20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., hljóðar um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana vegna útflutnings á afurðum bátaútvegsins, en umr. um það hafa farið nokkru víðara en það gefur beinlínis tilefni til og snúast nú í seinni tíð að verulegu leyti um viðskiptamál almennt.

Ég ætla ekki að blanda mér mjög í viðskipti þeirra hv. 3. þm Reykv. og hæstv. atvmrh., sem töluðu hér á undan mér. Ég geri ráð fyrir, að þeir útkljái þetta sín á milli, væntanlega í bróðerni, því að hv. 3. þm. Reykv. er einn af öruggustu stuðningsmönnum þeirrar ríkisstj., sem þessi hæstv. ráðh. situr í. — Í næstsíðustu ræðu sinni um málið fyrir nokkrum dögum viðurkenndi hæstv. atvmrh., að það væri slælega unnið að markaðsöflun fyrir íslenzkar útflutningsvörur, og hann, gaf í skyn í þeirri ræðu sinni, að um það mál væri einhver ágreiningur innan stj. eða stjórnarflokkanna. A. m. k. var ekki hægt að skilja ummæli hans öðruvísi, þar sem hann taldi, að sterk öfl væru á móti því, að reynt væri að fá markaði fyrir íslenzkar afurðir í vissum löndum á meginlandinu. En það lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. hafi beygt sig fyrir þessum öflum, því að vitanlega hefði hann, eins og þegar hefur verið bent á í umr. af öðrum en mér, getað átt frumkvæðið að aðgerðum í þessu máli. En það er ekki eingöngu, að það hafi verið vanrækt að gera það, sem gera þurfti til þess að reyna að afla markaða fyrir útflutningsvörur í öðrum löndum. Hæstv. ríkisstj. hefur einnig nú dregið óhæfilega lengi að ná samningum um kaup á ýmsum nauðsynjavörum frá öðrum löndum, sem við höfum helzt þörf fyrir. Stj. hefur dregið það t. d. að reyna að fá viðskiptasamning við Svía í stað þeirra, sem eru útrunnir, og af þessu leiðir það, að Íslendingum er nú t. d. neitað um að fá keypt timbur í Svíþjóð, meðan ýmsar aðrar þjóðir geta keypt þá vöru þar. Þó að innflytjendur séu búnir að fá leyfi til innflutnings frá viðskiptaráði og nýbyggingarráði, hefur það ekkert að segja, því að þegar þeir leitast fyrir um kaup á þessari vöru í Svíþjóð, þar sem áður hafði verið talið, að helzt væri heppilegt fyrir okkur að kaupa þessa vöru, þá er svarið þetta: Við seljum ekki Íslendingum, það eru engir viðskiptasamningar við Ísland. Það þarf ekki að lýsa því, hvaða afleiðingar þetta getur haft, og það er satt að segja broslegt, þó að það sé of alvarlegt til þess að brosa að því, þegar hér á Alþ. er dag eftir dag rætt um ýmiss konar framkvæmdir, og það stórar byggingaframkvæmdir, sem mikið byggingarefni þarf til, og verið að gera samþykktir um slíkt, en á sama tíma er vanrækt að reyna að ná viðskiptasamningum við þær þjóðir, sem við þurfum að kaupa byggingarefni af. Það verða vitanlega ekki gerðar byggingarframkvæmdir hjá því opinbera eða einstaklingum í sumar, ef það verður dregið öllu lengur að reyna að ná samningum um þessi mál. Raunar er það orðið of seint, því að það tekur nokkurn tíma að ná í þessar vörur og fá þær fluttar hingað til lands. Það verða ekki byggð hús úr því timbri á árinu 1946, sem ekki fæst fyrr en fyrri hluta næsta árs.

