viðurkenna þetta. Það er þægileg aðstaða, sem verzlunarstéttin er komin í, áhættulítil og veitir öruggan gróða, og verzlunarmenn vilja ógjarnan sleppa þeirri aðstöðu, sem þeir hafa. Það eru margir, sem telja ekki rétt að gera neinar ráðstafanir gegn verzlunarstéttinni. og það eru líka þau öfl, sem sérstaklega vilja seilast til valda, sem þarna hafa hagsmuna að gæta. En ég vil benda þessum mönnum á það, að það er ekki hægt að draga þetta mjög lengi. Það er hægt að draga það nokkurn tíma, en eftir því sem það er dregið lengur að kippa þessu í lag, því erfiðara verður það viðfangs og þungbærara atvinnulífi þjóðarinnar.