16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mál þetta var á dagskrá á fundi deildarinnar í gær. Ég fór þá fram á, að umr. yrði frestað, svo að fjhn. gæti athugað málið. Því miður hefur þessi frestur ekki orðið að neinu gagni. Enginn fundur hefur verið haldinn í n., svo að málið situr í sama farinu og í gær.

Frv. þetta er flutt samkv. beiðni atvmrh., en nú hefur hæstv. ráðh. lagt fram brtt. á þskj. 849. Í fyrsta lagi er þar lagt til, að eigendur hraðfrystihúsa greiði skatt í ríkissjóð, ef verð á fiskinum fer yfir ákveðið mark. Í öðru lagi, ef verðið verður hærra en þar greinir, skuli hraðfrystihúsaeigendur greiða helming þess, sem þar er fram yfir, til fiskeigenda. Mér þykir þetta dálítið einkennilegt ákvæði, þegar þess er gætt, að hraðfrystihúsaeigendur eru venjulega hinir sömu og fiskeigendur. — Þá er næst heimild fyrir ríkisstj. til að taka á leigu 20 skip til að flytja fisk á erlendan markað. Þetta er allstórt mál, og virðist geta verið um nokkra áhættu að ræða. Og loks leggur hæstv. ráðh. til, að ríkissjóði sé heimilað að greiða verð þeirra útflutningsafurða, sem seldar verða með gjaldfresti.

Ég geri ráð fyrir, að þessar till. hæstv. ráðh. séu fram komnar vegna þeirra tíðinda, sem gerzt hafa, að ísfiskverðið hefur lækkað og talið er, að margir fiskflutningaskipaeigendur ætli að hætta fiskkaupum sakir lækkunarinnar. Nú fer því fjarri, að hér sé um haldgóða ráðstöfun að ræða, þótt hún geti forðað hruni í bili, en um það þýðir nú ekki að ræða við hæstv. ríkisstj. En þessi aðferð sýnir, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að gera ráðstafanir, sem að gagni megi koma. En úr því að slíkar till. eru fram bornar sem þessar, þá sýnist mér, að ekki verði hjá því komizt að gera hliðstæðar ráðstafanir fyrir alla framleiðsluna, og þá ekki síður vegna landbúnaðarins og tryggja honum það verð, sem hann þarfnast fyrir útfluttar afurðir. Ég hafði ætlað mér að leggja fram brtt. um þetta í n., en úr því varð ekki, þar sem enginn fundur var haldinn, svo að nú á ég ekki annars kost en bera hér fram skriflega brtt. varðandi þetta. Brtt. sú, sem ég flyt um þetta, er samhljóða þeim ákvæðum, sem lögfest voru viðvíkjandi útflutningsafurðum landbúnaðarins fyrir rúmu ári síðan eða 15. sept. 1944. Þá legg ég til, að fyrirsögn frv. verði breytt þannig, að í stað „bátaútvegsins“ komi : atvinnuveganna. Ég vænti þess, að hv. þdm. sé það ljóst, að fyrst á annað borð er ekki farin önnur leið en reyna að halda atvinnuvegunum gangandi fyrst um sinn með fjárgreiðslum úr ríkissjóði, þá er óhjákvæmilegt, að þetta gangi jafnt yfir landbúnað og sjávarútveg. Hins vegar er ég fús til að taka hina skriflegu brtt. mína aftur til 3. umr., ef óskað er, svo að hún geti legið fyrir prentuð.