Hæstv. ráðh. talaði einnig í sambandi við þessar umr. um verzlanafjöldann, um of marga menn við innflutningsverzlunina, of mikið fé, sem fest væri í þeirri starfsemi. Og til þess að ráða bót á þessu vill hann, að sett sé á stofn landsverzlun. Það er að sjálfsögðu nokkuð til í því, að þeir séu of margir, sem fást við innflutningsverzlunina, og það er rétt, að það er mikið fé bundið í verzlun. En ég tel, að þeir ágallar, sem hér má benda á, verði ekki bezt lagaðir með stofnun allsherjar landsverzlunar, ég hef ekki trú á því. A. m. k. tel ég engar líkur til, að stofnun slíks fyrirtækis væri til happa fyrir þjóðfélagið undir þeirri ríkisstj., sem við búum nú við. Samvinnufélagsskapurinn er að mínu áliti heppilegri fyrir landsmenn en landsverzlun. Má benda á það, að hjá samvinnufélögum landsins starfar miklu færra fólk en hjá öðrum verzlunum miðað við umsetningu, og það er hlutfallslega miklu minna fjármagn fest í verzlunarstarfsemi samvinnufélaganna en kaupmannaverzlana og fyrirtækja. Það mun láta nærri, að S.Í.S. flytji nú inn til landsins fast að því eða um helming af ýmsum brýnustu nauðsynjum landsmanna. Á það einkum við um kornvörur, en það hefur miklu minni innflutning tiltölulega af ýmsum öðrum vöruflokkum, og það er fyrir ráðstafanir yfirvaldanna, að innflutningshluti samvinnufélaganna er þar svo takmarkaður. Það má vekja athygli á því í þessu sambandi, þegar maður athugar, hvað mikið af innflutningi sumra nauðsynjavörutegunda er í höndum samvinnufélaga, hvað mikið samvinnufélögin hafa að láni hjá bönkum landsins til þessarar verzlunarstarfsemi samanborið við aðrar verzlanir. Um síðustu áramót var rúmlega ¼ hluti af útlánum Landsbanka Íslands hjá kaupmannaverzlunum í landinu. En hvað samvinnufélögin snertir, var þetta þannig, að á máti hverjum 125 kr., sem Landsbankinn átti hjá kaupmannaverzlunum, átti hann aðeins eina krónu hjá samvinnufélögunum. Það var 1 króna á móti 125 kr. á sama tíma sem samvinnufélögin fluttu inn fast að því helming af þeim kornvörum, sem fluttar voru til landsins. — En til þess að samvinnufélögin geti notið sín, þurfa þau að búa við eðlileg starfsskilyrði, og ef þau hafa þau, þá þarf enginn landsmanna að láta annan græða á því að kaupa inn vörur fyrir sig. Þá geta þeir átt þetta sjálfir í félagi, og það verður að minni hyggju heppilegra en ein allsherjar landsverzlun. En því miður er það svo nú, eins og ég gat um áðan, að núv. stj. hefur að ýmsu leyti þrengt kosti samvinnufélaganna á þann hátt, að þeim er skammtað nú, við úthlutun innflutningsleyfa, hlutfallslega minna en áður af ýmsum þeim vöruflokkum, sem verulega er gróðavænlegt að verzla með. Ég held því, að ef hæstv. atvmrh. er alvara með það að laga verzlunina, þá ætti hann að byrja á að kippa þessu í lag. Það, sem ég tel, að gera þyrfti nú, væri að gera innflutningsverzlunina frjálsari en nú er. Það er auðvelt að gera nú, vegna þess að gjaldeyrisástæður okkar eru þannig. Menn gerðu sér vonir um það, þegar það frv. um innflutning og gjaldeyrisverzlun var til meðferðar, sem afgr. var á fyrri hluta þessa þings, og byggðu það á ummælum hæstv. viðskmrh., að það mundi rýmkast eitthvað um þetta, því að í þeim 1. er gert ráð fyrir, að innflutningurinn verði yfirleitt frjáls, en aðeins teknar á lista einstakar vörutegundir, sem þyrfti að fá leyfi stjórnarvaldanna, til að flytja til landsins. En engin framkvæmd hefur orðið enn í þessu efni, og er allt háð leyfisveitingum nú, eins og á þeim tíma, þegar okkur skorti mjög gjaldeyri til þess að kaupa inn vörur frá útlöndum. Það er einmitt þetta, sem ég tel, að kippa þyrfti í lag. Þá væru menn frjálsir að því að haga viðskiptum sínum á þann hátt, sem þeir kjósa. Þá hefðu þeir möguleika til þess að verzla í samvinnufélögum, sem það vildu, en hinir að verzla við kaupmenn, sem hefðu löngun til þess. Þannig álít ég, að þetta ætti að vera. Ég vil því, hvað þetta atriði snertir, beina þeirri áskorun til hv. 3. þm. Reykv., að hann beini áhrifum sínum við hæstv. stj., sérstaklega viðskmrh., sem er í hans flokki, að hann rýmki nokkuð um þessi höft, eins og fyrirheit var gefið um, það verði ekki látið dragast lengur.

Hæstv. atvmrh. sagði í lok ræðu sinnar, að sjávarútvegurinn þyrfti að aukast og verða blómlegasti atvinnuvegur hér á landi. Þetta er vel og fallega mælt. En ég held, að til þess að þetta megi verða, þurfi að taka upp allt aðra stefnu í atvinnu- og fjármálum en núv. stj. fylgir, enda lýsti hæstv. ráðh. sjálfur ástandinu þannig í lok ræðunnar, að fáir vildu leggja fé í þennan nauðsynlega atvinnuveg. Þannig er það þá komið undir hans stjórn.